Í HAGSMUNAGÆSLU FYRIR ÞJÓÐINA, EKKI FJÁRMAGNIÐ
Birtist í Bændablaðinu 21.10.10
Ögmundur Jónasson tók við sem ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála 2. september síðastliðinn. Jafnframt settist Ögmundur í stól dómsmála- og mannréttindaráðherra en stefnt er að því að sameina þessi ráðuneyti um áramótin í nýju innanríkisráðuneyti.
Það hefur gustað um Ögmund síðustu misseri. Hann settist í stól heilbrigðisráðherra í stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna en sagði af sér vegna óánægju með stefnu ríkisstjórnarinnar í Icesave málunum. Staðhæft var að Ögmundur tilheyrði svokallaðri órólegri deild innan Vinstri grænna og sú ákvörðun að hann kæmi aftur inn í ríkisstjórn ætti að friðþægja þá deild. Hann hefur sjálfur lítið vilja gefa út á það en í málflutningi sínum hefur hann gagnrýnt ýmsar ákvarðanir sitjandi ríkisstjórnar, til að mynda áframhaldandi samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Það er hins vegar ekki svo að allt hafi dottið í dúnalogn þegar Ögmundur settist á ný í ráðherrastól. Skömmu eftir að hann settist í ráðherrastól lýsti hann þeirri skoðun sinni á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi að ekki ætti að þvinga fram sameiningu sveitarfélaga með valdboði. Hann áréttaði einnig þá skoðun sína á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um síðustu mánaðarmót. Óhætt er að segja að þær yfirlýsingar hafi farið misjafnlega ofan í sveitarstjórnarfólk og sögðu sumir það óþolandi að nýr ráðherra kollvarpi með þessum hætti vinnu sem fyrri ráðherra hafi sett af stað. Ögmundur segist ekki telja sig vera að kollvarpa einu né neinu heldur að leggja áherslu á vinnulag. „Ég held að menn hafi gert of mikið af því að ná fram breytingum innan stjórnsýslunnar með fyrirmælum og lagaboðum. Það er mun vænlegra til árangurs að fólk geri hlutina af fúsum og frjálsum vilja. Ég deili því almenna markmiði með forvera mínum að það sé æskilegt að styrkja sveitarfélögin sem stjórnsýslueiningar og það felur í sér að þau sameinist í ríkara mæli en verið hefur. Þau eiga hins vegar að vera sjálfráð um það. Það er kjarni minnar stefnu og míns flokks, að leggja áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð."
Fleiri leiðir en sameining
Ögmundur telur að sveitarfélögin í landinu muni sjá hag sínum betur borgið í því að sameinast og mynda öflugri kjarna til að sinna verkefnum og þjónustu við íbúa sína. „Í ljósi þeirra verkefna sem verið er að setja á herðar sveitarfélaganna, tel ég mjög miklar líkur til þess að þau sjái hag sinn í því að stækka og sameinast. Ég held hins vegar að umræðan um sameiningu sveitarfélaganna hafi verið allt of svart hvít. Það eru til milliliðir, það eru til byggðasamlög, það er hægt að sameinast um tiltekin verkefni og við þurfum að vera opin fyrir slíkum leiðum."
-Ertu á því að flytja eigi verkefni í enn frekara mæli frá ríki til sveitarfélaga?
„Sumir hafa nefnt framhaldsskólana og aðrir jafnvel lögregluna sem ég er reyndar andvígur. Ég hef verið fremur íhaldssamur í þessum flutningi verkefna til sveitarfélaganna vegna þess að ég hef ekki sannfærst um að fjárheimildir hafi fylgt tilflutningi í nægilegum mæli. Með flutningi á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna sem nú er í ferli ætlum við hins vegar að tryggja að sama fjármagn, hið minnsta, fari til sveitarfélaganna eins og verið hefur hjá ríkinu."
