Í MINNINGU TENGDAMÓÐUR
Tengdamóðir mín, Margrét Helga Vilhjálmsdóttir, var borin til grafar í gær og fór athöfnin fram í Dómkirkjunni í Reykjavík. Útförina annaðist Karl Sigurbjörnsson, biskup. Dómkórinn söng og Kristinn Sigmundsson söng einsöng eins og honum einum er lagið, Þó þú langförull legðir og Nótt!
Athyglisvert var að lesa minningargreinarnar um tengdamóður mína. Þær mynduðu heildstæða sýn á einstaka konu.
Öllum var ofarlega í huga hve mikill höfðingi hún var og einnig hitt, hve áhugasöm hún var um málefni líðandi stundar, hve ríkar skoðanir hún hafði og hve mikið líf var jafnan í kringum hana.
Lýsandi þykja mér þau orð dóttursonar í minningarorðum hans um ömmu sína, að þótt hún hefði „ávallt sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar og þótti gaman að ræða þjóðfélagsmálin" ... þá var þó „ alltaf ró og yfirvegun sem lá í loftinu þegar maður kom á heimili hennar."
Það er þessi andlega kjölfesta sem allir sakna og hugsa til, að tengdamóður minni genginni.
Saman fóru yfirvegun og ró annars vegar og miklar skoðanir hins vegar. Sennilega hefur það verið svo að allir hafi fundið fyrir lífinu innra með sjálfum sér í návistinni við hana! Það er ekki öllum gefið að framkalla slíkt í umhverfi sínu.
Hér að neðan eru minningargreinar sem birtust í Morgunblaðinu í gær.
Mín elskulega tengdamóðir er látin, 96 ára að aldri. Hennar verður lengi minnst af mér, börnum og barnabörnum. Margrét var að mörgu leyti einstök kona, hún var sérlega greind, gjafmild, gestrisin og fórnfús. Hún gaf sér tíma til að setjast niður til að ræða málin, hún gat rætt allt sem skipti máli.
Tengdamóðir mín hafði mikið yndi af að gefa og að gleðja aðra, hún valdi hluti af mikilli kostgæfni og vildi hafa þá fallega og vandaða. Aldrei áður hafði ég kynnst konu sem fannst jafnlítið mál að elda mat fyrir 20 eða 100 manns. Hún var alltaf róleg og yfirveguð og lét ekkert slá sig út af laginu, ég man aldrei eftir að hafa séð hana skipta skapi.
Margrét elskaði börnin sín og barnabörn og gerði allt sem í hennar valdi stóð til að aðstoða þau að öllu leyti. Ég gleymi því aldrei þegar við bjuggum í Þýskalandi og hringt var bjöllunni kl. 19.00 að kvöldi, þar stóð tengdamamma sem var komin óvænt í heimsókn. Þá hafði hún tekið lest frá Strasbourg í Frakklandi, alein, til að heimsækja okkur.
Þegar ég kynntist henni fyrst þá fannst mér hún ansi spurul, en þá eiginleika hennar hef ég tileinkað mér. Ég er þakklát tengdamömmu fyrir allt sem hún gat haft áhrif á í fari mínu, en í þolinmæðinni gat hún engu um breytt. Tengdamamma fékk síðustu ósk sína uppfyllta og það var að fá að vera heima síðustu árin sín og fá að deyja þar. Fjölskylda hennar sá til þess að hún væri aldrei ein. Það sýnir hversu mikið hún átti inni af góðvild og kærleik sem hennar fólk vildi svo gjarnan fá að endurgjalda.
Ég vildi að ég hefði tjáð henni í janúar, þegar ég kvaddi hana síðast, hversu mikils virði hún hefur verið okkur. Hún mun ætíð lifa í hjarta mínu.
Hvíl í friði.
Þín tengdadóttir,
Kristín Jóhannsdóttir.
Tengdamóðir mín, Margrét Helga Vilhjálmsdóttir, var mikill höfðingi. Henni var svo eiginlegt að gefa að hún vissi ekki hvenær hún gaf. Hún var það sem kalla má veitandi af Guðs náð. Þess vegna var svo auðvelt að þiggja af henni.
