Jón Steinar og sálfræðingarnir
Í Morgunblaðinu í dag beinir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður spjótum sínum að Páli Vilhjálmssyni blaðamanni. Hann hafði staðhæft að sparisjóðafrumvarpið svokallaða hefði "komið í veg fyrir að stofnfjáreigendur gætu höndlað með eigin fé sparisjóðanna sem sitt eigið...". Um þetta segir Jón Steinar: "Þessi staðhæfing er röng. Í þeim fyrirætlunum sem Alþingi stöðvaði fólst ekkert af þessu tagi. Eigið fé Spron var alveg ósnortið í þessum viðskiptasamningi. Það átti allt saman að leggjast í sjóð, sem ráðstafað yrði til menningar- og líknarmála. Hins vegar áttu stofnfjáreigendur að fá meira en nafnverð fyrir stofnfé sitt. Kaupandinn átti að greiða þeim það úr sínum eigin vasa. Það er verðugt verkefni fyrir sálfræðinga að finna það út, hvað veldur óbeit Páls blaðamanns og raunar alþingismanna á því að menn fái gott verð fyrir eigur sínar."
Við getum alveg sparað okkur aðkomu sálfræðinga að þessu máli. Í mínum huga er þetta mál nokkuð einfalt en þó nægilega flókið til að valda misskilningi þessa ágæta hæstaréttarlögmanns. Eftir þessa lagasetningu sem áður, er stofnfjáreigendum í SPRON heimilt að breyta sparisjóðum í hlutafélög og eftir sem áður er þeim heimilt að selja hluti sína á því verði sem þeir geta fengið fyrir hlutabréfin. Þeim væri þess vegna í lófa lagið að semja við bankann eins og til stóð. Það eina sem hefur breyst hins vegar er að þeim er ekki lengur gert kleift að selja hluti sína með "eigið fé" sparisjóðsins sem gulrót fyrir væntanlega kaupendur. Þegar þessir fjármunir eru ekki lengur á þeirra valdi að ráðstafa gufar áhugi KB banka upp. Þess vegna er það rétt hjá Páli Vilhjálmssyni en ekki rangt að "eigið fé" SPRON hafi í reynd verið verslunarvara í höndum stofnfjáreigenda. Þetta var líka ástæðan fyrir því að ef áform SPRON hefðu náð fram að ganga hefði hið sama að öllum líkindum orðið þróunin í öðrum lífeyrissjóðum landsins og sú keðja því hrunið.
Hér ætla ég að leyfa mér að vísa í klásúlu í greinarkorni hér á síðunni frá 7. feb. þar sem tekið er dæmi úr raunveruleikanum: "Tiltekinn sparisjóður hefur eiginfé að upphæð 4200 milljónir. Stofnfjáreigendur sem stýra þessum eignum eiga hins vegar aðeins brotabrot af þessari upphæð eða 35 milljónir. Gefum okkur nú að þeim væri boðið margfalt stofnféð, væri ekki líklegt að drjúgur hópur gæfi sig? Í ljósi reynslunnar, svona síðustu tvö til þrjú þúsund árin, þá tel ég það líklegt. Við skulum ekki gleyma því að sparisjóðirnir hafa 25% markaðshlutdeild hér á landi. Þeir eru ekki aðeins eftirsóknarverður fjárfestingarkostur. Þeir gegna veigamiklu hlutverki í efnahagslífinu og tryggja margbreytileika sem flestum þætti eftirsjá að. Sumir líta meira að segja svo á að það varði almannahag að stuðla að þessum margbreytileika. Út á það gekk þessi lagabreyting og tel ég hana fullkomlega verjandi."
Sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvers-vegna-sparisjodalogin-voru-naudsynleg