JÓLIN ERU TÍMI VELVILDARINNAR
23.12.2009
Ég sendi lesendum síðunnar bestu jólakveðjur. Megið þið öll njóta friðsældar á jólum. Yfir jólahátíðina slakar þjóðin á, borðar góðan mat, les bækur, gengur út í náttúruna, dormar, en framar öllu öðru, er samvistum við sína nánustu og treystir fjölskyldu- og vinabönd. Til eru þeir - og því miður alltof margir - sem eru einmana, fjárvana og óhamingjusamir. Jólin eiga að vera tími gleði en jafnframt íhugunar um margbreytileika tilverunnar og leiðir til að gera heiminn betri. Margir beina hugsun sinni í farveg trúarinnar - og þá ekki síst á jólum, aðrir hugsa eftir öðrum brautum. Öll eigum við að geta sameinast í einum samnefnara: Velvildinni.
Nokkrum sinnum hef ég vísað til Sigurjóns Friðjónssonar í ræðu og riti. Það gerði ég til dæmis hér á síðunni 18. desember 2002. Þá vék ég að kveri sem hann skrifaði og heitir Skriftamál einsetumanns. Þar er vikið að velvildinni: "Sigurjón var uppi 1867-1950 og bjó að Litlulaugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var heimspekilega þenkjandi, greinilega trúhneigður en afskaplega lítið gefinn fyrir hina veraldlegu umgjörð trúarinnar. Sigurjón var því ekki kirkjurækinn maður nema síður væri. Sigurjón sat á þingi 1918 til 1922 og lét að sér kveða í félagsmálum auk þess sem hann var þekktur fyrir skáldskap sinn. Skriftamál einsetumannsins er í uppáhaldi hjá mér og frábær finnst mér eftirfarandi texti sem fjallar um velvildina og hverju hún fær áorkað ef að baki henni býr þolinmæði og staðfesta: " Sólin vinnur ekki á ísunum, þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum, að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er......."
Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/velvildargeislar-gedraektar