Fara í efni

Í ELDHÚSI ALÞINGIS


Ræða í Eldhúsdagsumræðum á Alþingi
Góðir landsmenn
Það er óvéfengjanleg staðreynd að við blasir mikill vandi í íslensku efnahagslífi og í íslensku samfélagi.
Verðbólga komin í 13 prósentustig og á uppleið. Samdráttur í ýmsum atvinnugreinum, geigvænlegur viðskiptahalli og skuldir þjóðarbúsins meiri en dæmi eru um. Þetta eru staðreyndir sem verður ekki umflúið að horfast í augu við. Það er líka staðreynd að gjaldmiðill okkar á í vanda og þar með allt okkar fjármála- og efnahagskerfi.
Vextir eru himinháir og fyrirsjáanlegt er að kaupmáttur fari rýrnandi.  Við finnum kulið af aðsteðjandi kreppu. Vandinn er mikill og að mestu leyti er hann heimabakaður, ekki að öllu leyti,  stórfelldar hækkanir á matvöru og olíu og skjálftahrina í heimi fjármála er ekki öll af íslenskri rót. Þegar á heildina er litið getum við þó sjálfum okkur um kennt.

En eins mótsagnakennt og það hljómar má finna sóknarfæri í sjálfsskaparvítunum. Því það sem er runnið undan rótum okkar sjálfra getum við hugsanlega lagfært - ekki allt - óafturkræfir minnisvarðar eru því miður alltof margir frá umliðnum árum. 

Það hefur verið hlutskipti VG undanfarin tvö kjörtímabil og nú einnig á því þriðja að vera í stjórnarandstöðu. Það er ekki alltaf auðvelt, betra er að sitja við stýrið en að reyna með fortölum að hafa áhrif á aksturslagið, nokkuð sem við höfum þó reynt að gera gagnvart fyrri ríkisstjórnum og einnig þeirri sem nú situr. Það er að segja þegar hún hefur verið stödd á landinu.

Eða skyldu menn nokkuð vera búnir að gleyma varnaðarorðum okkar þegar fjármálakerfið var einkavætt á einu bretti?
Og ég trúi ekki öðru en einhvern rámi í umræðuna um að óheft og skefjalaus stóriðjustefna myndi valda ruðningi í atvinnulífinu, auka viðskiptahallann, gera gjaldmiðilinn óstöðugan, keyra upp vexti og þrengja þannig að heimilum og atvinnurekstri. Þá var ekki hlustað og þegar við lögðum fram frumvarp um að aðgreining yrði gerð á milli viðskiptabanka og fjárfestingasjóða var það fellt hér í þinginu. Nú tala margir einmitt um nauðsyn þessa.

Ríkisstjórnin hefur nú setið - eða eigum við að segja sofið -  í eitt ár. Það sem hún helst hefur haft til málanna að leggja er hve óheppin hún hafi verið - allt öðrum að kenna. Og því miður er það svo að nú þegar hún virðist vera að vakna af sínum Þyrnirósarsvefni þá gerir hún það með andfælum,  skelfingu lostin, vegna þeirrar stöðu sem hún segir að kúrekarnir í bankageiranum hafi komið sér og okkur öllum í. Í stað þess að greina stöðuna rétt, þá virðist eiga að láta við það eitt sitja að setja allt undir einn hatt, taka risalán, loka augunum og vona síðan það besta.

En risasvaxnar lántökur án nauðsynlegs uppskurðar í efnahags- og fjármálakerfinu er ráðstöfun sem lítið hjálpar - getur jafnvel verið varasöm ef ekkert annað er að gert. Hið skynsamlega er að skipta upp bönkunum, í þann hluta sem þjónar íslensku atvinnulífi og hinn sem er að gambla á erlendum mörkuðum. Um þetta hafa menn lagt fram einfaldar og skynsamlegar útfærslur. Í upphafi þessa þings lagði Vinstrihreyfingin grænt framboð fram ítarlegar og efnismiklar tillögur um fyrirbyggjandi ráðstafnir  og skref sem stíga mætti til að styrkja undirstöður efnahagslífsins.

Nú er svo komið í þjóðfélaginu að krafist er aðgerða. Þeim fjölgar sem tala um þjóðarsátt - og ég tek undir það að á slíkri sátt er nú lífsnauðsyn. Sameiginlegu átak i þjóðarinnar allrar.

Í þjóðarsátt hljóta allir að þurfa að leggja fram eftir getu. Það þýðir að þeir sem hafa meira, þurfa að gefa meira eftir.