Ekki gera allt með reglustiku í Reykjavík
Dregið hefur úr þjónustu í minni sveitarfélögum á seinustu árum. Til að mynda lokaði Landsbankinn útibúi sínu á Stöðvarfirði fyrir skemmstu og er þar nú ekkert bankaútibú. Það hafði þau áhrif að Pósturinn lokaði sinni starfstöð einnig. Ögmundur segir að í ráðuneytinu geri fólk sér ljósa grein fyrir þessari stöðu. Því þurfi að feta sig mjög varlega áfram varðandi stjórnsýslubreytingar og forðast að þær valdi enn frekari skerðingu á þjónustu eða bitni á atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Hins vegar hafi bættar samgöngur orðið til bóta á móti. „Ég hef ákveðið að fresta fækkun sýslumannsembætta, meðal annars vegna þessara sjónarmiða. Ríkið er auðvitað einnig að koma að þessum málum með samgöngubótum. Samgöngubætur færa byggðirnar saman og sveitarfélög sem ella hefðu veslast upp munu dafna. Það er ekki þar með sagt að þú hafir þar alla þjónustu innan fimm mínútna radíuss. Það Við þurfum að fara mjög varlega í að fækka vinnustöðum og þar með atvinnutækifærum á landsbyggðinni en við þurfum líka að horfa á þjónustuhliðina. Hvernig förum við að því að veita sem mesta og markvissasta þjónustu? Það er iðulega með því að færa hana saman í kraftmiklar og öflugar þjónustueiningar."
-Hvað þá með frekari flutning ríkisstofnana út á landsbyggðina, er það eitthvað sem þú vildir skoða?
„Ég vil efla starfsemi sem er nú þegar á landsbyggðinni. Það er ekki endilega best gert með því að færa höfuðstöðvar ríkisstofnana út á land en kannski frekar starfstöðvar. Við þurfum að passa okkur á því að gera ekki allt með reglustiku í Reykjavík. Til dæmis er heilsugæslustöð á Seltjarnarnesi ekki það sama og heilsugæslustöð á Húsavík. Ef það uppgötvast á heilsugæslustöð á Seltjarnarnesi að ég er með kransæðastíflu er ég sendur með hraði upp á Landsspítala, það tekur fimm mínútur. Ef það uppgötvast á Húsavík þá þarf ég að fá þjónustuna þar. Ef ekki er hægt að takast á við hlutina í heimabyggð þarf að senda sjúklinginn, og iðulega hans skyldulið, landshorna á milli. Þetta verðum við að hafa hugfast þegar að við endurskipuleggjum alla félagslega þjónustu. Þjónustan sem við verðum að bjóða upp á í hinum dreifðari byggðum er af allt öðrum toga en hér fyrir sunnan því hér eru fjölbreyttari úrræði. Þannig þarf að hugsa allar skipulagsbreytingar, að taka mið af aðstæðum á hverjum stað."
Gagnrýni kemur ekki á óvart
Í ljósi þessara orða spyr blaðamaður Ögmund um boðaðann niðurskurð í heilsugæslu á landsbyggðinni. Ögmundur segir að mótmæli vegna niðurskurðartillagnanna verði tekin alvarlega. „Ég hygg að það sé samdóma álit fólks að þetta hljótum við að endurskoða. Við skulum ekki gleyma því að það var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem sló taktinn í því hversu hratt ætti að fara hér í sakirnar í niðurskurði. Það eru aðrar raddir sem hafa varað við þessu og segja að samfélaginu sé betur borgið ef við gerum þetta hægar. Ég segi bara þetta, við hljótum að hlusta á þær gagnrýnisraddir sem að koma fram, horfa á líklegar afleiðingar gjörða okkar og taka síðan til ráðstafana í samræmi við það."
-Kemur þér á óvart að fólk í þessum byggðarlögum rísi upp og mótmæli? Hvers vegna gengu menn svona fram við fjárlagagerðina? „Nei, það kemur mér ekki á óvart. Í stað þess að staðnæmast við þessa spurningu um hvers vegna þetta var sett svona fram segi ég að við verðum að horfast í augu við þá stöðu sem upp er komin. Ég vek athygli á því að sú skoðun hefur þegar verið viðruð í stjórnarráðinu að þetta þurfi að endurmeta og undir það tek ég."
