Fara í efni

JÓN, GYLFI OG SPARISJÓÐIRNIR


Í dag fór fram umræða á Alþingi um sparisjóðakerfið. Tilefnið var fall Sprons. Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra mæltist vel að venju. Hann harmaði þennan atburð og þá sérstaklega hve mjög þetta kom starfsfólki í opna skjöldu. Gylfi sagði það sem stjórnendur Spron hefðu átt að segja um það efni og hafa eflaust gert. Samúð okkar allra hlýtur að vera hjá því fólki sem nú hefur misst vinnuna.
En Gylfi sagði fleira. Hann sagði að misráðið hefði verið að hlutafélagavæða sparisjóðina. Stofnfjárkerfið hefði verið misnotað og hann benti á hve slæmt það hafi verið að nota sparisjóðina sem fjárfestingabanka. Allir virtust sammála viðskiptaráðherranum. Líka þeir sem gerðu lítið úr málflutningi Jóns Bjarnasonar alþingismanns þegar hann á sínum tíma hélt nákvæmlega þessum sömu sjónarmiðum fram og flutti þingmál í þessa veru. Þeir sem sögðu Jón Bjarnason og hans sjónarmið heyra fortíðinni til mæta nú í fréttaviðtölin til að taka undir með viðskiptaráðherranum. Allt sem áður var sagt gleymt og grafið. Hvernig væri að fjölmiðlarnir rifjuðu upp málflutning Jóns Bjarnasonar og þingmálin sem hann flutti um sparisjóðina? Á sumum þeirra var ég meðreiðarsveinn. Svo mætti rifja upp baráttu Skagfirðinga gegn hlutafélagavæðingu og yfirgangi - þeirra sömu og leituðu til Fjármálaeftirlitsins um hjálp en var vísað frá og sagt að ef þeir á annað borð vildu upp á dekk þá gætu þeir leitað til dómstóla! Nú sjá allir að það voru þeir sem höfðu rétt fyrir sér. Þeir syntu á móti straumnum. Höfðu til þess þrek og þor. Nú hljótum við öll að taka ofan fyrir hinum skagfirsku baráttumönnum.
Sjá t.d. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/slagurinn-um-sparisjodina