Íslenskir bjórframleiðendur grafa undan lögum
Í gærkvöld fór fram athyglisverð umræða í Kastljósi Sjónvarps um áfengisauglýsingar. Mættir voru til leiks Árni Guðmundsson, æskulýðs- og tómstundafulltrúi í Hafnarfirði, sem sent hefur áskorunina hér að ofan út á netsíðu sinni, og Jón Diðrik Jónsson, forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar. Báðir voru ágætir málsvarar sinna sjónarmiða. Sjálfur er ég hins vegar mjög á máli Árna og tek heils hugar undir með honum um að vísa ábyrgð á hendur ölframleiðenda, sem reyna allt hvað þeir geta til að skjóta sér fram hjá banni við auglýsingum á áfengi. Fyrir sitt leyti segja framleiðendur að auglýsingar séu leyfðar í erlendum tímaritum og á íþróttaleikvöngum erlendis, sem sjónvarpað er frá í íslensku sjónvarpi. Þar auglýsi erlendir samkeppnisaðilar og búi íslensku framleiðendurnir af þeim sökum við lakari samkeppnisstöðu. Nokkuð er til í þessu. Hins vegar er á það að líta að fyrst og fremst eru það íslensku fjölmiðlarnir sem hafa áhrif á okkur í auglýsingatímum ljósvakafjölmiðlanna og á síðum dagblaðanna og svo er hitt, að við hljótum að höfða til ábyrgðarkenndar framleiðenda. Ég fyrir mitt leyti vil helst alltaf kaupa íslenska vöru umfram erlenda og á það við um bjórinn sem annað. En svo hefur mér sviðið að Ölgerðin og aðrir íslenskir framleiðendur, þ.e. Vífilfell sem framleiðir bjór, Viking og Thule – hafa beitt allra bragða til að fara framhjá banninu. Erlendur bjór er reyndar einnig framleiddur hér á landi og hefur Carlsberg, Tuborg og fleiri tegundir verið auglýstar. Þetta er einfaldlega fyrir neðan virðingu þessara aðila. Fyrir framan ÁTVR í Kringlunni í Reykjavík stendur bíll með bjórdósum . Vegfarendur eru beðnir um að geta hvað dósin kosti. Hana sé að finna í næstu búð, sem að sjálfsögðu er ÁTVR. Þetta þykir eflaust einhverjum sniðug brella. Öðrum þykir þetta hins vegar vera lágkúra. Ég er í þeim hópi. Eftrifarandi er síðan hvatnig sem nú er send til ungs fólks á netinu:
Árni Guðmudsson benti á það í fyrrnefndum sjónvarpsþætti að kannanir sýndu að bjórauglýsingarnar að undanförnu væru farnar að skila sér í aukinni bjórdrykkju unglinga. Hann sagði að siðferðilegt markmið laga um þessi efni væru alveg skýr: Að koma í veg fyrir áfengisauglýsingar. Ég tek heilshugar undir með honum og hvet alla til að sniðganga þá framleiðendur sem grafa undan landslögum með því að skáskjóta sér framhjá þeim.
En að lokum tek ég undir með Árna frá því í þættinum í gær. Drekkum Egils appelsín það er frábær drykkur.
Bloggsíða Árna Guðmundssonar