Alla mína fullorðinsdaga hef ég verið í hennar skjóli, þiggjandi í stóru og smáu. Frá því að mín unga fjölskylda hreiðraði um sig í kjallaranum á Hofsvallagötu 62, sem tengdaforeldrar mínir, Margrét og Andrés, reistu undir lok áttunda áratugar síðustu aldar, og allt til hinsta dags naut ég velvildar og væntumþykju tengdamóður minnar. Aldrei bar þar skugga á.
Það var aldrei daufleg vistin, hvað þá dauð stund, í nálægð Margrétar Helgu Vilhjálmsdóttur. Alltaf líf og fjör. Áhuginn brennandi. Hvort sem það var listalífið, stjórnmál nær og fjær, nýjungar í atvinnuháttum eða jöklabréf, aldrei var komið að tómum kofunum hjá þessari síungu konu, sem neitaði að beygja sig fyrir ellinni. Aðdragandinn að andláti hennar var skammur. Skyndilega var einfaldlega nóg komið og við svo búið kvaddi hún.
Það eru að sjálfsögðu mikil lífsgæði í því fólgin að fá að lifa við góða heilsu í nær heila öld. Og að lifa svo lengi eins mikið lifandi og tengdamóðir mín gerði, hljóta að teljast forréttindi á hvaða mælikvarða sem reiknað er. Hún var af kynslóðinni sem í blóma lífs síns fylgdist með lýðveldisstofnuninni og alla tíð vildi hún standa vörð um óháð og fullvalda Ísland. Hún vildi hugsa stórt fyrir land og þjóð. Drakk þá hugsun með móðurmjólkinni og eflaust fengið hana líka í arfleifðinni frá afa sínum, hákarlaformanninum á Ströndum.
Margrét Helga Vilhjálmsdóttir var komin af litríku og kröftugu fólki, sleit barnsskónum í Höfnum á Suðurnesjum þar sem forfeður hennar og formæður höfðu gert garðinn frægan í atvinnu- og listalífi. Stórhugur var einkennandi fyrir þetta fólk, það rak stórútgerð og lagði alla tíð til samfélagsins af óeigingirni. Þess sjást merki til þessa dags í mannvirkjum á Suðurnesjum og má þar nefna Hvalsneskirkju sem afi Margrétar reisti á sinni tíð. Tónlist var í hávegum höfð.
Í æsku lá leiðin til Reykjavíkur og ólst Margrét Helga upp á Laugaveginum í hjarta Reykjavíkur. Á ekki ýkja stórum bletti þar um kring bjó margt ættfólk hennar og hélt það vel saman. Að leggja rækt við vina- og fjölskyldutengsl var henni eðlislægt.
Margar góðar minningar á ég um tengdamóður mína. Hún var fljóthuga og þurfti skemmri tíma til umhugsunar en flest fólk og vílaði þá fátt fyrir sér. Hún átti það til að leggja upp í langferð með stuttum fyrirvara og man ég nokkrar slíkar reisur undir fararstjórn þessa mikla eldhuga. En efst er mér þó í huga hlýja hennar, fórnfýsi og væntumþykja sem fjölskylda hennar og vinir fengu svo vel að kynnast og munu minnast svo lengi sem ævi endist til.
Fyrir þetta ber að þakka og gleðjast yfir minningum sem eiga eftir að ylja okkur um ókominn tíma.
Ögmundur Jónasson.
Ég kynntist ömmu minni vel þrátt fyrir að hafa búið mikið erlendis.
