Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Einar K. Guðfinnsson, rekur kröftuga og ágæta heimasíðu. Sjaldan er ég sammála þeim skrifum sem þar birtast. Þó bregður svo við nú að ég er sammála hverju orði í grein sem nú getur að líta á ekg.is . Reyndar væri undarlegt ef svo væri ekki því greinin er eftir sjálfan mig og fjallar um þá hugmyndafræðilegu úlfakreppu sem Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í. Að mínu mati er flokkurinn að verða ófær um að taka afstöðu til mála á grundvelli praktískra sjónarmiða því svo haldinn er hann þeirri þráhyggjukreddu að fylgja hugmyndafræði sinni um óheftan markaðsbúskap. Ef reynslan af einkavæðingu er slæm þá er viðkvæðið jafnan að menn skuli bíða með dóma sína, hugmyndin sé nefnilega rétt en veruleikinn sé ekki kominn í rétt horf. Þetta sögðu margir kommar fyrr á tíð þegar bent var á að illa gengi í þjóðarbúskap Sovétmanna. Sjálfstæðisflokkurinn íslenski er ekki einn um þessa nálgun, því fer fjarri. Í Bretlandi er nýbúið að kjósa forsætisráðherra, sem er haldinn nákvæmlega sömu hægri þráhyggjunni. Mér er sagt að Samfylkingin gæti verið í þann veginn að kjósa sér formann sem lýsir því yfir að hún fylgi áþekkri stefnu og Blair hinn breski. Þessu hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýst yfir. Össur Skarphéðinsson hefur hins vegar sagt að hann hafi efasemdir um þessar áherslur. Á þetta hef ég bent, aðspurður í fréttaviðtölum, og fyrir bragðið hlotið ávítur fyrir að skipta mér af innflokksmálum Samfylkingarinnar. Ég veit ekki hvað Sjálfstæðismenn segja um gagnrýni mína í þeirra garð. Mér er heiður af því að vera fyrst gestapenni Einars K. Guðfinnssonar og vísa á heimasíðu hans fyrir áhugasama: http://ekg.is/