Fara í efni

JÓNAS KRISTJÁNSSON LEIÐRÉTTUR

Jónas - 2
Jónas - 2

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, skrifar pistla á heimasíðu um menn og málefni. Mér virðist hann þar leggja meira upp úr stílbrögðum en sannleiksgildi orða sinna. Það er hans val. En þegar Jónas fer rangt með er það jafnframt val annarra að leiðrétta rangfræslur hans.

Ég hef fram til þessa tekið þann kost að gera það ekki þótt stundum hafi verið tilefni til, einfaldlega vegna þess að stílistum á að leyfast ákveðið skáldaleyfi. Mér finnst það í góðu lagi.

En jafnvel skáldskap eru takmörk sett. Þegar því er haldið fram að ég hafi stýrt vinnu með stjórnarskrárdrög á síðasta kjörtímabili sem formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og í því hlutverki orðið valdur að því að þæfa málið og eyðileggja vinnuna við "stjórnarskrá fólksins", þá bregð ég út af minni meginreglu og leiðrétti skáldhöfundinn: Ég var ekki formaður í þessari nefnd á síðasta kjörtímabili og kom ekkert að vinnu Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnar þá.
Ég studdi hins vegar undir lok kjörtímabilsins tillögu formanna stjórnarandstöðuflokkanna, Samfylkingar, VG og Bjartrar framtíðar um að breyting yrði gerð á lögum þannig að hraða mætti afgreiðslu á þeim þáttum stjórnarskrárdraganna sem vitað var, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, að samþykki var fyrir í þjóðfélaginu að breyta, nefnilega eignarhaldi á auðlindum og beinu lýðræði.
Hvort tveggja hefur mér lengi verið mikið hjartans mál.  Fyrir mitt leyti lét ég á þessum tíma koma fram að ég teldi að Stjórnlagaráð hefði verið heldur íhaldssamt í sinni nálgun varðandi þessa þætti. Ég er vonandi nægilega mikið "fólk" sjálfur til að hafa leyfi til að segja þetta.
Í kjölfarið hef ég harmað að ekki skuli ráðist í breytingar á framangreindum ákvæðum nú fyrir kosningar en "allt eða ekkert" rétttrúnaður virðist ætla að koma í veg fyrir það.

http://www.jonas.is/ogmundist-ekki/