Það var henni mikið hjartans mál að fylgjast gaumgæfilega með okkur barnabörnunum og hvetja okkur til dáða. Amma var með eindæmum fórnfús kona og má segja að hún hafi verið óvenju gjafmild á alla hluti sem hún hugsanlega gat gefið af sér. Ömmu þótti mikilvægt að rækta fram hæfileika og beitti aga á mjög skilningsríkan hátt. Þá var hún afburðagóður kennari og gafst aldrei upp á óþreyjufullum dreng sem frekar vildi sparka í bolta eða byggja kofa útí móa. Ömmu var aldrei sérstaklega vel við að ég stundaði íþróttir, og eftir að hafa fylgt mér á mína fyrstu fótboltaæfingu hjá knattspyrnufélagi KR baðst hún undan því að gera það aftur. Slík iðja var einungis til að skaða litla drengi, og framtíð þeirra var betur borgið við að rækta hugvit og menningu.
Amma sýndi mér mikinn skilning við þær mótbárur sem ég upplifði sem ungur maður við flutninga frá Noregi til Íslands. Þrátt fyrir þrjósku og vanþakklæti unga mannsins, gafst hún ekki upp og braut á bak aftur þennan púka sem búið hafði um sig. Hún veitti líðan og reiði ungs manns skilning, var næm á tilfinningar og ég minnist þess að hún hafi aldrei skeytt skapi sínu. Það sýndi sig að amma var þrjóskari, og síðar meir hefur það runnið upp fyrir mér að þetta var náungakærleikur í sinni bestu mynd.
Þannig minnist ég ömmu minnar, hlýrrar konu sem sýndi áformum mínum í einlægni mikinn áhuga, vildi vita af langömmubörnum sínum og nálgaðist mann ávallt af miklum kærleik.
Hvíl í friði, elsku amma.
Jóhann Vilhjálmsson.
Þegar ég var að vaxa úr grasi þá var aldrei langt að fara í heimsókn til ömmu og afa á Hofsvallagötunni. Á grunnskólaárunum bjó ég í nokkur ár í kjallaranum hjá ömmu eins og margir í stórfjölskyldunni hafa gert á einhverjum tímapunkti. Við fluttum okkur svo um set í Vesturbænum en í minningunni þá er ég oft á Hofsvallagötunni á mínum unglingsárum og raunar alla tíð síðan.
Ég hef nú búið erlendis um nokkurt skeið en þegar ég hef komið til Íslands þá hefur það margoft sannað sig að til þess að hitta á bróðurpartinn af stórfjölskyldunni þá hefur verið nóg að skreppa í nokkrar heimsóknir til ömmu. Það hefur ávallt verið mikill gestagangur á heimili hennar og ekki síst síðustu tvö árin þegar hún byrjaði að missa kraft og börnin hennar sáu til þess að einhver úr fjölskyldunni væri hjá henni alla tíma sólarhringsins.
Amma hafði ávallt sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar og þótti gaman að ræða þjóðfélagsmálin. Henni gat orðið heitt í hamsi yfir málefnum dagsins en það var samt alltaf ró og yfirvegun sem lá í loftinu þegar maður kom á heimili hennar. Það geislaði út frá henni að hún vildi manni allt gott og hún hafði mikinn áhuga á hvað við barnabörnin vorum að hafast að.
Amma mín, Margrét, hefur þannig verið fastur punktur í lífi mínu frá því að ég man eftir mér og ég á eftir að sakna hennar og samverustundanna með henni.
Andrés Ögmundsson.
Ég grúskaði gjarnan í gömlum bókum og lagðist í ættfræðirannsóknir þegar ég var í heimsókn hjá ömmu Margréti. Oft spurði ég hana um gamla tíma en hún vildi frekar vera í núinu og ræða líðandi stund. Þrátt fyrir það var hún tenging mín við hið forna. Forfeður og -mæður eru okkur mikilvæg vegna þess að þau veita okkur samhengi í lífinu. Við fylgjumst með börnum fæðast og fullorðnast og eldri kynslóðir eldast og loks deyja. Lærdómur er dreginn af lífinu og honum miðlað milli kynslóða. Amma miðlaði sínum lærdómi af lífinu með því að vera hún sjálf.
Ketill langafi hennar í Höfnunum var sagður mikill höfðingi og það virðist hafa skilað sér í ömmu Margréti. Hún var höfðingi á sínu heimili og kom þannig fram við alla sem sóttu þangað til hennar.
