Fara í efni

JELTSÍN AÐFERÐIN VIÐ VINSÆLDAKAUP OG REIÐI Í GARÐ ÍHALDSINS


Eftir að Sovétríkin sálugu liðu undir lok hefur gengið á ýmsu austur þar. Einna skuggalegust voru árin undir stjórn Boris Jelstsín. Á þeim tíma var eignum ríkisins "ráðstafað" til vina og vandamanna valdaklíkunnar í kringum forsetann. Þarna var framið eitt stærsta rán mannkynssögunnar og það fyrir opnum tjöldum. Til þess að hafa almenning góðan var annað veifið reynt að friðmælast við hann, sagt að nú ætti fólkið, almenningur, að njóta góðs af einkavæðingunni, ágóðinn af sölu einstakra fyrirtækja ætti að renna í hans vasa beint og milliliðalaust. Þetta virkaði vel á marga. Peningar í eigin vasa. Eigin peningar í eigin vasa.Vel boðið.
Það hljómar líka ágætlega þegar oddviti framsóknarmanna í Reykjavík segir að nái hann kjöri þá ætli hann að sjá til þess að sérhver Reykvíkingur fái kvartmilljón – 250 þúsund krónur – beint í vasann fyrir sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Björn Ingi Hrafnsson vill nefnilega að fólkið njóti góðs af sölunni án milligöngu kjörinna fulltrúa. Hann segir í viðtali við Blaðið sl. föstudag að hann hafi vissu fyrir því að gengið verði frá sölunni snemma á kjörtímabilinu. Sumir vilji þá ráðstafa andvirðinu í lífeyrisskuldbindingar, jafnvel í samgöngumannvirki. "Ég held hins vegar", segir frambjóðandinn, "að eigendurnir sjálfir séu síst verr til þess fallnir að ráðstafa söluhagnaðinum en stjórnmálamenn." Nú spyr Blaðið hvort Framsóknarflokkurinn sé með þessu að reyna að kaupa atkvæði með fjármunum borgarbúa. "Málið er einmitt að það eru þeir, sem eiga þennan hlut í Landsvirkjun, en ekki embættismenn í Ráðhúsinu. Það voru borgarbúar sem báru kostnaðinn af fjárfestingunni í Landsvirkjun og það er sjálfsagt að þeir njóti arðsins."

Þessar yfirlýsingar eru mjög sérstakar frá manni sem er að bjóðast til þess að annast fjárreiður borgarinnar og það í nafni stjórnmálaflokks sem vill kenna sig við miðju stjórnmálanna. Hér er talað tungu öfgafullrar hægri hyggju. Ef svo skyldi fara að hlutur borgarinnar í Landsvirkjun yrði seldur myndi enginn deila um það að borgarbúar ættu að njóta góðs af. Hér er samfélagsleg ráðstöfun fjármuna hins vegar gerð tortryggileg og sagt að peningarnir sem við fjármögnum skólana okkar með, öldrunarstofnanirnar, ýmsa þætti heilsugæslu og heimaþjónustu og slökkviliðið séu betur komnir í vasa almennings og þá væntanlega með það fyrir augum að menn borgi beint – eða hvað? Ef ekki eru fjármunir til samfélagslegra verkefna til ráðstöfunar úr borgarsjóði þá borgar skólabarnið væntanlega skólagjöld, hinn sjúki greiðir fyrir lækningu og lyf, hinn aldni fyrir umönnun og svo framvegis, því ekki er kjörnum fulltrúum að treysta!

Á hvaða vegferð er Framsóknarflokkurinn eiginlega?

Ekki síður merkilegar hafa síðan verið yfirlýsingar oddvita Framsóknar í Reykjavík og heilbrigðisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, um að Sjálfstæðisflokkurinn neiti að axla ábyrgð á framkomunni gagnvart öryrkjum og öldruðum. Framsóknarmenn eru með þessum yfirlýsingum að viðurkenna að mitt í öllu peningaflæðinu í ríkissjóð hafi þessir hópar – og aðrir sem standa lakast að vígi – verið hlunnfarnir, ríkisstjórninni sé um að kenna en Sjálfstæðisflokkurinn skelli allri skuldinni á Framsókn! Vesalings Framsókn sé aðeins meðsek, hún beri ekki ein ábyrgð á allri svívirðunni!

Auðvitað er það rétt hjá Birni Inga Hrafnssyni og Siv Friðleifsdóttur að framkoma ríkisstjórnarinnar við tekjulægsta hluta samfélagsins er svívirðileg og báðum flokkum ber að axla á henni ábyrgð. Í því ljósi má til sanns vegar færa að Sjálfstæðisflokkurinn sleppi of vel og að þannig sé reiði framsóknarmanna skiljanleg. Að sjálfsögðu eiga kjósendur að hafa ábyrgð Sjálfstæðisflokksins einnig í huga. Ábyrgð hans er ekki minni en Framsóknarflokksins og báðum flokkum til háborinnar skammar.