JEREMY CORBYN: MAÐUR MEÐ SANNFÆRINGU
Jeremy Corbyn vann yfirburðasigur í formannskjöri í breska Verkamannaflokknum. Lýkur þar með vonandi langri eyðimerkurgöngu flokksins um lendur tækifærisstjórnmála og þjónkun við fjármálavald og markaðshyggju.
Verkamannaflokkurinn hefur vissulega setið að kjötkötlunum í Whitehall en svo samgróinn varð hann peningavaldi og hernaðarhyggju við þá katla í stjórnartíð Blairs og Browns að iðulega var erfitt að greina á milli forystumanna Verkamannaflokksins og svo aftur hægri mannanna í Íhaldsflokknum breska.
Sagt er að Margaret Thatcher hafi haft mikið dálæti á Tony Blair. Kæmi mér ekki á óvart ef satt er. Nægir þar að nefna árásargjarna utanríkisstefnu og síðan að sjálfsögðu ágenga einkavæðingarstefnu Verkamannaflokksins, lengstum undir vinnuheitinu, Private Finance Initiative, PFI, einkaframkvæmd á íslensku.
Andstæðingar Corbyns finna honum það til foráttu að hafa beitt sér gegn PFI stefnu Blairs, gegn innrásinni í írak og fyrir afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála í Mið-Austurlöndum og síðast en ekki síst fyrir auknum jöfnuði og eflingu velferðarþjónustu fyrir almenning.
Þetta leyfa menn sér að kalla öfgar! Ekki er sá mikli fjöldi sem kaus Corbyn til forystu sammála því mati.
Jeremy Corbyn er félagi í þeim hluta Verkamnnaflokksins sem kallar sig Labour Representation Committee. Haustið 2008, í kjölfar Hrunsins, hitti ég einmitt Jeremy Corbyn á fundi í Labour Representation Committee í London en mér hafði verið sérstaklega boðið til að ávarpa þá ágætu samkomu
Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/talad-til-vinstri-i-breska-verkamannaflokknum
Sjá nánar fréttir dagsins: http://www.theguardian.com/politics/2015/sep/12/jeremy-corbyn-wins-labour-party-leadership-election