Fara í efni

ÍSLAND ÞÁTTTAKANDI Í NÝJU KÖLDU STRÍÐI?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 29.07.14.
Bandaríska vikuritið Time helgar útgáfu sína síðustu viku júlímánaðar þeirri tilgátu að nýtt Kalt stríð sé í uppsiglingu og að þar sé Pútín Rússlandsforseti höfuðsökudólgur. Umfjöllun Time minnir reyndar mjög á nálgun og orðfæri Kalda stríðsins eins og ég kynntist því m.a. sem fréttamaður erlendra frétta á áttunda og níunda áratugnum.

Alls staðar til ills

Í umræddu Time blaði er ítarleg umfjöllun um malasísku flugvélina sem var skotin niður yfir Úkraínu, sýndar myndir af limlestum líkum og slitrum úr bókum barna sem höfðu farist. Rifjað er upp að 298 manns hafi farist. Lesendum er greint frá því að bandaríska leyniþjónustan segi með „vaxandi vissu" að aðskilnaðarsinnar hafi skotið vélina niður með eldflaugum sem Moskvu-stjórnin hafi fengið þeim í hendur. Slíkar flaugar hafi þeir notað gegn úkraínskum herflugvélum og hafi þeir skotið tvær slíkar niður innan við viku eftir að farþegavélinni var grandað. Úkraína er síðan sett í víðara samhengi og vísað m.a. til Sýrlands.  Alls staðar sé Pútin með fingurna til illra verka. Og Time furðar sig á linkulegum viðbrögðum bæði Evrópu og Bandaríkjanna og átelur þau harðlega.

Viðhorf Shevardnadzes lofuð

Viku áður hafði Time fjallað um fráfall Eduards Shevardnadze, fyrrum utanríkisráðherra Sovétríkjanna, síðar forseta Georgíu í eins konar leiðara. Shevardnaze var þar gefin góð einkunn: „Honum verður skipað í öndvegi í mannkynssögunni, þótt ekki væri nema fyrir það eitt að hafa ásamt Mikhail Gorbachev leiðtoga Sovétríkjanna neitað að beita valdi til að varðveita sovéska heimsveldið. En hann gerði miklu meira ... Þeir Gorbachev og Shevardnaze höfðu vit til að vinna með andstæðingum sínum úr Kalda stríðinu að sameinigu Þýskalands innan NATÓ, semja um stórfelldan niðurskurð á efnavopnum og kjarnorkuvopnum og heimila fyrrum aðildarríkjum Varsjárbandalagsins að ákveða eigin framtíð."
Hann hafi átt í höggi við harðlínumenn sem hafi viljað áframhaldandi valdstjórn. Þeir hafi kynnt undir ófriði og deilum á alþjóðavettvangi. Að lokum vitnar Time í Gorbachev sem hafi sagt um þennan fyrrum félaga sinn að hann „ hefði verið raunverulegur stuðningsmaður nýrrar hugsunar í alþjóðamálum."  

Þörf á lýðræðislegri hugsun

Þessi skrif eru óneitanlega nokkuð í anda forræðishyggjustjórnmála þar sem miklir menn drottna í skjóli valda og reglustikunnar sem þeir koma sér saman um að nota til að skipta heiminum í áhrifasvæði sín í milli.
Að vísu vantar talsvert inn í þessa mynd af Shevardnadze.  Azerbaijan og Eystrasaltsríkin, svo dæmi séu tekin, myndu varla skrifa upp á staðhæfingu Time  um að aldrei hafi verið beitt vopnavaldi til varnar sovéska heimsveldinu í tíð þeirra félaga. Þá er varla hægt að horfa framhjá spillingunni sem viðgekkst í Georgíu í forsetatíð Shevardnadze þegar hann nú er hafinn upp til skýjanna. Hitt virðist rétt að hann hafi verið einlægur í því að vilja virða lýðræðið. Til marks um það sagði hann af sér embætti sem utanríkisráðherra Sovétríkjanna vegna þess að  „umbæturnar hefðu mistekist" og „ einræðið í sókn" . Shevardnadze sagðist sjálfur líta á það sem sitt stoltasta afrek að láta ekki freistast af ofbeldi og valdstjórn. ( Sjá m.a. það sem Natalía Antelava skrifar í New Yorker 8. júlí, daginn eftir andát Shevardnadzes).

Einskis virði samkomulag?

