Fara í efni

KAFKA Á ALÞINGI


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15/16.03.25.

Ekki er svo að skilja að Franz Kafka hafi tekið sæti á Alþingi, enda búinn að hvíla í gröf sinni suður í Prag í 101 ár. En bækur þessa merka rithöfundar lifa enn góðu lífi. Ekki síst Réttarhöldin, Der Prozess, sem kom út að Kafka látnum árið 1925. Margir þekkja til þeirrar bókar jafnvel þótt þeir hafi ekki lesið í henni stafkrók. Það er vegna þess að með henni fékk Kafka því áorkað að koma ákveðinni hugsun um „kerfið” inn í vitund eftirkomandi kynslóða.

Lesandi Réttarhaldanna fylgir söguhetjunni Jósef K. um refilstigu réttarkerfis án þess að fá nokkru sinni botn í það hver meintur glæpur hans hafi verið: „Þarna sérðu … hann viðurkennir að hann þekki ekki lögin en fullyrðir jafnframt að hann sé saklaus.”

Nafn Kafka er orðið eins konar samheiti fyrir kerfi sem talar til okkar án þess að við fáum nokkurn botn í hvað snýr upp og hvað niður.
Þetta kom upp í hugann þegar ég las á nýjan leik frumvarp um svokallaða bókun 35 ásamt greinargeð. Frumvarpið kom fyrst fram árið 2023 en fékk ekki afgreiðslu og er hermt að mörgum þingmönnum hafi gengið treglega að skilja það. Aðrir sem vildu fá frumvarpið samþykkt þóttust skilja það en töldu farsælast að hafa málið hæfilega þokukennt. Og nákvæmlega þarna er Kafka.

Þessu lagafrumvarpi um bókun 35 er ætlað að herða á EES-rétti í málum sem koma fyrir íslenska dómstóla. Frumvarpið er ein grein, svohljóðandi í útgáfunni frá 2023:
„Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“
Í nýframlögðu frumvarpi er greinin óbreytt að öðru leyti en því að bætt hefur verið við sex nýjum orðum: „ ...ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.“ Í greinargerð segir að þetta hafi verið gert til að gera „lagaákvæðið skýrara.“ Það er nú það. En nú byrjar líka ballið.

Samkvæmt orðanna hljóðan eiga lög og stjórnvaldsákvæði EES, „réttilega“ innleidd, jafnan að hafa forgang umfram innlenda lagasmíð sem kann að stangast á við EES réttinn „nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað.“ En spyr þá sá sem ekki veit: Má Alþingi mæla fyrir um annað? Jú, segir í greinargerð frumvarpsins, það er að sjálfsögðu leyfilegt en engu að síður rangt og skapar að öllum líkindum skaðabótarétt á hendur íslenska ríkinu enda gengi slíkt gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Og varla kunni það góðri lukku að stýra: „Sem lítið og opið samfélag hefur Ísland ríka hagsmuni af því að staðið sé við þjóðréttarlegar skuldbindingar.“ Leyfist mér að spyrja - þótt það sé aukaatriði í þessu samhengi - hvort það hljóti ekki að teljast rétt fyrir öll ríki, stór og smá, að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar?

Út alla greinargerðina er hamrað á því að Íslendingum sé fullkomlega frjálst að setja öll þau lög sem þeir vilji, þannig að því fari fjarri að um nokkurt framsal á fullveldisvaldi sé að ræða, en við þyrftum að sjálfsögðu að hafa hugfast að feilspor af okkar hálfu muni leiða til kæru og skaðabóta!


Eftir nokkra yfirlegu yfir texta frumvarpsins og greinargerð þess, rennur það upp fyrir lesanda að markmiðið er það eitt að svipta íslenska dómara réttinum til að meta það sem kann að vera á gráu svæði; þar sem skarast íslensk lög og dómahefð og svo EES-réttur.

Ég nefni til dæmis um þetta þegar álit lagaprófessora við Háskóla Íslands og háskólans í Árósum var á þá leið að heimilt væri fyrir Íslendinga að meina EES þegnum að kaupa land á Íslandi, hefðu þeir ekki heimilisfesti í landinu nema að kaupin tengdust sannanlega áformum um atvinnurekstur samkvæmt fjórfrelsi EES.

Augljóst er að aðstandendur þessa frumvarps telja að túlkunarréttur á slíkum álitamálum sé hjá EFTA-dómstólnum og skuli leitað til hans sé uppi vafi um skörun EES-regluverks og innlendra laga enda eins gott: „ESA hefur kynnt að fyrir liggi að verði ekki bætt úr innleiðingu á bókun 35 muni stofnunin taka næsta skref og höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum með kröfu um staðfestingu dómstólsins á því að Ísland hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum.“

Ef hins vegar íslensk stjórnvöld geri það sem þeim er uppálagt eins og til stendur verði allt í himnalagi, eða eins og það er orðað í greinargerðinni : „Með frumvarpinu er frumkvæði og forræði stjórnvalda á málinu tryggt“!

Eins og Jósef K. reyndi að skilja lögin, hljótum við að vilja fá botn í hvað við er átt þegar fullyrt er að með lagaákvæðinu um bókun 35 felist engin skerðing á íslenskum rétti en í sama orðinu sagt að „trúnaðarskylda“ EES-samningsins geri „þær kröfur“ að aðildarríkin „geri allt sem í þeirra valdi stendur“ til að tryggja samningnum forgang „og megi ekki gera neitt“ sem stríði gegn því.

Sem sagt: Ekkert fullveldisafsal, en hvergi megi þó hefta forgang Brussel; EFTA-dómstóllinn skilgreini þann forgang en Alþingi megi engu að síður „mæla fyrir um annað“; sé það EFTA- dómstólnum hins vegar ekki að skapi verði Ísland að sæta lögsókn og sektum.
Eru ekki allir með á nótunum?
Ertu þarna Jósef K.?

--------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/