Fara í efni

ÍSLAND GETUR HAFT ÁHRIF Í LÍBANON

Birtist í Fréttablaðinu 29.07.06.
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur skorað á íslensk stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stöðva frekari manndráp og eyðileggingu í Líbanon og hefur þingflokkurinn í því sambandi minnt á að öll ríki Sameinuðu þjóðanna geti haft áhrif í þessu efni. Samkvæmt ályktun SÞ númer 377 er heimilt að kalla saman Allsherjarþing SÞ og samþykkja þar kröfu um að hernaðaraðgerðir verði stöðvaðar. Fyrir þessu eru nokkur fordæmi, til dæmis þegar Ísraelar, Bretar og Frakkar réðust inn í Egyptaland í kjölfar þess að Eyptar þjónýttu Súez skipaskurðinn árið 1956.
Ályktun 377,  kom upphaflega til sögunnar árið 1950 að frumkvæði Bandaríkjastjórnar, sem leitaði leiða til að komast framhjá neitunarvaldi Sovétríkjanna í Öryggisráði SÞ. Það var reyndar Bandaríkjastjórn, sem nýtti sér þessa aðkomu í Súezdeilunni vegna neitunarvalds Breta og Frakka í ráðinu. Ályktun 377 gengur einnig undir heitinu Sameining í þágu friðar, Uniting for peace. Í ályktuninni er minnt  á þá skyldu Sameinuðu þjóðanna og allra stofnana þeirra að “halda uppi friði og öryggi og í því skyni grípa til sameiginlegra ráðstafana”.
Þegar er þrýstingur víða um heiminn á að ríkisstjórnir krefjist þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna komi saman þegar í stað, til þess að álykta í þessa veru. Mikilvægt er að Ísland hafi frumkvæði og komi skriðunni af stað.
Nú er það Bandaríkjastjórn sem beitir neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og heldur þannig verndarhendi yfir hernaði Ísraela. Sem áður segir var öldin önnur fyrir 50 árum, því þegar Frakkar og Bretar beittu neitunarvaldi sínu í Öryggisráðinu, voru það Bandaríkjamenn sem gripu til ályktunar 377. Allsherjarþingið kom saman að þeirra frumkvæði og var samþykkt krafa um að innrásarherir Breta, Frakka og Ísraela drægju sig til baka frá Egyptalandi. Þetta hafði gríðarleg áhrif heima fyrir í þessum ríkjum. Herirnir hurfu á braut og í Bretlandi varð þetta til þess að forsætisráðherrann hröklaðist frá völdum.
Yfirgnæfandi meirihluti ríkja heims er andvígur innrás Ísraela í Líbanon. Enginn vafi leikur á því að meirihluti væri nú fyrir því að samþykkja kröfu um að endi yrði þegar í stað bundinn á árásir af hálfu Ísraela.
Staðfest hefur verið að Ísraelar fremja stórfelld mannréttindabrot og stríðsglæpi í Líbanon og Palestínu. Sá sem ekki gerir allt sem í hans eða hennar valdi stendur til þess að stöðva ódæðið er samsekur. Það á líka við um ríkisstjórnir. Þar með talið ríkisstjórn Íslansds.