Fara í efni

Í MINNINGU KRISTÓFERS MÁS KRISTINSSONAR

Í dag er til grafar borinn vinur minn til áratuga, Kristófer Már Kristinsson.

Vinátta hafði verið með foreldrum mínum og fólki Kristófers Más frá því ég man eftir mér. Ræturnar liggja langt aftur. Þannig var að Björgvin Magnússon, mágur Kristós, eins og hann jafnan var kallaður í mín eyru,  var nemandi föður míns þegar hann var um tíma kennari í Laugarnesskóla fyrir miðja síðustu öld. Hópur stráka sem hann kenndi þar hélt saman allar götur síðan, en margir eru þeir nú fallnir frá.

Þetta varð til þess að Björgvin varð mér náinn og allt hans fólk. Þau Björgvin og Gréta kona hans, systir Kristós, tóku síðan að sér leiðandi starf á Úlfljótsvatni þar sem pabbi lét að sér kveða í uppbyggingu fyrir unglinga- og skátastarf. Þarna kom ég oft og Kristó einnig, svo og að Jaðri þar sem Björgvin Magnússon var skólastjóri og Gréta einnig í lykilhlutverki. Þannig æxlaðist það að við Kristó urðum nánast bundnir fjölskylduböndum.

Síðan tóku þau saman Kristó og Valgerður Bjarnadóttir, skólasystir mín og vinur úr Menntaskóla. Þar með bættist við félagslegur þráður sem batt okkur enn saman.

Kristó bjó yfir lunknum húmor og var félagsskapur við hann alltaf skemmtilegur. Stundum þarf svaðilfarir til að sjá inn í menn. Að vísu flokkast það varla undir svaðilför þegar við félagar sem sinnt höfðum störfum á Úlfljótsvatni stóðum frammi fyrir því haust eitt að hreinsa undan  höfuðskálanum allt sem runnið hafði úr brotinni skólplögn sumarlangt ef þá ekki lengur. Það var ekki lítið magn og ófrýnilegt mjög. Þetta komumst við þó í gegnum félagarnir Óttar Proppé, Sigurður Ragnarsson og Kristó ásamt mér. Gálgahúmor var það vinnutæki sem best dugði til að komast í gegnum þessa raun. Við slík brögð stóð enginn Kristó á sporði. Mikið var hlegið en fyrr en varði var verkinu lokið.  Allt var þetta gaman græskulaust.

Og þannig er Kristó í minningu minni, græskulaus.

Hann var líka ráðagóður. Þegar ég gegndi embætti dómsmálaráðherra og síðar innanríkisráðherra, leitaði ég til Kristós um aðstoð. Tók hann að sér að kafa ofan í happdrættis- og spilavítismál sem ég vildi koma skikk á. Fórst honum það sérlega vel úr hendi og byggði frumvarp sem ég lagði fram í ársbyrjun 2013 að uppistöðu til á hans vinnu. Málaflokkurinn er erfiður og umdeildur og átök mikil. En Kristó fetaði sig lipurlega um þetta jarðsprengjusvæði og kom fram með prýðilegar tillögur til úrbóta.

Minningarnar um þennan góða vin, hvort sem er úr hestaferðum í góðum hópi, í spjalli með þeim Völu eða í samstarfi í ráðuneyti, eru allar bjartar. Enda sakna ég nú góðs vinar og færum við Vala mín henni Völu hans Kristós og öðrum í fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.