Í LANDI GRÆNLENDINGA
16.03.2012
Á grænlensku heitir Grænland sem Eiríkur rauði Þorvaldsson nefndi svo í árdaga, Kalaallit Numat. Það þýðir land þjóðarinnar sem landið byggir. Þessi tenging á milli lands og samfélags er skemmtileg og um leið mjög umhugsunarverð. Ekki síst fyrir okkur sem nú stöndum frammi fyrir því að ákveða hvort við ætlum að heimila að eignarhald á landi og þar með auðæfum sem landinu tilheyra, sé selt út fyrir landsteinana. Kannski væri ráð að endurskíra Ísland og kalla það land íslensku þjóðarinnar, þess fólks sem Ísland byggir? Jafnvel þótt við endurskírðum ekki Ísland gæti þetta orðið ágætt vinnuheiti; að við hugsuðum gjörðir okkar og ákvarðanir með þessa hugsun að leiðarljósi.
Stærðin og kuldinn
Ég er nú í fyrsta skipti á ævinni staddur í landi grænlensku þjóðarinnar. Og það er sannast sagna ævintýri líkast. Eiginlega sama hvernig á málið er litið: Stærðin, kuldinn, náttúran og sagan.
Stærðin kemur fyrst upp í hugann. Vel yfir tvær milljónir ferkílómetrar, tuttugu sinnum stærra en Ísland. Jarðfræðingar ætla að á Grænlandsjökli sé varðveittur tíundi hluti af öllu ferskvatni í heiminum. Ef það bráðnaði og rynni í sjó fram, myndi vatnsborð hafsins hækka um sex til sjö metra. Þetta segir sína sögu um stærðina.
Tilefni farar: Sveitarstjórnarráðstefna Grænlendinga haldin ásamt ráðherrum grænlensku stjórnarinnar, sem innanríkisráðherrum Íslands og Færeyja var sérstaklega boðið að sækja. Fundurinn fór fram í Iilulissat á vesturströnd Grænlands, við Ísafjörð. Hinn grænlenski Ísafjörður er á verndarsvæði Unesco. Þar er mikil náttúrufegurð, ekki síður á sumrin en á vetrum að því okkur er sagt. Nú er þar 30 stiga frost. Í síðustu viku var frostið 40 gráður. Góð nærföt eru gulls ígildi í Ilulissat.
Gagnleg umræða
En að ráðstefnunni um sveitarstjórnarmál: Grænlendingar hafa líkt og við verið að fækka sveitarfélögum. Ég sagði frá okkar reynslu, að við værum komin í sjötíu og fimm úr rúmlega tvöhundruð fyrir fáeinum árum. Grænlendingar eru komnir niður í fimm. Í umræðunni kom fram að ráðstefnan væri haldin í stærsta sveitarfélagi í heimi, Qaasuisup Kommunia. Það er allnokkru stærra en Frakkland. Og þótt Portúgal væri bætt þar við hefði Qaasuisup vinninginn! Þrátt fyrir þennan mun sem í stærðinni er fólginn eru ýmis álitamál sameiginleg hjá okkur og Grænlendingum; svo sem hvernig þjónusta verði best tryggð í dreifðum byggðum og hvernig lýðræðisleg aðkoma að ákvörðunum verði best tryggð. Þótti mér, og Grænlendingum og Færeyingum held ég líka, gagnlegt að skiptast á upplýsingum og skoðunum.
Ég lagði áherslu á mikilvægi samstarfs Íslands og Grænlands. Tiltók einnig Færeyjar, Skotland og Noreg, ríkin á norðurslóðum í okkar heimshluta. Mikilvægt væri að þessi lönd, sem öll standa utan Evrópusambandsins, að Skotlandi undanskildu, huguðu sameiginlega að hagsmunum sínum og horfðu norður á bóginn. Í ljós kom að Brussel-valdið hefur séð allt þetta fyrir og er farið að veita ríkulegum styrkjum til Grænlands, rúmlega átta milljörðum árlega, að því er okkur var tjáð. Við Grænlendinga ræddi ég líka um mikilvægi þess að halda vel utan um auðlindirnar. Það þyrftu Íslendingar að gera, ekki síst nú þegar við ættum í tímabundnum efnahagserfiðleikum með veikan gjaldmiðil. Samfélagið yrði að passa landið sitt.
Loftslagsbreytingar fyrr og nú
Fróðlegt var að hitta sérfræðinga í atvinnumálum og þá ekki síður í loftlagsmálum og reyna síðan að máta þeirra upplýsingar við sögulegan fróðleik um Grænland. Menn telja sig hafa minjar um mannabyggðir á Grænlandi frá því fyrir meira en fjögur þúsund árum. Talið er að fólksflutningar sem einhverju nemur hafi komið í bylgjum, sú fyrsta um tvö þúsund og fimm hundruð árum fyrir Kr., síðan um fimm hundruð árum f. Kr. og svo aftur átta hundruð árum e. Kr. og svo aftur síðar. Á einhverjum tímabilum þarna á milli er talið að mannabyggð hafi fjarað út og landið orðið mannlaust með öllu og er það rakið til loftslagsbreytinga. Eru loftlagsbreytingarnar nú þá ekki einfaldlega í ætt við fyrri sveiflur,spurði gestkomandi. Munurinn á loftlagsbreytingum nú og fyrr, svöruðu fræðimennirnir, væru að nú gerðust þær hraðar.
