Fara í efni

ÍSLENDINGAR VIRKJA VELVILJANN


Íslendingar berja sér á brjóst fyrir viðbraðgsflýti við hjálparbeiðni frá Haiti vegna hörmunganna í kjölfar jarðskjálfta. Ég tek þátt í brjóstkassabarsmíð.  Ég er stoltur að hugsa til þess að Íslendingar voru í hópi þeirra sem voru fyrstir að taka við sér þegar ógæfan reið yfir. Mér þykir líka vænt um að lesa frásagnir af því hve vel okkar fólk hefur staðið sig í björgunarstarfi við erfiðar aðstæður. Þakkir til allra hlutaðeigandi, viðbragðsskjóts utanríkisráðuneytis, björgunarsveita, hjálparstofnana...allra þeirra sem komu að máli. Kærar þakkir.
Þetta á að vera okkar hlutverk í alþjóðasamstarfi: Að virkja velviljann. Út úr NATÓ, inn í friðar- og mannúðarstarfið, samhjálpina, rannsóknarvinnuna! Þrátt fyrir okkar sjálfhverfa vanda komumst við til Haiti hinum snauðu til aðstoðar. Fáum þar auk þess ágætan og sannsöglan spegil á eigið hlutskipti. Hollt fyrir okkur -  um leið og við látum gott af okkur leiða.