En hvað segir allt þetta okkur samkvæmt fjölmiðlum á borð við Time? Í fyrsta lagi að heimurinn láti Pútín komast upp með ofbeldi sem kaldastríðsleiðtogar á Vesturlöndum hefðu ekki umborið og síðan að öldin sé önnur nú en þegar Shevardnadze og félagar voru við stjórnvölinn í Moskvu, menn sem hvorki vildu kalt stríð né heitt.  
Nú fer þeim fjölgandi sem tjá sig um þessa þróun, ekki síst vestan hafs. Nefni ég þar þjóðfélagsrýninn Noam Chomski. Í ítarlegri grein sem hann birti í byrjun júlí setti hann fram sitt mat á þróun mála. Minnir hann á hvernig forsenda samkomulags stórveldanna í tíð Gorbachevs og Shevardnadzes hafi verið fyrirheit Vesturveldanna að gerast ekki ágeng nærri húsvegg Rússa og færa sig undir engum kringumstæðum nær þeim með hertól sín en þá var þegar orðið. Allt þetta hafi verið svikið segir Chomski - og þegar gengið hafi verið eftir því, hafi verið sagt að samkomulagið hafi bara verið munnlegt og því ekkert mark á því takandi!

Trúverðugleiki hervelda

Nú hafa verið skrifaðar ágætar blaðagreinar hér á landi sem vara við framferði Rússa. Ég nefni þar sem dæmi um athyglisverð skrif, grein Einars Benediktssonar í Fréttablaðinu 22. júlí sl. þar sem hann varar við ásælni Rússa á norðurslóð. Sjálfur hef ég oft sagt að mann á borð við Vladimir Pútin, með sinn vafasama feril í leyniþjónustu Sovétríkjanna, verði alltaf að taka með fyrirvara. En hvað ríkin, sem réðust inn í Írak á lygaforsendum, eftir að hafa murkað lífið úr hálfri milljón barna með viðskiptaþvingunum; ríki sem starfrækja pyntingarbúðir þar sem mönnum er haldið án dóms, búa yfir miklum trúverðugleika er svo líka spurning.

Varasamt að leggja allt á versta veg

Síðan gæti verið hollt að spara miklar fullyrðingar þar sem menn gefa sér að það hafi verið ásetningur Rússa að granda malasísku farþegavélinni. Vestan hafs kalla gagnrýnir fréttamenn eftir sönnunargögnum að úkraínskir aðskilnaðarsinnar hafi skotið skotflaugunum sem grönduðu vélinni. Ásetningur Rússa í því efni væri álíka fráleitur fyrir þeirra málstað og það hefði verið fyrir málstað Bandaríkjanna ef þeir hefðu af ásetningi skotið niður írönsku farþegavélina, sem grandað var yfir Persaflóa, í íranskri lofthelgi,  í júlí árið 1988. Það er hins vegar staðreynd að farþegavélina skutu þeir niður og drápu þar með 290 farþega hennar, þar af 66 börn. Engin komst lífs af. Bandaríkjamenn viðurkenna ekki formlega sekt sína en óbeint þó með því að fallast á skaðabótakröfur vegna þessa afdrifaríka slysaskots.

Hagsmunir Íslands?

Í vor var tekin sú ákvörðun á þingi Evrópuráðsins í Strasbourg að vísa Rússum tímabundið út af fundum ráðsins. Það tel ég að hafi verið mikið óráð og hef fært ítarleg  rök fyrir þeirri afstöðu minni. Og nú er hvatt til enn meiri hörku. Það er ekki annað að sjá og heyra en að ríkisstjórn Íslands taki mjög ákveðið undir.
En gæti verið að þegar allt kemur til alls séu það ekki hagsmunir Íslands að verða merkisberi í átökum stórvelda heimsins um völd og ítök?
Þeir sem hafa haft fyrir því að rýna í atburðarásina í aðdraganda og einnig kjölfar þess að löglega kjörnum forseta Úkraínu var steypt af stóli  í febrúar sl. má ljóst vera að Vesturveldin eru ekki eins hvítþvegin og margir vilja vera láta. Það er umhugsunarvert að margir helstu haukarnir í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum dásama nú Shevrdnadze fyrir afstöðu sem er fullkomlega gagnstæð þeirra eigin.
Ef djarfrar nýhugsunar var þörf til að enda Kalda stríðið, hvers vegna ætti ekki að leggja rækt við þá hugsun í stað þess að setja allt aftur í frost? 

Nokkrar slóðir sem tenhgajst þessari grein:

Grein í New Yorker: http://www.newyorker.com/news/news-desk/postscript-eduard-shevardnadze-1928-2014 Grein Einars Benediktssonar, fyrrv. sendiherra í Fréttablaðinu 22. júlí: http://www.visir.is/ognin-fyrr-og-sidar/article/2014707229995
Grein Noam Chomskys : http://readersupportednews.org/opinion2/277-75/24548-americas-real-foreign-policy 
Afstaða mín á þingi Evrópuráðsins skýrð: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kaldastridstonar-i-evropuradnu