Ríkisstjórnin vill að verkalýðshreyfingin gangi á undan með góðu fordæmi. Það bólar hins vegar ekki á þátttöku yfirstéttarinnar. Ráðherrar ríghalda í forréttindi sín og auðmennirnir hafa meiri áhyggjur af sportbílunum og þotunum en samborgurum sínum. Í vikunni sagðist einn forstjórinn þurfa að fá leyfi fyrir tvö þúsund fermetra skýli fyrir einkaþotur því það rigndi svo mikið á þær á Reykjavíkurflugvelli. Og fyrir sitt leyti hefur ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að það sé of erfitt að breyta eftirlaunalögunum. Það má vissulega til sanns vegar færa að það er erfitt að skerða eigin kjör. En það er því miður nokkuð sem almennngur á Íslandi býr nú við í óðaverðbólgunni og okuvöxtunum.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar sögðu í sjónvarpsþætti í gær að eftirlaunamálið væri ekki á meðal mikilvægustu málanna sem þyldu enga bið. Með öðrum orðum, ekki stórt mál og kannski er það bara smámál svona í þjóðhagslegu tilliti. En getur það verið að það skipti engu máli þótt ráðherrar hafi betri eftirlaun en allir aðrir og ferðist með einkaþotum? Þeir eru jú bara tólf - mælast varla í fjárlögum?

En ég spyr, er gott fordæmi nokkurn tímann smámál? Þótt gott fordæmi hafi engan sérstakan lið á fjárlögum þá vigtar það, ekki síst á tímum, sem allir eru beðnir að leggja af mörkum. Á þjóðarsáttartímum. 

Þjóðarsátt og frjálshyggja eru andstæður. Mér sýnist stefnan hjá forréttindastéttum þjóðfélagsins vera sú að þjóðarsátt sé fyrir almenning og frjálshyggjan fyrir efnamenn.

Nú þegar margt bendir til að þjóðin vilji bretta upp ermarnar til að vinna sig út úr vandanum, þá flýgur ríkisstjórnin og ráðamenn um veröldina í þotum, leigðum eða lánuðum. Allt í einu hefur birst okkur, þessum þrjúhundruð þúsund manns, ný stétt - annars vegar auðmenn sem kemur samfélagið ekkert við, virðast aldrei þurfa að leggja neitt af mörkum eða gefa eftir af sínum hagnaði og svo stjórnmálamenn sem gera lítið úr sínum eigin loforðum. Viðkvæðið er jafnan að efndirnar séu "í farvegi".

En spurt er: Af hverju á verkalýðshreyfingin að þurfa að gera kröfur um að ríkisstjórn efni sinn eiginn stjórnarsáttmála? Af hverju eiga öryrkjar og aldraðir að þurfa að ganga eftir efndum? Af hverju eiga fjölmiðlar sífellt að þurfa að minna á kosningaloforðin?

Okkur nægja ekki ferli og farvegir, við þurfum dugnað, skynsemi, efndir loforða og framkvæmdir.Við þurfum ríkisstjórn sem kann að leiða, kann að taka ákvarðanir, kann að tala kjark í þjóðina.

Ríkisstjórnin er í afneitun, efnafólkið er í afneitun. Það er ekkert að, segja þau, það þarf ekkert meira að gera, en samt þurfum við að taka lán. Það er stærsta lán Íslandssögunnar en samt er ekkert að.  Það er einhver kreppa í útlöndum. Ekki okkur að kenna og svo uppí næstu þotu, á næsta fund, á næstu ráðstefnu.

Við sjáum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, við sjáum ríkisstjórnina sveitta við að passa uppá gullrassinn á auðmannastéttinni. Við sjáum hina gáfuðustu og hugrökkustu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar á útopnu við að undirbúa kosningu í öryggisráðið, eldflaugavarnir í Búlgaríu og almannatengsl fyrir Nató í Afganistan.

Hvaða áherslur eru hjá auðmannastéttinni? Verðhækkanir á matvöru, verðhækkanir á lyfjum, vaxtahækkanir á húsnæðislánum. Niðurfelling skatta á söluhagnaði hlutabréfa. Og annað frumvarp lagði ríkisstjórnin fram um að heimila lífeyrissjóðum landsmanna að setja fjórðunginn af eignum sínum, 500 milljarða, inn í vogunarviðskipti fjármálafyrirtækjanna.

Er ekki komið nóg?  Auðmenn með tekjur á við þorp útá landi. Ríkisstjórn sem vill stýra heiminum, því Ísland sé of lítið. Og vilja öll vera  undanþegin þjóðarsátt, undanskilin herskyldu dagsins. Þetta lið er með nærsýni eða ilsig, og verður að fá frí.
Þótt dýrt verði að setja þessa ríkisstjórn á eftirlaun, þá er það einmitt það sem þjóðin þarf nú mest á að halda.
------------------------------------------------------------------
Umræðurnar:
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4411569

http://www.althingi.is/dba-bin/raedur.pl?lthing=135&malnr=781&mfl=B&umr=*