Jafnvel síðustu vikurnar þegar hún var líkamlega þjáð átti hún inni léttleika og húmor sem braust fram í brosi og gríni. Hún var hlý og góð kona sem ekkert aumt mátti sjá.
Mér fannst alltaf gott að fá að vera í kringum hana ömmu og verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst henni.
Þórir Gunnar Jónsson.
Elsku amma mín, Margrét Helga Vilhjálmsdóttir, hefur nú kvatt þennan heim.
Sjálfur ólst ég upp í Noregi og hafði því ekki tök á að hitta ömmu á hverjum degi en hún var dugleg að hringja og athuga með okkur systkinin. Þegar ég fótbrotnaði sem ungur drengur var hún strax mætt út til að hlúa að mér og passa upp á mig.
Sumarið 1996 er mér mjög minnisstætt. Þá var ég sendur heim til Íslands, 12 ára gamall, til að eyða sumrinu á Íslandi hjá ömmu Margréti og afa Andrési Björnssyni. Ég átti að læra íslenskuna betur og njóta nærveru fjölskyldu minnar á Íslandi. Farið var vítt og breitt um landið og margt skoðað. Þetta sumar sem ég dvaldi hjá þeim var mér boðið að mæta á knattspyrnuæfingu hjá KR. Ömmu var frekar illa við að ég stundaði knattspyrnu enda átti ég að fara vel með fæturna á mér. Eftir að hafa grátið úr mér lungun og tekið nokkur frekjuköst gaf hún sig og fylgdi mér á æfingu. Áður en ég vissi af var amma mætt inn í klefa að tala við þjálfarann. Ég veit ekki hvað fór fram í samtali þeirra en mig grunar að hún hafi verið að biðja hann um að passa upp á fæturna á mér. Þessar minningar munu ávallt fylgja mér og eru mér mjög dýrmætar.
Amma skilaði inn ökuskírteini sínu 92 ára gömul og sagði að það hefðu verið ein mestu mistök sem hún hefði gert enda væri hún föst heima hjá sér núna. Hún var afbragðs ökumaður og fékk ég ófá símtöl frá vinum mínum í Reykjavík sem voru að tilkynna mér að amma Margrét hefði verið að taka fram úr sér.
Amma var einstaklega vel gerð og greind kona. Það var alltaf gott að koma heim til hennar á Hofsvallagötu. Þar áttum við ávallt gott spjall í notalegu andrúmslofti og mun ég sakna þess. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir allt sem hún kenndi mér og ég veit að það mun nýtast mér í lífinu.
Elsku amma, þín verður sárt saknað.
Megir þú hvíla í friði.
Andrés Vilhjálmsson.
Það var erfitt að fá ömmu Möggu til þess að segja manni frá fortíðinni, því hún var alltaf uppteknari af líðandi stundu; með puttann á púlsinum. Við systkinin vorum svo heppin að fá að búa í kjallaranum hjá henni á seinni árum og verja miklum tíma með henni. Amma var einstaklega nýjungagjörn og óhrædd við að prufa nýja hluti. Það er mér sérstaklega minnisstætt þegar amma fór með okkur á heimssýninguna í Hanover, þá áttræð. Við gengum mikið í ferðinni og áttum við systkinin hlaupahjól sem amma notaði síðan mestallan tímann. Henni hefði aldrei dottið í hug að setjast í hjólastól, sem einnig var í boði.
Önnur minning sem stendur upp úr er þegar hún bað mig um að sækja hjólið hennar mömmu út í bílskúr, en þá var hún tæplega níræð. Svo hjólaði hún óhikað eftir Ægisíðunni eins og ekkert væri.
Það er erfitt að finna einhvern jafnjákvæðan og með jafnmikla lífslöngun og ömmu. Á seinni árum skemmti hún sér við að fara í bíltúra á daginn, þá kom hún gjarnan við í Hagkaup eða Tiger. Þegar hún kom heim úr matvörubúð, sagði hún manni gjarnan frá því, á meðan hún tók upp úr pokunum, að hún hefði keypt inn það sem hún sá að konan á undan henni hefði verið að kaupa. Hún hafði mikinn húmor fyrir sjálfri sér og tók lífinu létt.
