Gíslarnir japönsku frá Írak eru komnir heim heilir á húfi. Mér var létt. Ég hafði séð myndir af þeim í haldi með bandbrjálaða menn yfir sér með branda á lofti, öskrandi hótanir um líflát og tortúr. Ég hélt að öllum væri létt þegar fólkinu hafði verið sleppt. Nei, aldeilis ekki. Ráðamönnum í Japan kann að vísu hafa þótt gott að losna við vandann sem fylgdi gíslatökunni. En þeir hugsuðu fólkinu þegjandi þörfina. Samkvæmt fréttum virðist það hafa einnig átt við um stóran hluta japönsku þjóðarinnar. Það ótrúlega gerðist nefnilega, að eftir að fólkinu var sleppt úr haldi og það komið til síns heima í Japan sætti það ofsóknum. Svikarar stóð á skilti, sem því var sýnt við heimkomuna.
Sálfræðingur eins gíslanna, segist meta það svo, að áfallið sem fólkið hafi orðið fyrir við að horfa á þátt í sjónvarpi eftir komuna hafi verið meira en martröðin í höndum mannræningjanna.
Japönsku gíslarnir voru allir á eigin vegum í Írak: Ung kona, rúmlega þrítug hafði sett á fót starfsemi til hjálpar götubörnum í Bagdad, síðan var áhugaljósmyndari á svipuðum aldri, þá átján ára áhugamaður um rannsóknarblaðamennsku og fylgir það sögunni í frásögn International Herald Tribune að sneytt úran hafi verið sérstakt áhugasvið hans. Þetta var annar hópurinn sem tekinn var í gíslingu. Síðan voru til viðbótar tveir aðrir Japanir: Félagi í friðarhópi og blaðamaður sem starfað hafði í Japan sem slíkur en haldið til Íraks til þess m.a., að fylgjast með því sem Japanir væru að aðhafast í landinu. Fréttamenn japönsku fréttastofanna eru farnir frá Japan, þannig að talsmenn hers og stjórnar eru einir til frásagnar. Þetta er mesta hernaðaraðgerð sem Japanir taka þátt í frá lokum síðari heimsstyrjaldar. „Okkur ber skylda til að fylgjast með gjörðum okkar fólks, hvað við gerum Írökum“, heyrist sagt í Japan. Ekki er þarlend ríkisstjórn á því máli. Hún leigði flugvél undir japanska fréttamenn á leið frá Írak. Hún sendi hins vegar gíslunum nýfrelsuðum reikning upp á sex hundruð þúsund fyrir fargjaldi frá Írak heim til Japans.
Talsmenn japönsku utanríkisþjónustunnar og ráðherrar í ríkisstjórninni hafa talað um fólkið sem ábyrgðarlaust. Herlad Tribune hefur eftir háttsettum manni í japanska utanríkisráðuneytinu af þessu tilefni: „Þegar öryggi er í húfi, hljóta að vakna spurningar um ábyrgð einstaklinganna.“ Þetta er umhugsunarverð yfirlýsing, ekki fyrir hugsjónafólkið sem þó sýndi ábyrgð, gagnvart heimilislausum börnum í Bagdad, fórnarlömbum springikúlna með sneyddu úrani og öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna ógnarástandsins af völdum innrásarinnar. Nei, spurningin um persónulega ábyrgð hlýtur að snúa að valdamestu mönnum heims, þeim sem stjórna afkastamestu drápsherjum veraldar – hver sé þeirra persónulega ábyrgð, í þessu tilviki í Írak, í kjölfar árásarinnar á landið. Undir þeirri ábyrgð hafa þeir ekki risið. Nú hefur komið í ljós að hið sama gildir um japanska ráðamenn. Þeirra hlutskipti er aumlegra en orð fá lýst. Japönsku þjóðinni er hér með vottuð samúð að búa við stjórn slíkra manna.