Fara í efni

INGVA HJÖRLEIFSSONAR MINNST

Samstarfsmaður minn og félagi til margra ára, Ingvi Hjörleifsson, var borinn til grafar þrettánda júní síðastliðinn. Í Sjónvarpinu eignaðist ég marga vini og félaga, ekki síst í gegnum Starfsmannafélag Sjónvarps og var Ingvi einn af þeim.
Ég setti niður nokkur minningarorð um þenna eftirminnilega félga og hugleiðingar um gildi þeirra verka sem hann vann í þágu starfsmanna Sjónvarps. Birtust þau í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag og fylgja hér á eftir:

Þegar starfs­manna­fé­lag Sjón­varps­ins út­nefndi Ingva Hjör­leifs­son ör­ygg­is­trúnaðarmann stofn­un­ar­inn­ar varð held­ur bet­ur líf í tusk­un­um.

Þetta var um miðjan ní­unda ára­tug­inn og Sjón­varpið enn í sínu gamla hús­næði á Lauga­vegi 176. Það hús hafði ekki verið byggt til að hýsa sjón­varps­stöð en lagað smám sam­an að þeirri starf­semi. Það þýddi að ekki var allt eins og best varð á kosið enda lengi verið fundið að ýmsu sem þótti ábóta­vant í búta­sam­settri sjón­varps­stöð.

Óneit­an­lega gekk stund­um hægt að fá úr­bæt­ur. Það var að mörgu leyti mjög skilj­an­legt því í tækni­ver­öld sem tók örum breyt­ing­um nán­ast frá degi til dags var stöðugt bankað á um kaup á nýj­um búnaði og breyt­ing­um sem hon­um tengd­ist

En nú var sem sagt kom­inn ör­ygg­is­trúnaðarmaður starfs­manna­fé­lags Sjón­varps til skjal­anna. Sá var ekki lamb að leika við. Nú skyldi verða breyt­ing á, ör­yggið í for­gang og eng­ar refjar.

Starfs­menn Vinnu­eft­ir­lits­ins urðu nú tíðir gest­ir á göng­um Sjón­varps­ins, vak­in var at­hygli þeirra á þessu og svo á hinu, allt skráð og núm­erað. Í kjöl­farið voru síðan reist­ar kröf­ur um breyt­ing­ar, ein­hverj­ar þeirra voru auðleyst­ar, aðrar síður, og sum­ar - æði marg­ar - ill­fram­kvæm­an­leg­ar.

Öllum hélt ör­ygg­is­trúnaðarmaður starfs­manna­fé­lags Sjón­varps­ins þó til streitu með mik­illi mála­fylgju.

Það er skemmst frá því að segja að ekk­ert yf­ir­vald stóðst til lengd­ar harðdrægni Ingva Hjör­leifs­son­ar og flest­ar náðu til­lög­ur hans í gegn.

Hver eru þá skila­boðin með þess­ari upp­rifj­un nú þegar ég kveð minn gamla fé­laga frá árum áður? Þau snúa að gildi verka­lýðshreyf­ing­ar, hvers hún er megn­ug ef hún bygg­ist ann­ars veg­ar á kraft­miklu starfi og hins veg­ar á viður­kenn­ingu at­vinnu­rek­and­ans á hlut­verki henn­ar. Staðreynd­in er sú að yf­ir­stjórn Sjón­varps­ins og starfs­manna­fé­lagið leystu ýmis deilu­mál og fyr­ir­byggðu önn­ur á þess­um grunni, gagn­kvæmri virðingu.

Þetta var fyr­ir daga mannauðsfræðanna og skiln­ing­ur­inn sá að hlut­verk verka­lýðsfé­laga væri að vera mót­vægi við at­vinnu­rek­enda­valdið. Báðir yrðu að virða sjón­ar­mið hins.

Í þess­ari jafn­væg­islist var Ingvi Hjör­leifs­son mik­il­væg­ur hlekk­ur auk þess að vera góður fé­lagi og vin­ur sem ég nú kveð og þakka sam­fylgd­ina.

Ég færi fjöl­skyldu hans samúðarkveðjur.

------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.