JÓHANNES NORDAL OG TVÖ PRÓSENTIN
11.11.2010
Jóhannes Nordal fyrrum seðlabankastjóri vissi sínu viti. Hann gerði sér grein fyrir því að með vísitölubindingu lána væru hagsmunir lánveitandans tryggðir. Allt sem væri umfram verðtrygginguna væri hans hagnaður. Þess vegna lét hann þau orð falla í byrjun níunda áratugar síðustu aldar þegar verðtrygging fjármagns var tekin upp hér á landi að óeðlilegt væri að láta vísitölubundin lán bera hærri vexti en 2%. Þessu var ég hjartanlega sammála og minnist ég þess að einn maður annar - að minnsta kosti - tók undir þessi sjónarmið. Það var samþingmaður minn Pétur H. Blöndal, sem þá stýrði nýrri fjármálastofnun, Kaupþingi.
Tvennt þarf að gerast á íslenskum fjármálamarkaði.
1) Að mínum dómi þarf að afnema vísitölubindingu lána. Enda þótt greiðslubyrði vísitölubundinna lána sé ekki eins þung framan af og óvísitölubundinna lána (því verðbólguþátturinn er tekinn að láni og færður yfir á höfðustólinn) þá verður lánið dýrara þegar upp er staðið. Í kreppu er vísitölubinding stórhættuleg, því á meðan allar efnahagsstærðir eru rýrðar, kaupmáttur launa, tekjustofnar ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja, verðgildi fasteigna - er fjármagnið varið. Þegar síðan ofan á verðbæturnar kemur drjúg vaxtaprósenta þýðir þetta flutning á verðmætum frá heimilum og atvinnurekstri til fjármálastofnana.
2) Þar til vísitölubinding verður afnumin ber að setja tveggja prósentaþak á vexti vísitölubundinna lána. Það væri eins skynsamlegt nú og það hefði verið fyrir þrjátíu árum þegar þáverandi seðlabankastjóri talaði fyrir því.