Þessir fólksflutningar fyrr á tíð komu að vestan, frá norðurslóðum Kanada og þaðan af vestar. Síðan eru það norrænu mennirnir, Eiríkur rauði og Þjóðhildur, Leifur sonur þeirra hinn heppni og það fólk allt. Sagan segir að í för með Eiríki rauða og Þjóðhildi hafi haldið ein 25 skip frá Íslandi með sex til sjö hundruð manns en fjórtán komist á leiðarenda, þrjú til fjögur hundruð manns með búpening. Þetta var árið 985 að því er heimildir segja. Fólkið var á leið til eyjunnar grænu, en heitið Grænland er án efa ein fyrsta auglýsingabrella í ferðaiðnaðinum. Alls er talið að norrænt fólk á Grænlandi hafi orðið þrjú til fimm þúsund talsins.
Athyglisvert er að þegar hið norræna fólk kom til Grænlands er talið að á þeim tíma hafi ekkert annað mannlíf fyrirfundist á Grænlandi að undanskildu Thule, í blánorðri. Minjar hafa fundist sem benda til að norrænir menn hafi komist norður undir Thule í könnunarleiðangrum sínum, nokkuð sem ferðamanni um háloftin í byrjun 21. aldar þykir talsvert afek. Svo virðist sem Thulefólkið hafi ekki síður verið harðdrægt á sínum ferðalögum, haldið norður yfir og suður eftir austanverðri Grænlandsströnd og suður eftir að vestan einnig, og er talið að um 1200 eða þar um bil hafi samfélög norrænna manna og Thulefólks skarast, þótt lítið sem ekkert sé vitað um samskiptin sem kunni að hafa átt sér stað.
Ismarnir eru til að varast!
Ekki er ætlunin að skrifa hér ágrip af Grænlandssögunni og þá einnig vangaveltum um afdrif norrænu byggðarinnar á suðvestur Grænlandi í kringum 1450 þegar talið er að þær hafi dáið út. En sögulegur fróðleikur sem tengist þessum byggðum verður mér þó umhugsunarefni. Það var nokkru síðar eða á 18. öldinni að dansk-norski trúboðinn, Hans Egede, kom til Godthaab, sem nú heitir Nuuk og er höfuðstaður Grænlands. Hann kom í umboði Friðriks fjórða Danakóngs. Verkefnið var m.a. að finna hugsanlega eftirlifendur norrænna manna, kristna þá að nýju, hefðu þeir fallið heiðindómnum í greipar að nýju eða sem ekki hefði þótt betra, að þeir væru enn kaþólskir og þyrftu því að reformerast til Lútersku, hinnar einu sönnu og réttu trúar! Ismarnir láta ekki að sér hæða!
Annað þessu skylt. Á Miðöldum voru trúarbragðaofsóknir tíðar í Evrópu og eimdi af þessu langt fram eftir öldum. Hópur strangtrúar píetista sem þurft hafði að þola slíkar ofsóknir í Saxlandi fékk heimild Kristjáns 6. að flytja til Grænlands á 18. öld og settist að á Godthaab svæðinu. Hans Egede var þá um mundir á förum til Danmerkur en söfnuður hans var áfram við lýði í Godthaab. Í sögubókum segir frá stöðugum erjum áhangenda hinna tveggja isma kristinnar trúar í fámenninu í Godthaab - og munu þær erjur hafa verið allharðvítugar. Ismarnir eru til að varast, hvort sem þeir eru póílitískir eða trúarlegir eða eitthvað annað! Það er lærdómurinn sem ég dreg af reynslu lífs míns.
En frá þessum þýska söfnuði í Godthaab eru sprottin ýmis ættarnöfn Grænlendinga svo sem nafnið Kleist en það er einmitt fjölskyldunafn grænlenska forsætisráðherrans, sem hér að neðan brosir sínu breiðasta á mynd með Einari Árnasyni samstarfsmanni mínum í Innanríkisráðuneytinu.
Kalaallit Numat
Eftir sveitarstjórnarráðstefnuna í Ilulissat var haldið til Nuuk. Uppbyggingin þar er stórbrotin. Minnir óþægilega á bólu-Ísland. Vonandi meira þar að baki en froðan okkar reyndist vera. Held sannast sagna að svo sé enda sannfærður um að Grænland og Grænlendingar eiga framtíðina fyrir sér. Aðeins að Grænlendingar ekki gleymi því hvað landið þeirra heitir og hvað það þýðir í raun, Kalaallit Numat, land þeirrar þjóðar sem landið byggir. Ég held nefnilega að mennirnir með seðlabúntin og stórveldin sem hugsa samkvæmt langtímaáformum, renni nú hýru auga á þessar auðæfaríku slóðir. Þá er bara að muna að landið og auðæfin eru fyrir samfélagið og eiga að þjóna því en ekki peningavaldinu og stórveldahagsmunum, hvort sem er í Peking, Moskvu, Brussel eða Washington.
Einar Árnason og Kuupik Kleist, formaður landsstjórnar Grænlands.
Undirritaður ásamt innanríkisráðherrum Grænlands og Færeyja,
Anton Frederiksen og Kára P. Höjgaard
Josef Mozfeldt, formaður Inatsisartut flokksins og forseti grænlenska
þingsins, ásamt undirrituðum.
Undirritaður heldur ræðu á sveitarstjórnarráðstefnu Grænlendinga í
Iilulissat á vesturströndinni, við Ísafjörð.