Fara í efni

KAPÍTALISMINN SKORAÐUR Á HÓLM

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.12.24.

Sennilega hefur Morgunblaðið ekki oft flutt áskorun af þessu tagi. Finnist einhverjum hún ekki vera við hæfi þá hefur blaðið sér tvennt til málsbóta.

Í fyrsta lagi er þetta sett fram í pistli sem hefur yfirskriftina „úr ólíkum áttum”. Og þótt þessi pistlahöfundur hafi horn í síðu kapítalismans hafa höfundar úr „hinni áttinni“ gjarnan talið þennan isma vera allra meina bót.

Í öðru lagi er á það að líta - og getur það varla talist léttvægt - að hólmgönguvopnið ætti að vera óumdeilanlegt. Það er nefnilega hvorki meira né minna en sjálft lýðræðið.

Kapítalisminn er með öðrum orðum skoraður á hólm með lýðræðið að vopni.

Nú er það svo að kapítalisminn býr við varnir sem vissulega eru af lýðræðislegum toga. Á fjögurra ára fresti er efnt til kosninga þar sem kosnir eru fulltrúar á þing sem þar með eru sagðir hafa öðlast umboð almennings til að fara með vald í stóru sem smáu fram að þeim tíma sem almenningi gefst næst tækifæri til að kjósa.

Lýðræðisþjóðfélag snýst vissulega um annað og meira en þetta, þá helst að sjálfsögðu málfrelsið og ritfrelsið, í einu orði tjáningarfrelsið. Sennilega lærum við ekki að meta slíkt frelsi til fulls fyrr en það er tekið frá okkur eða að því er þrengt.

Því meira sem lýðfrelsið er, þeim mun betra, enda á hver maður að vera frjáls að því marki að hann vinni ekki öðrum mein eða skaði samfélag sitt. Mörkin á milli einstaklingsfrelsis og samfélagsábyrgðar eru ekki alltaf augljós og er það verkefni lýðræðislegrar umræðu að finna þau. Í þeirri leit kemur umburðarlyndið til sögunnar. Þannig er frelsi til tjáningar lítils virði ef það snýst ekki um frelsið til að segja það sem aðrir eru ósammála, þykir jafnvel óviðurkvæmilegt og hneykslanlegt, er með öðrum orðum þvert á meginstrauminn í hugsanagangi samfélagsins. Þjóðfélag sem ekki er umburðarlynt og leyfir ekki gagnrýni er þegar allt kemur til alls andlýðræðislegt.

Nú horfum við upp á það eina ferðina enn að nýbakaðir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi eru að koma sér saman um málamiðlanir við landstjórnina. Eins og stundum áður heyrum við þá segja, ábúðarmiklir á svip, að gera þurfi fleira en gott þykir. Hólmgönguáskorun mín gengur út á að frelsa þessa kjörnu fulltrúa undan slíku oki og þar með sviknum loforðum. Nú verði einfaldlega kosið beint um það sem helst brennur á þjóðinni og hefur jafnframt oftast verið svikið. Hér eru sex tillögur:

  • Vilt þú markaðsvætt heilbrigðiskerfi?
  • Vilt þú a) fiskveiðikerfi þar sem heimilt er að framselja og leigja kvóta eins og nú er; b) að undið verði ofan af þessu kerfi?
  • Vilt þú a) halda áfram að markaðsvæða raforkukerfið; b) að undið verði ofan af markaðsvæðingunni?
  • Vilt þú að auðlindir landsins á borð við vatn, heitt og kalt, gangi kaupum og sölum á fjárfestingarmarkaði?
  • Vilt þú að reistar verði alvöru skorður við eignasöfnun fjárfesta á landi?
  • Vilt þú sjókvíaeldi með eignarhaldi eða ígildi eignarhalds á fjörðum landsins?

Þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál og reyndar mörg önnur sem þjóðin þekkir í þaula, yrði einföld í framkvæmd.
En hvort skyldi verða ofan á, hagsmunir fjármagnsins eða almannahagur? Við höfum vísbendingar um það.
Hinn napri sannleikur er sá að málamiðlanir á Alþingi eru að jafnaði á kostnað almennings og í þágu fjármagnsins – hve langt megi ganga í að setja því skorður. Þegar hins vegar spurt er beint eins og gerðist nýverið í Þorlákshöfn, þá kemur í ljós að upp til hópa stendur fólk með fjöllum sem ætlunin er að mylja niður til útflutnings. Þegar almenningur er til svara stendur hann ekki með vindmyllunni heldur með náttúrunni og með sjálfum sér.

En við skulum ekkert gefa okkur fyrir fram. Minnumst þess að allir eiga að hafa málfrelsi, líka til þess að tala gegn almannavilja. Eigendur Brims og Samherja gætu þannig nýtt málfrelsi sitt til þess að sannfæra kjósendur um að eignarhald og ráðstöfunarréttur á sjávarauðlindinni sé réttilega í þeirra veskisvasa, eigendur Klíníkurinnar gætu efnt til opinna funda um réttmæti þess að fjárfestar taki sér arð úr einkarekinni heilbrigðisþjónustu sem skattgreiðendur fjármagna.

Mig grunar þó að baráttan gæti orðið á brattann að sækja fyrir fjárfestana. Ekkert síður en hún er nú fyrir það fólk sem stöðugt reynir að ná eyrum kjörinna fulltrúa sinna að afloknum þingkosningum um að huga að almannahag í stað þess að þjónusta hagsmunagæslumenn kapítalismans – „miðla við þá málum“ og gera síðan „ fleira en gott þykir“.

En allt kæmi þetta í ljós að hólmgöngunni lokinni.

------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.