Fara í efni

ÍSLENSKU HUGVITI BEITT Í BÚLGARÍU

Óli í Olís var kraftmikill maður. Þegar hann keypti Olís á sínum tíma var það talsvert umrætt að hann hefði borgað fyrirtækið með því að skrifa út tékka merktan fyrirtækinu sjálfu eftir að hann gekk frá kaupunum á því. Með öðrum orðum, Olís keypti sig sjálft niður í vasann á nýjum eiganda, sem hér eftir gekk undir nafninu Óli í Olís.

Viðskiptablaðið, 14. desember, greinir frá kaupum Björgólfs Thors Björgólfssonar á búlgarska símafélaginu BTC. Verður ekki annað skilið en þessari íslensku aðferðafræði í viðskiptum hafi verið beitt þar. Reyndar hefur íslenska aðferðin verið endurbætt í anda formúlunnar frá kaupum til gjafar. Þegar Búnaðarbankinn var gefinn þurfti ekkert að borga, bara bíða þangað til gróðinn gekk upp í það sem sett var upp fyrir bankann. Þróaðri geta viðskiptin varla orðið, það er að segja fyrir viðskiptavininn. Í Búlgaríu eru þau hins vegar ekki komin alveg svona langt. Þau eru enn á því stigi að kaupandinn verður að borga að nafninu til þótt það sé fyrirtækið sem í reynd greiði fyrir sjálft sig a la Olís.

Svona segir Viðskiptablaðið frá: “Búlgarska símafyrirtækið Bulgarian Telecommunications Company (BTC) mun skrifa undir 350 milljón evra (26,4 milljarðar íslenskra króna) lánsheimild á næstu dögum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Nýja lánið verður notað til að endurfjármagna 285 milljón evra lán (24,5 milljarðar króna), sem studdi við kaup fjárfesta á 65% hlut í BTC í fyrra þegar félagið var einkavætt...”
Sjá nánar (HÉR)

Ég hef áður vikið að því hér á síðunni hve dapurlegar hliðar eru á hinni margrómuðu útrás Íslendinga (sjá HÉR). Þannig hafi Íslendingar sölsað undir sig búlgarska símann þvert á þjóðarvilja í Búlgaríu. Þetta veldur því að ég á svolítið erfitt með að samgleðjast yfir árangrinum af útflutningi á íslensku bisnesshugviti suður eftir Balkanskaganum.