JÓN BJARNASON SPYR AÐ GEFNU TILEFNI: HVENÆR LÆRA MENN AF REYNSLUNNI?
Hér á vefsíðu mína ritaði Jón Bjarnason, alþingismaður og samflokksmaður minn, mjög umhugsunarverða grein í gær undir yfirskriftinni, Það átti aldrei að einkavæða Landsímann. Í grein sinni segir Jón Bjarnason m.a. : " Nú í gær varð bilun í ljósleiðara á Norðurlandi með þeim afleiðingum að öryggiskerfi sjófarenda fyrir öllum Vestfjörðum og Norðurlandi féll út svo og útsendingar útvarps og sjónvarps á mörgum stöðum sem einnig eru hluti öryggiskerfis landsmanna. Bilunin stóð í 15 klukkustundir."
Og Jón Bjarnason rifjar upp: "Í kjölfar sölu Símans fylgdu uppsagnir á starfsfólki og lokun starfsstöðva víða um land, hækkað verð og skert þjónusta. Þetta gerðist á Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki Siglufirði já hringinn í kringum landið hefur þjónustustöðvum verið lokað og íbúarnir bera skarðan hlut.... Nú láta menn eins og uppákomur í dag komi þeim á óvart. Einkavæðingaræði ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á almannaþjónustu á eftir að verða okkur dýrkeypt. Ekki aðeins Síminn heldur einnig Rafmagnið sem fer þar sömu leið, svo dæmi sé tekið.
Að selja öryggismál landsmanna undir lögmál arðsemiskrafna og græðgi fjármagnsins hvort sem er á sjó, á landi eða í lofti, ætti að vera óheimilt og slíkt bundið í stjórnarskrá. Nú þarf að fara strax ofan í öll fjarskipta og öryggismál og leita allra leiða til að ná grunnfjarskiptabúnaði landsins aftur í þjóðareign. Og stöðva verður einkavæðingu öryggismála og grunnþátta almannaþjónustu í fjarskiptum. Það var lán í óláni að sú bilun sem varð í grunnneti Símans í dag bar upp á einn mesta góðviðrisdag ársins..."
Jón Bjarnason hafði forgöngu um það á sínum tíma að þingflokkur VG bar fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort einkavæða ætti Landsímann. Sú tillaga fékk ekki stuðning annarra flokka á Alþingi en Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Það er ekki að undra að Jón Bjarnason velti því fyrir sér hvort sá tími muni renna upp að einkavæðingarflokkarnir sjái að sér og læri af reynslunni.
Grein Jóns Bjarnasonar er HÉR.