Í MIÐJUNNI: FÓRNARLAMB ÞOTULIÐSINS
Davíð Oddsson seðlabankastjóri hefur verið á milli tannanna á fólki að undanförnu. Ástæðan er sú að meirihluti stjórnar Seðlabankans samþykkti launahækkun honum til handa upp á 200.000 krónur á mánuði. Með því verða mánaðarlaunin, að sögn fjölmiðla, um hálf önnur milljón króna og vel rúmlega það ef hlunnindi eru reiknuð með. Rökstuðningurinn fyrir þessu er tvíþættur. Í fyrsta lagi var haft eftir formanni seðlabankastjórnar að þetta væri til að viðhalda „eðlilegum“ launamun í bankanum. Hin röksemdin var á þá lund að bankinn þyrfti að vera samkeppnisfær við aðrar sambærilegar stofnanir.
„Eðlilegur“ launamunur?
Varðandi fyrra atriðið er það að segja að það eru engin náttúrulögmál að þeir sem tróna á toppi stofnana eigi að bera mest úr býtum. Iðulega er það allt annað fólk sem innir mesta vinnu af hendi. Þannig vinnur starfsfólk ráðuneyta oft meira en ráðherrar, svo dæmi sé tekið, sem þó eru settir ofar í launataxta. Sama á við um fyrirtæki. Stundum er í þessu samhengi bent á ábyrgð og starfsöryggi. Hinir lægst launuðu í fyrirtækjum og stofnunum þurfa yfirleitt að axla meiri ábyrgð en hinir sem efstir eru. Þeir eru reknir verði þeim á en hinir sitja áfram. Fari hins vegar svo að toppunum sé vikið til hliðar ganga þeir oftar en ekki út með digra sjóði í svokölluðum starfslokasamningum. Þar er oft um að ræða margföld árslaun láglaunamannsins, stundum heilar ævitekjur!
Misrétti af nauðsyn?
Varðandi síðari röksemdina að stofnanir þurfi að vera samkeppnisfærar - þess vegna háar tekjur til stjórnenda og þeirra hirðar - þá hefur komið í ljós að íslenski seðlabankinn er alla vega samkeppnisfær við þann bandaríska, því íslenski seðlabankastjórinn er sagður tekjuhærri en bandarískur starfsbróðir hans. Þetta eru hins vegar gamalkunn rök til að réttlæta misrétti. Fjármálageirinn, þar sem þotuliðið ræður lögum og lofum hefur búið til mynstur sem er að raska öllu því sem tíðkast hefur á íslenskum launamarkaði síðustu áratugina. Þar hefur misrétti stóraukist. Samkeppnisrökin eru oftast notuð til að réttlæta þá þróun. „Það er ekki svona sem við viljum hafa það, við bara verðum, annars höldum við ekki í fólk!“ Svona fara menn að því að smíða kerfi sem þjóna þeim sjálfum vel. Smám saman gleymist að þetta er þeirra eigin smíð. Misrétti er ekki sprottið af nauðsyn heldur ákvörðunum um skiptingu tekna og af þeim siðferðismælikvörðum sem menn vilja viðhafa.
Stéttskipt Ísland
Í framhaldinu verður landið síðan tvískipt, annars vegar Ísland stórefnafólks sem flýgur um á einkaþotum, kaupir jarðir og stórvillur, heldur veislur fyrir tug- og hundruð milljóna kr., hins vegar landið sem almenningur byggir. Þar eru lífsskilyrðin allt önnur. Á öllum sviðum er að myndast tvískiptur markaður; markaður fyrir þá sem hafa fjárráð og hina sem eru fjárvana eða hafa minna handa á milli. Fyrir löngu er liðin sú tíð að við sömu einbýlishúsagötu eða raðhúsaröð væru bankastjóri, kennari og verkamaður. Nú má verkamaðurinn þakka fyrir að geta yfirleitt eignast íbúð!
Þetta er heimurinn sem nú hefur skammtað Davíð Oddssyni launahækkun á mánuði sem nemur hærri upphæð en mánaðarlaun láglaunamanns. Einu sinni arkaði Davíð, þá forsætisráðherra, niður í Búnaðarbanka að taka út einhverja aura sem hann átti þar til að mótmæla því – að því er mig minnir – að rekendur bankans væru að hygla sjálfum sér. Davíð Oddsson situr nú sem fastast þegar krónurnar streyma í hans eiginn vasa. Hann veit sem er að hann er fórnarlamb þotuliðsins; milljarðamæringanna sem halda Íslandi í gíslingu og innleiða misrétti á öllum sviðum þjóðfélagsins.
Við viljum jöfnuð og réttlæti - burt með misréttið
Alveg eins og forsætisráðherrann sem mótmælti hefur verkalýðshreyfingin oft arkað niður á Lækjartorg og mótmælt því þegar hálaunamenn hafa hrifsað til sín margfalt hærri laun en almenningur nýtur. Spurning er hvort verklýðshreyfingin er reiðubúin að gera eins og Davíð gerði; að mótmæla óréttlætinu með því að sýna vilja sinn í verki. Ætlum við að láta misréttið óátalið? Ætlum við að fórna hagsmunum launafólksins á altari þotuliðsins? Ég sagði nei, og segi nei.