JÓN ÁSGEIR SIGURÐSSON FALLINN FRÁ
Góður félagi og vinur Jón Ásgeir Sigurðsson er fallinn frá eftir skammvinn enn erfið veikindi. Eftirfarandi eru minningaroð sem ég skrifai um hann og birtust í Morgunblaðinu:
Við fráfall Jóns Ásgeirs Sigurðssonar varð einni sameiginlegri vinkonu okkar að orði að þar hyrfi af vettvangi þjóðmálanna kröftugur maður. "Hann stóð með sínu fólki og með sinni stofnun." Stofnunin sem hér var vísað til var Ríkisútvarpið og fólkið var starfsfólk þar á bæ og reyndar gott betur. Því þegar Ríkisútvarpið var annars vegar var fólkið hans Jóns Ásgeirs þjóðin öll. Ríkisútvarpið átti nefnilega í hans huga að tilheyra þjóðinni allri og það átti að vera sannkallað almannaútvarp, þjóna almenningi, vera fræðandi og upplýsandi, kjölfesta í menningarlegu tilliti.
Ekki man ég eftir neinum manni sem á undanförnum tveimur áratugum eða svo hefur verið eins ötull og Jón Ásgeir Sigurðsson að efna til umræðu í þjóðfélaginu um hlutverk fjölmiðla og þá einkum og sér í lagi Ríkisútvarpsins. Greinar voru skrifaðar, efnt til funda og málþinga, skýrslur útgefnar. Alltaf var hinn mikli eldhugi tilbúinn að varpa ljósi reynslu sinnar og vitneskju á þetta mikilvæga málefni. Sjálfur á ég í fórum mínum fjöldann allan af skýrslum og ritgerðum sem ég hafði fengið frá Jóni Ásgeiri og oft áttum við samræður um þessi efni sem ég hafði mikið gagn af. Um árabil gegndi Jón Ásgeir formennsku í Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins sem voru eins konar regnhlífarsamtök stéttarfélaganna í stofnuninni. Þau létu sig umræðu af því tagi sem hér er vísað til mjög til sín taka í formannstíð Jóns. Ég átti kost á því nokkrum sinnum að taka þátt í ráðstefnum sem Jón Ásgeir skipulagði með innlendum og erlendum gestum. Meðal annars kom ég þar að sem formaður BSRB. Þessar ráðstefnur áttu það sameiginlegt að vera í senn gagnrýnar og uppörvandi og voru þannig ágætur spegill á skipuleggjandann.
Jón Ásgeir beitti sér mjög í umræðunni um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og skrifaði talsvert um það efni. Taldi hann hið mesta óráð að gera RÚV að hlutafélagi og vorum við samherjar í þeirri baráttu. Ég kunni einnig vel að meta pólitískar og félagslegar áherslur Jóns Ásgeirs. Hann var herstöðvaandstæðingur og baráttumaður fyrir samfélagslegum gildum og jöfnuði. Tók hann virkan þátt í félagslegri baráttu allt frá námsárum sínum þegar hann var í forystu, SÍNE, samtökum íslenskra námsmanna sem lögðu stund á nám á erlendri grundu.
"Við þurfum á mönnum á borð við Jón Ásgeir að halda. Það er slæmt þegar fækkar mönnum af hans gerð," sagði sameiginleg vinkona okkar sem áður er vitnað til. "Hann var klettur sem alltaf var til staðar".
Hinn harði maður var líka mildur og viðkvæmur hygg ég. Vinum og félögum er hann mikill missir. Hans nánustu eiga nú um sárt að binda. Ég votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.