Fara í efni

ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR SÝNI AÐGÁT

Í hálf fimm fréttum Kb-banka í vikunni er beint ákveðnum varnaðarorðum að Íbúðalánasjóði og Félagsmálaráðuneyti. Ráðuneytið hefur gefið út viðauka við reglugerð um fjárhag og áhættustýringu sjóðsins. Með reglugerðinni eru heimildir hans til lánastarfsemi víkkaðar umtalsvert frá því sem nú er. Í hálf fimm fréttum Kb-banka segir m.a.: " Það orkar … tvímælis að á sama tíma og Seðlabanki Íslands herðir peningalegt aðhald og dregið er úr útgjöldum í ríkisfjármálum virðist sem að Félagsmálaráðuneytið sé með nýrri reglugerð að auka umsvif hins opinbera á lánamarkaði."

Í sumar kom fram í fjölmiðlum að Íbúðalánasjóður væri tekinn upp á því að veita bönkum og fjármálastofnunum lán en áhættan af lánveitingunum hvíldu hins vegar hjá sjóðnum. Hverjar gætu verið skýringarnar á því? Þegar vextir fóru lækkandi kom fólk í stórum hópum og greiddi upp lán sín hjá sjóðnum og endurfjármagnaði þau á lægri vöxtum. Vandinn var sá að lánsfjármagns hafði Íbúðalánasjóður sjálfur aflað með skuldabréfum sem hann gat ekki greitt upp vegna skilmála lánanna. Gagnrýnendur Íbúðalánasjóðs segja það hafa verið misráðið í hæsta lagi og stórvarhugavert að sjóðurinn skuli hafa tekið skuldabréf í milljarðavís sem séu óuppgreiðanleg á sama tíma og lánveitingar til viðskiptavina sjóðsins séu uppgreiðanlegar. Fyrir vikið hafi Íbúðalánasjóður setið uppi með miklar fúlgur. Sjóðurinn hafi þá reynt allt hvað hann gat  að koma fjármagninu aftur í umferð og kallað til málaliða sér til aðstoðar. Það eru Landsbankinn, sparisjóðirnir og í einhverjum mæli Íslandsbanki. Sjóðurinn hefur ekki umboð til að standa í beinni útlánastarfsemi og verður fyrir vikið að treysta þessum aðilum í blindni. Það liggur í augum uppi hve varhugavert það er að sá aðili sem ber ekki áhættuna af mögulegu gjaldþroti skuli sjá um útlánin.

Áleitin spurning nú er hvort ekki væri skynsamlegast af Íbúðalánasjóði að vinda ofan af þessari áhættustefnu í stað þess að auka hraðann í rúllettunni með því að færa út kvíarnar á lánamarkaði. Þetta segi ég sem mjög einarður stuðningsmaður Íbúðalánasjóðs. Ég tel hann vera eina af undirstöðustofnunum velferðarþjóðfélagsins. Hann er fjöregg sem við þurfum að gæta vel.

Í rauninni geta bankarnir, og þar með einnig KB banki, trútt um talað. Í sameiningu hafa þeir staðið fyrir samfelldri aðför að Íbúðalánasjóði. Þeir hafa reynt að bola honum út af markaði með kærumálum til dómstóla á hinu Evrópsku efnahagssvæði og nú í Evrópusambandinu. Enn hafa þeir ekki haft árangur af erfiði sínu – sem betur fer. Þá fyrst lækkuðu bankarnir vexti sína þegar þeir höfðu farið sneypuför til Brussel. Frá bönkunum er engrar aðstoðar að vænta fyrir Íbúðalánasjóð. Hann þarf hins vegar að sýna ítrustu varfærni í skuldbindingum sínum og horfast í augu við hugsanleg mistök sem hann kann að hafa gert.