Ríkissjóður ekki aflögufær
Fjöldi sveitarfélaga er í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum. Meðal annars hefur samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál lagt til að átta sveitarfélög verði sett í fjárhagslega gjörgæslu. Sveitarstjórnarmenn hafa margir hverjir kallað eftir aðkomu ríkisvaldsins vegna þessarar stöðu. Ögmundur segist skilja þá afstöðu mæta vel en ríkið sé illa í stakk búið til að koma að málum með auknu fjármagni. „Þetta er ekki spurning um hið illa ríki sem vill ekki koma til móts við sveitarfélögin, heldur um vanmáttugan ríkissjóð, sem hefur orðið fyrir gríðarlegu tekjuhruni. Báðir aðilar þurfa að hafa skilning á stöðu hins. Við í mínum flokki höfum haft skilning á vanda sveitarfélaganna á liðnum árum og við megum ekki útvatna þá afstöðu okkar. Við gerum hins vegar ekki meira en við getum."
Auglýsir eftir lausnum
Lengi hafa það verið viðtekin sannindi að íbúar á landsbyggðinni byggju ekki við sömu þjónustu og íbúar á suðvesturhorinu. Það er staðreynd sem menn hafa sætt sig við en það sem landbyggðarfólki þykir öllu verra er sá munur sem er á verði á vöru og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Flutningskostnaður er mjög stór þáttur í vöruverði á landsbyggðinni og blaðamaður spyr Ögmund hvort hann sjái fyrir sér leiðir til að jafna þann aðstöðumun. Ögmundur svarar því til að þetta sé rétt og varpar því fram hvort að eðlilegt sé að allir flutningar fari fram á landi. „Þegar Ríkisskip voru og hétu var lagt til með þeim um hálfur milljarður á ári. Menn ósköpuðust yfir því að þetta væri óþolandi niðurgreiðslur. Það var svo farið með alla þessa flutninga upp á land, ekki bara flutning á kornflekspökkum heldur flutning á dráttarvélum og þungavinnuvélum einnig. Það kostaði gríðarlegar fjárfestingar í vegakerfinu. Halda menn að það kosti ekki neitt? Ég held að það sem við eigum að gera sé að endurmeta flutningakerfið okkar og hvernig við ætlum að hanna það. Það hefur verið mikill vilji á þinginu til að skoða kosti þess að taka upp sjóflutninga að nýju en flutningafyrirtækin segja að það sé óráðlegt af fjárhagslegum ástæðum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þau aka nánast ókeypis um vegina. Á að taka upp þar gjaldtöku til að hafa upp í eitthvað af sliti veganna? Þá værum við komin í þessi vandræði að auka flutningskostnað út á land. Ég held að það þurfi að finna aðrar leiðir."
-Hverjar gætu þær verið?
„Ég kann ekki lausnina á því en ég auglýsi eftir þeim."
-Munt þú þá skoða þann kost að taka upp strandsiglingar á nýjan leik?
„Alveg tvímælalaust. Það liggja fyrir skýrslur um fýsileika þess, meðal annars ein nýleg. Hún litast mjög af því að það er ókeypis að fara um vegina. Væri ekki rétt að nýta hafnirnar sem eru í vandræðum víða um landið til flutninga? Þetta er allt samhangandi. Þannig þurfum við líka að horfa á vegakerfið. Á að horfa á það eitt hvernig þú kemst skjótast frá Reykjavík til Akureyrar og fara þannig með veginn upp á Svínvetningabraut eða ætlum við að hlusta á sjónarmið Blönduósinga sem segja það sitt hagsmunamál að hafa þjóðveginn nærri sinni byggð? Ég hallast undir seinna sjónarmiðið."
