Fara í efni

Í GÓÐUM FÉLAGSSKAP VIÐ ILLAR AÐSTÆÐUR Í TYRKLANDI

Tyrkland - oj - 1
Tyrkland - oj - 1


Hér á heimasíðunni hef ég gert grein fyrir för minni til Tyrklands í sendinefnd, sem skipuð er stjórnmálamönnum, núverandi og fyrrverandi, fræðimönnum, fréttamönnum og baráttufólki fyrir mannréttindum.
Sendinefndin talar máli Kúrda og allra þeirra sem sæta ofsóknum af hálfu stjórnvalda í Tyrklandi en fyrst og fremst fyrir friði og samningaviðræðum um friðsamlegar lausnir.

Sendiinefndin hefur farið þess á leit að fá fund með dómsmálaráðherra Tyrklands en krafa okkar efst á blaði er að fá að hitta Öcalan, leiðtoga Kúrda. Hann hefur setið í einangrunafangelsi á eynni Imrali síðan 1999. Nýtur hann viðurkenningar sem talsmaður Kúrda en eftir að friðarferli lauk, samkvæmt ákvörðun Erdogans Tyrklandsforseta árið 2015 hefur verið lokað á öll samskipti við hann. Á síðustu mánuðum hafa margir þingmanna úr Lýðræðisfylkingu Kúrda, HDP, sem fékk sex miljón atkvæði í lýðræðislegum kosningum, verið hnepptir í fangelsi.

Í dag héldum við ásamt lögfræðingum HDP til borgarinnar Edirne í Þrakíu. Í fangelsi rétt utan við borgina er fangelsaður annar tveggja formanna HDP, Demirtas að nafni, og vildum við ná tali af hinum fangelsaða þingmanni. Því var neitað og efndum við þá til fréttamannafundar utan við hliðið að fangelsinu - en nærri því máttum við ekki koma.

Ég á eftir að greina ítarlega frá þessari ferð hér á heimasíðunni en þakklátur er ég Morgunblaðinu að sýna þessari för áhuga en á síðum þess blaðs hefur undanfarna daga verið greint frá því sem á dagana hefur drifið. Eyjunni þakka ég einnig áhugann á þessu máli.

Á myndinni hér að ofan er ég ásamt Jonathan Steele, gamalreyndum og margverðlaunuðum  fréttamanni breska stórblaðsins Guardians, fyrir utan fangelsið í Edirne.

Jonathan Steele er á meðal þeirra sem skipa sendinefndina. Þótt ekki væru aðrir en hann teldi ég mig vera í góðum félagsskap. Síðar mun ég greina frá öðrum samferðamönnum mínum, sem  getið hafa sér orð fyrir baráttu fyrir mannréttindum og ég met mikils.
Tyrkland - oj - 2