Amma var einstaklega góður gestgjafi og gerði allt til þess að láta gestum líða vel. Hún bauð gjarnan í tuttugu manna matarboð, nýkomin heim úr búðinni en náði alltaf að slá upp glæsilegri veislu og hafði sjaldan áhyggjur af því að vera á síðustu stundu. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til ömmu. Blessuð sé minning hennar.
Vigdís M. Jónsdóttir.
Fólkið sem er manni nánast mótar mann óhjákvæmilega í uppvextinum. Amma Margrét var ein af þeim sem stóðu okkur systkinunum hvað næst og hennar nærvera var órjúfanlegur hluti af lífinu alveg fram á síðustu stundu.
Amma var félagslynd, fróðleiksfús og hafði lúmskt gaman af fólki sem sagði sínar skoðanir og fór jafnvel gegn viðteknum venjum, en bar þó virðingu fyrir gömlum gildum. Hún var vel inni í öllum málum líðandi stundar og hvergi var komið að tómum kofunum hjá henni hvort sem um var að ræða dægurmál eða önnur málefni. Það voru líka yfirleitt miklar umræður í matarboðunum á Hofsvallagötunni. Hún bauð fjölda fólks í mat eða kaffi, helst með engum fyrirvara, jafnvel þegar verið var að bera matinn fram. Og allir mættu, enda gaman að koma í heimsókn á Hofsvallagötuna.
Amma gekk í menntaskóla og útskrifaðist 18 ára sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hún hafði áhuga á að fara í viðskiptafræði í Háskólanum og það hefði örugglega átt frábærlega við hana, en hún fékk að heyra það að námið væri ekki fyrir konur. Námsþorsti ömmu skilaði sér í áherslum til okkar barnabarnanna sem lærðum snemma að lesa og reikna á Hofsvallagötunni. Margar af mínum fyrstu minningum tengjast ömmu enda bjuggum við í kjallaranum á Hofsvallagötunni þau ár. Það var líf og fjör í kringum hana og við fengum að njóta þess. Ég á sterkar og kærar minningar af ýmsum heimsóknum og flakki með ömmu og ævintýrum í aftursætinu í bílnum hennar þegar við systur vorum hjá henni í pössun. Við settumst aftur í bílinn og hún spurði okkur glottandi: Er bíll? Við höfðum það hlutverk að segja henni hvenær hún gæti bakkað út og þegar við gáfum grænt ljós þá var spænt af stað. Henni tókst að gera okkur spenntar og láta okkur halda að við værum við stjórnina. Síðan heimsóttum við vinkonur hennar, sátum í skemmtilegum kaffiboðum, fengum kandís og spjölluðum við eldri kynslóðina um heima og geima.
Þrjátíu árum síðar þegar mín börn voru að stíga sín fyrstu skref var ég aftur komin í kjallarann á Hofsvallagötunni með mína fjölskyldu og það er mér verðmætt að börnin mín skuli hafa fengið að kynnast langömmu sinni. Tilveran er önnur og fátækari eftir fráfall ömmu Margrétar, en ég er þakklát fyrir að hafa átt hana að og fengið að njóta þessarar sterku og drífandi konu í uppvextinum og fram á fullorðinsár.
Guðrún Ögmundsdóttir.
Þegar ég minnist ömmu Margrétar kemur orðið höfðingi í hugann. Tignarleg, glettin, sposk á svip og hlý. Ég sé hana fyrir mér hávaxna og glæsilega með þvílíka nærveru að fólk gat ekki annað en hrifist með henni. Ég sé hana fyrir mér þar sem hún situr í fallega stólnum sínum á Hofsvallagötunni, horfir út á hafið og fær einhverja skemmtilega hugmynd. Spyr til dæmis hvort við eigum ekki að bjóða öllum í læri um kvöldið. Brosandi gat hún galdrað fram veislur með engum fyrirvara.
