Fara í efni

JUDITH OG VLADIMIR BJÓÐA Á TÓNLEIKA

Ætli netið hafi nokkurn tímann verið eins fjölbreytt og listrænt og þessa veirufaraldursdaga? Listamenn koma fram, lesa upp, tónlistarfólk syngur og efnir til tónleika. Ég var á slíkum tónleikum í dag, í þriðja skiptið á stuttum tíma, hjá Judith Ingólfsson og Valdimir Stoupel.

Judith, sem ólst upp í Kópavoginum, varð fiðluséní nánast á barnsaldri og hefur síðan unnið til tónlistarverðlauna víða um lönd. Júdith hefur kennt tónlist við virtustu tónlistarstofnanir Evrópu en er nú prófessor við Johns Hopkins háskólann í Baltimore í Bandaríkjunum.
Svipaða sögu er að segja af eiginmanni hennar, Vladimir Stoupel. Á unga aldri þótti hann undrabarn í tónlist, varð snemma afburða tónlistarmaður og nýtur nú viðurkenningar vestan hafs og austan sem konsertpíanisti í fremstu röð. Íslendingum er Vladimir Stoupel að góðu kunnur fyrir tónleika hér á landi á undanförnum árum.

Þótt þau eigi sinn feril hvort um sig sem einleikarar hafa þau einnig myndað tvíeyki og mikið komið fram saman, meðal annars hér á landi og gefið út fjölda diska.

Þau buðu mér á konsert hjá sér í dag - um gervihnött að sjálfsögðu - og nú býð ég þér að hlýða á þau Judith og Vladimir leika sónötu eftir Shostakovictch fyrir piano og víólu:

https://youtu.be/dBBUovRaCNI

Ég vek athygli á að þessa dagana fara tónleikar þeirra reglulega fram um gervihnött.
Judit.JPG