Í HVAÐA VASA VILTU BORGA?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 21/22.09.24.
Í ágúst árið 1983 var haldinn frægur fundur í samkomuhúsinu Sigtúni við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Þar var krafist fyrir fullu húsi og gott betur, úrbóta í húsnæðismálum. Þetta er rafmagnaðasti fundur sem ég hef sótt og hef ég þó verið á nokkrum kraftmiklum fundum um dagana, enda logaði í bálinu sem þarna var kveikt langleiðina út níunda áratuginn.
Tilefnið var í ætt við það sem við sjáum nú í húsnæðismálum. Fólk hafði ekki ráð á að komast í húsnæði og þeir sem voru komnir með þak yfir höfuðið misstu fótanna umvörpum. Þegar leið á sumarið þetta ár hafði verðbólgan mælst yfir eitt hundrað prósent. Lán voru öll verðtryggð en launavísitalan hafði um vorið verið tekin úr sambandi. Nú varð til það sem kallað var misgengi launa og lána. Lánin æddu upp á við en launin stóðu í stað. Húsnæðiskaupendur börðust í bökkum og bönkum eins og grínast var með, slógu þar lán án afláts.
Í húsnæðishreyfingu níunda áratugarins, sem kennd var við umrætt Sigtún, sameinuðust menn um almennar kröfur, vextir yrðu lækkaðir, aukin yrðu lán frá Íbúðalánasjóði og lengt í lánum þar og kjör leigjenda bætt. Undir þessari regnhlíf var að uppistöðu til fólk sem vildi eiga sitt húsnæði, en einnig var að finna baráttufólk fyrir annars konar eignarformi, þá einkum samvinnufélögum á borð við Búseta.
Sigtúnshópurinn beitti sér aldrei sérstaklega gegn verðtryggingu, vissi sem var að eina leiðin til að ráða við lánin væri að lengja í láninu sem verðtryggingin gerði á sinn hátt með því að skjóta hluta vaxtanna fram í tímann. Lánið yrði vissulega dýrara þegar upp væri staðið en viðráðanlegra þó af þessum sökum. En verðtrygging án skilyrða gengi ekki upp. Vextir á verðtryggð lán mættu aldrei fara yfir 2%. Annars var krafan einfaldlega lægri raunvextir hverju nafni sem þeir kölluðust, nafnvextir eða verðtrygging. Síðar kom í ljós að upp geta komið aðstæður sem gera verðtryggingu með öllu óréttlætanlega.
Ljósið í myrkrinu voru opinberu húsnæðislánin sem voru á skaplegri kjörum en bankalán. Vandinn var hins vegar sá að þau voru enn sem komið var lág, innan við fimmtungur af verði staðalíbúðar.
Annað ljós í myrkrinu voru íbúðir í verkamannabústöðum. Þar eignaðist fólk íbúðir sínar á lánum með vöxtum sem lengi vel báru aðeins eins prósents vexti. Leiguíbúðir voru almennt á vegum sveitarfélaga svo og félagslegra aðila, námsmanna og samtaka öryrkja. Enginn vildi sjá þær fara í hendur fjárfesta eins og nú hefur gerst, enginn vildi verkamannabústaðakerfið feigt, enginn vildi að húsnæðislánakerfið yrði fjarlægt samfélaginu og falið bankakerfinu. Menn vildu að þessi kerfi yrðu styrkt og bætt.
Auðvitað er þetta ofsagt. Til voru þeir sem vildu burt með alla félagslega aðkomu. Þeir sömu og eru nú komnir í sitt draumaland: Sveitarfélög úthluta lóðum til braskara sem síðan selja með gróða sem talinn er í milljörðum, bankar keyra upp vexti, sveitarfélög hlaupast undan ábyrgð, leigufélög fjárfestanna maka krókinn en almenningi blæðir.
Enn er það svo að hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði er hér á landi hærra en víðast hvar. Lengi vel átti þetta við um alla tekjuhópa þökk sé afstöðu allra stjórnmálaflokka. Þegar verkamannabústaðakerfinu var breytt var það fyrst í stað þróað yfir í kaupleigukerfi sem einnig byggði á félagslegri hugsun en jafnframt sjálfseign. Undan þeirri hugsun fjaraði þó fljótt.
Nú tók við sú ætlan að ekki mætti «mismuna á markaði», ekki mætti taka afstöðu til aðstæðna fólks nema að litlu leyti í gegnum vaxtabætur og húsaleigubætur en í grunninn átti markaðurinn illu heilli að vera vegvísirinn.
Þótt vandi fólks á Sigtúnsárunum hafi um margt verið áþekkur því sem nú gerist þá var munurinn sá að grunnurinn til að laga kerfið var til staðar í ríkari mæli en nú er.
Í aðdraganda bankahrunsins tóku bankarnir markvisst að grafa undan Íbúðalánasjóði, hæðst var að tilraunum til að hækka lánshlutfall úr þeim sjóði og honum síðan gert með lögum ókleift að standa við skuldbindingar sínar. Viðbótarlán Framsóknar með lágum vöxtum voru sögð hafa átt sinn þátt í að velta hruninu af stað! Þetta sögðu þau sem sögðu lága Evrópuvexti færa okkur stöðugleika en lága Framsóknarvexti efnahagshrun!
Talsmenn bankanna hafa síðan óskapast yfir því að alltaf fari illa í ríkisrekstri, vel að merkja talsmenn sömu banka og farið höfðu lóðbeint á hausinn með sjálfa sig og þjóðarbúið allt vegna þeirrar óráðsíu sem fylgir kapítalismanum.
Sjálfstæðisflokkurinn var aldrei flokkur allra stétta en hann vildi vera það. Hann vildi auðvelda tekjulitlu fólki að eignast húsnæði sitt. Sú var einnig stefna vinstri manna lengi vel með verkamannabústaðakerfinu, en svo voru þeir til sem töldu sjálfseignarstefnuna andfélagslega. Allir ættu að leigja, Það er að segja allir hinir. Bara ekki ég.
Sú staðreynd sem alltof oft hefur gleymst í þessari umræðu er að húsnæði er alltaf í eigu einhvers, bæjarfélags, félagslegs leigusala, leigusala sem tekur sér arð og stundar útleigu húsnæðis til ábatasköpunar eða þá íbúans sjálfs.
Formin eru mismunandi, en það er alltaf eigandi. Gleymum því ekki! Spurningin er í hvaða vasa þú viljir borga.
Hvernig væri að kippa húsnæðiskerfinu með sjálfseignarstefnu að leiðarljósi í félagslega gírinn eins og við lögðum til í Sigtúni forðum?
-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.