Ég man eftirvæntinguna þegar við vissum að von væri á ömmu að passa okkur systkinin þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn. Það var alltaf svo skemmtilegt með ömmu, hún fékk hugmyndir og framkvæmdi þær strax. Þá var farið í Tívolí, hafst við á veitingastöðum og við nutum lífsins til hins ýtrasta. Eftir á verður manni þó ljóst að það voru ekki hringekjuferðirnar sem gáfu okkur svo mikið, heldur var það nærvera og væntumþykja ömmu.
Amma kom og heimsótti mig fyrir átta árum þegar ég var við nám í Englandi. Þrátt fyrir að ég byggi nokkuð frá London, hafði hún orð á því að það væri nú ekki hægt að koma til Englands án þess að heimsækja Oxford Street og skoða aðeins mannlífið þar. Hún var alltaf með puttann á púlsinum og svo lífsglöð og orkumikil að það geislaði frá henni. Hún fylgdist með öllum nýjungum og var gjörn að prófa það sem nýtt var. Þegar kaffihús byrjuðu að spretta upp í Reykjavík með nýjum tegundum kaffidrykkja, var amma að sjálfsögðu mætt á staðinn. Ég man þegar hún sagði frá slíkri ferð þar sem hún fékk espresso og sódavatn fylgdi í litlu glasi.
Hún sagðist ekki hafa vitað hvernig ætti að bera sig að og endaði á að skella sódavatninu í kaffið og drakk þannig. Hló mikið að þessu og hafði gaman af.
Svona var amma, alltaf með á nótunum og tilbúin að taka þátt í breytingum og nýjungum. Hún var vel að sér um allt, fylgdist með þjóðfélagsumræðu, og hafði skoðun á öllu. Hvort sem það voru fjármálafléttur, utanríkismál eða stjörnur í Hollywood, hún var með allt á hreinu. Ég man eftir orðlausum vinkonum mínum á unglingsárum eftir samræður við ömmu, þar sem hún ræddi við okkur um leikara og söngvara samtímans eins og hún væri jafnaldra okkar.
Amma var heimsborgari, talaði ensku og gat átt samræður á fjölda tungumála. Þegar ég kom með erlenda vini í heimsókn til hennar þá spjallaði hún á viðeigandi tungumáli og var alltaf inni í öllu sem viðkom landi og þjóð gestsins. Mér leið oft eins og ég væri að kynna erlenda vini fyrir þjóðhöfðingja þessarar eyju okkar. Enda var hún slíkur höfðingi í mínum augum.
Amma var trúnaðarvinkona sem hægt var að ræða við um hvað sem var. Þrátt fyrir yfir sextíu ára aldursmun þá fannst mér alltaf sem amma væri jafnaldra mín. Hún hafði einlægan áhuga á þeirri gleði eða sorg sem varð á vegi manns og var alltaf reiðubúin að hlusta og miðla af reynslu sinni. Hún er sú manneskja sem ég hef litið einna mest upp til og þykir mikill heiður að bera nafn hennar. Takk amma, fyrir ómetanlegar stundir sem gleymast aldrei.
Margrét Helga Ögmundsdóttir.
Margrét var fastur punktur í tilveru minni og barna minna á uppvaxtarárum þeirra. Hún var tengdamóðir bróður míns, en hún var Margrét amma. Hún hafði sérstakt lag á því að láta öllum líða vel í návist sinni og við munum sakna þess að koma ekki í heimsókn á Hofsvallagötuna. Alltaf vorum við velkomin og tekin með í fjölskylduboðin og alltaf byrjuðu jólin með hangikjötsveislu hjá Margréti á Þorláksmessu. Nú eru þetta ljúfar minningar.
Hún fylgdist vel með okkur og lét okkur finna að hún bar hag okkar fyrir brjósti. Við þökkum fyrir að hafa fengið að vera samferða henni og að taka þátt í hennar lífi. Fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Ingibjörg, Guðmundur, Emma Marie, Martin Jónas, Björn Patrick og fjölskyldur.