INGVA HJÖRLEIFSSONAR MINNST
Samstarfsmaður minn og félagi til margra ára, Ingvi Hjörleifsson, var borinn til grafar þrettánda júní síðastliðinn. Í Sjónvarpinu eignaðist ég marga vini og félaga, ekki síst í gegnum Starfsmannafélag Sjónvarps og var Ingvi einn af þeim.
Ég setti niður nokkur minningarorð um þenna eftirminnilega félga og hugleiðingar um gildi þeirra verka sem hann vann í þágu starfsmanna Sjónvarps. Birtust þau í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag og fylgja hér á eftir:
Þegar starfsmannafélag Sjónvarpsins útnefndi Ingva Hjörleifsson öryggistrúnaðarmann stofnunarinnar varð heldur betur líf í tuskunum.
Þetta var um miðjan níunda áratuginn og Sjónvarpið enn í sínu gamla húsnæði á Laugavegi 176. Það hús hafði ekki verið byggt til að hýsa sjónvarpsstöð en lagað smám saman að þeirri starfsemi. Það þýddi að ekki var allt eins og best varð á kosið enda lengi verið fundið að ýmsu sem þótti ábótavant í bútasamsettri sjónvarpsstöð.
Óneitanlega gekk stundum hægt að fá úrbætur. Það var að mörgu leyti mjög skiljanlegt því í tækniveröld sem tók örum breytingum nánast frá degi til dags var stöðugt bankað á um kaup á nýjum búnaði og breytingum sem honum tengdist
En nú var sem sagt kominn öryggistrúnaðarmaður starfsmannafélags Sjónvarps til skjalanna. Sá var ekki lamb að leika við. Nú skyldi verða breyting á, öryggið í forgang og engar refjar.
Starfsmenn Vinnueftirlitsins urðu nú tíðir gestir á göngum Sjónvarpsins, vakin var athygli þeirra á þessu og svo á hinu, allt skráð og númerað. Í kjölfarið voru síðan reistar kröfur um breytingar, einhverjar þeirra voru auðleystar, aðrar síður, og sumar - æði margar - illframkvæmanlegar.
Öllum hélt öryggistrúnaðarmaður starfsmannafélags Sjónvarpsins þó til streitu með mikilli málafylgju.
Það er skemmst frá því að segja að ekkert yfirvald stóðst til lengdar harðdrægni Ingva Hjörleifssonar og flestar náðu tillögur hans í gegn.
Hver eru þá skilaboðin með þessari upprifjun nú þegar ég kveð minn gamla félaga frá árum áður? Þau snúa að gildi verkalýðshreyfingar, hvers hún er megnug ef hún byggist annars vegar á kraftmiklu starfi og hins vegar á viðurkenningu atvinnurekandans á hlutverki hennar. Staðreyndin er sú að yfirstjórn Sjónvarpsins og starfsmannafélagið leystu ýmis deilumál og fyrirbyggðu önnur á þessum grunni, gagnkvæmri virðingu.
Þetta var fyrir daga mannauðsfræðanna og skilningurinn sá að hlutverk verkalýðsfélaga væri að vera mótvægi við atvinnurekendavaldið. Báðir yrðu að virða sjónarmið hins.
Í þessari jafnvægislist var Ingvi Hjörleifsson mikilvægur hlekkur auk þess að vera góður félagi og vinur sem ég nú kveð og þakka samfylgdina.
Ég færi fjölskyldu hans samúðarkveðjur.
------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.