Fara í efni

Í DERRY: HEIMSÓKN INN Í LIÐNA TÍÐ SEM ÞÓ ER SVO NÆRRI

Mér var það merkileg reynsla að koma til Derry á Norður-Írlandi. Mín kynslóð ólst upp við fréttir af stríðsátökum þar óþægilega, og að okkur fannst, ótrúlega nærri okkur; að
borgarastyrjöld skyldi háð á Norður-Írlandi var óraunverulegt, líkt og það síðar varð undarlegt og óraunverluegt þegar Austurvöllur logaði í bókstaflegum skilningi haustið 2008 og í upphafi árs 2009 þegar fjármálakerfi Íslnds féll fyrir hendi glæframanna.

Allt getur gerst ef fólki finnst ranglætið vera orðið óbærilegt.

Og óbærilegt var það á Norður-Írlandi undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar og átti þó eftir að versna þegar komið var inn í áttunda áratuginn, tók ekki að lagast fyrr en undir lok hins tíunda. Þótt fátt geti ég hrósað Tony Blair fyrir á hans óheilla-vegferð sem forsætisráðherra Bretlands þá má breska ríkisstjórnin undir hans forystu eiga það að þá var í fyrsta sinn raunverulegur vilji til að stíga skref til sátta á Norður-Írlandi. Það skref varð til góðs. Um það deila fáir.

Í Derry talaði ég á fundi í annað skipti með Tommy McKearney. Ég nefni hann því í 17 ár sat hann í fangelsi fyrir aðild sína að þessum átökum. Ekki veit ég til þess að breskir hermenn hafi þurft að gjalda sinnar aðkomu að byssugikk eða fangelsunum án dóms og laga eins og breska yfirvaldið var látið komast upp með á Norður-Írlandi á þessum árum.

Þegar breski herinn skaut til bana 14 einstaklinga sem tóku þátt í kröfugömgu á “Bloody Sunday” árið 1972, gengu fleiri í írska lýðveldisherinn, IRA, en á nokkru öðru tímabili. Eftirminnilegt er þegar innanríkisráðherra Bretlands, John Selwyn Lloyd, sagði í kjölfarið í breska þinginu að herinn hefði verið í sjálfsvörn að fella hryðjuverkamenn þá gekk ung þingkona á breska þinginu að honum og sló hann utan undir.

Mín kynslóð man hana vel, hina skeleggu óhræddu baráttukonu frá Norður-Írlandi, Bernadettu Devlin. Hún er jafnaldri minn en varð fyrir aðstæður meira bráðþroska en ég. Munaði talsverðu. Það er ekki fyrr en nú að ég er að taka út fullan þroska. Langar stundum til að slá margan fínklæddan ofbeldismanninn utanundir.

Fyrrenfndur Tommy McKearney var einn af þeim IRA föngum sem sætti sig ekki við það þegar bresk yfirvöld neituðu að viðurkenna þá sem stríðsfanga og vildu gera þá að almennum glæpamönnum og færa þá í fangelsisföt í samræmi við það og svipta þá ýmsum réttindum sem þeir þó höfðu notið sem stríðsfangar.

Tommy og sex félagar hans neituðu að klæðast einkennisfötum glæpamanna, fengu fyrir vikið ekki að yfirgefa klefa sína, heldur ekki til að fara á klósett, migu þá undir hurðina og smurðu saur sinn á klefaveggina. Þeir huldu líkama sinn með teppum, þess vegna var talað um “blanket protest”, teppa-mótmælin.

Hún varði í fjögur ár, 1976 - 80 og samhliða á síðari stigum hungurverkfall. Þá gáfust stjórnvöldin upp – en aðeins til að svíkja. Það kunnu þau vel. En vegna þessara svika komst Tommy þó lífs af. Þegar í ljós kom að áfram skyldu fangarnir settir í einkennisbúninga hófust hungurverkföll að nýju. Tíu létu lífið. Bobby Sands var þar í fyrirsvari og mátti sjá myndir af honum ús veggjum í Derry, svo og Bernadette Devlin (Greg Sharkey leiðsögumaður minn og skipuleggjandi fundarins sem ég sótti, er á mynd fyrir framan vegg prýddan mynd af Bernadettu ásamt fleirum.) Þarna voru einnig myndir sem minntu á Bloody Sunday og birti ég til hliðsjónar ljósmyndir teknar af mótmælendum þennan örlagaríka dag.  

IRA sprengdi og drap. Litu á þetta sem stríð sem það var.

Og nú - í þessari heimsókn - var ég kominn svo nærri þessu stríði eða öllu heldur minningunni um það. Í Bogside hverfinu í Derry eru húsveggir málaðir myndum byltingarfólks, samkennd augsýnileg með Suður-Afríku, Kúbu og núna Rojava.

Á myndinni hér að neðan stend ég við vegg sem reistur hafði verið á átakasvæðinu í Bogside, gaflinn á húsaröð sem stóð þar áður.
Vísað er til liðinna atburða en einnig til samtímans, það er til Rojava, í norðanverðu Sýrlandi, árásar Tyrkjahers á samfélagið þar.

Þarna fann ég til samstöðu um atburði sem eru fjarlægir en líka svo nálægir eins og Norður-Írland var í uppvexti mínum og er enn.

Sjá hér, battle of the Bogside: https://www.youtube.com/watch?v=Gpg-pEpaSwU&t=592s

John Lennon um Boody Sunday: 
https://www.youtube.com/watch?v=m0uLfO2ksQQ
free derry.png

 derry9.png

   bloody sunday.png

derry.png
bloodys2.png (1)
derry2.png
derry7.png

derry4.png

derry5.png