Afar mikilvægt er að byggja upp og halda úti eins fjölbreyttu flutningakerfi og kostur er, að mati Ögmundar. „Við erum að setja alla okkar flutninga á vegina og ég tel að það sé ekki gott. Við eigum til að mynda að hafa góðar samgöngur í lofti og ég er því ekki stuðningsmaður þess að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Það eru hagsmunir fyrir landið allt að hafa hann þar. Ég er almennt því fylgjandi að við stuðlum að fjölbreyttum flutningamáta."
Aðkoma lífeyrissjóðanna jákvæð
Ögmundur segist vonast til þess að með aðkomu lífeyrissjóðanna að stærri samgönguverkefnum gefist rúm ríkissjóði rúm til að sinna samgöngubótum í fámennari byggðarlögum á næstunni. „Það sem verið er að gera er að fá fjármagn frá lífeyrissjóðunum til samgöngubóta. Þá eru búin til eignarhaldsfélög í eigu ríkisins, þetta er ekki einkaframkvæmd eins og Sjálfstæðisflokkurinn boðaði. Ég er að gera mér von um að með því að beina fjármagni lífeyrissjóðanna inn í þessar stóru vegaframkvæmdir losni um fjármagn til að leysa vanda fámennari byggðarlaga. Við erum að fara yfir þessi mál og forgangsraða, það er verkefni haustsins."
-Margir myndu segja að landshlutar fjær suðvesturhorninu, ekki síst Vestfirðir, hefðu orðið eftir í vegauppbyggingu undangenginna ára, og jafnvel áratuga. Ertu sammála því og munum við þá sjá breytingar þar á?
„Ég er sammála þessu. Ég sá það þegar að Bolungarvíkurgöngin voru opnuð hve gríðarlegur léttir það var fólki sem þarna býr. Það er rétt að sérstaklega sunnanverðir Vestfirðirnir eru illa staddir. Vestfirðirnir, suður og norður, heyra varla til sama landshluta vegna þess hversu samgöngur eru þar bágbornar. Úr þessu þarf að bæta. Maður með tóma vasa fer hins vegar varlega í loforðin."
Hlutverk opinberra aðila að reka samfélagsþjónustu
Upp á síðkastið hefur verið nefnt að einkaframkvæmdir í samgöngukerfinu væru leið til að flýta fyrir uppbyggingu þess, og á sama tíma kæmi þá innspýting í hagkerfið með stórum verkefnum. Til að þess að svo mætti verði virðist augljóst að taka þyrfti veggjöld af þeim vegum og það hugnast Ögmundi alls ekki. „Ég er í embætti til að gæta hagsmuna samfélagsins, skattborgaranna þar með. Að fara leið sem Ríkisendurskoðun hefur lýst sem dýrari og óhagkvæmari er röng, að mínum dómi. Það sem hefur ruglað þessa umræðu er að það er ekki deilt um aðkomu einkaaðila að vegagerð. Nánast öll vegagerð er á hendi einkaaðila með útboðum. Slagurinn stendur um hvort fela eigi einkaaðilum yfirráð yfir vegunum og gera þá að gjaldheimtmönnum þeirra. Það er fráleitur hugsanagangur."
-Þú ert þá að segja að innviðir samfélagsins eigi vera í eigu opinberra aðila?
„Já, ég er að segja það. Á ýmsum sviðum eru þættir sem við ákveðum að fela einkaaðilum en þetta er grundvallarreglan. Það er hagkvæmara að reka grunnþjónustuna á vegum hins opinbera. Við verðum að spyrja þann sem vill fá yfirráð yfir vegakerfi landsins og innheimta gjöld fyrir það, hvers vegna hann vilji það. Ef hann er heiðarlegur segir hann: Ég ætla að græða á því. Er það þá ekki á kostnað þjóðarinnar, almennings? Að sjálfsögðu. Við erum hagsmunagæslumenn fyrir þjóðina, en ekki fyrir fjármagnið. Það var þar sem að forverar okkar í ríkisstjórnum undangenginna ára og áratuga brugðust. Þeir stóðu sig ekki í stykkinu sem hagsmunagæslumenn þjóðarinnar. Þeir stóðu sig hins vegar mjög vel í að gæta hagsmuna fjármagnsins, með þekktum afleiðingum."