KASTLJÓS Á LOF SKILIÐ!
16.09.2015
Kastljós Sjónvarpsins fer vel af stað og eiga aðstandendur þessa mikilvæga fréttaskýringarþáttar Ríkisútvarpsins hrós og lof skilið fyrir umfjöllun sína um málefni flóttamanna.
Þátturinn á mánudag var upplýsandi, lifandi og áhrifaríkur. Svona eiga fréttaskýringarþættir að vera: Fréttamaður á vettvangi, upplýsingar reiddar fram og brotnar til mergjar og síðast en ekki síst, þau sem málefnið brennur á til staðar.
Hið síðastnefnda var áhrifaríkast, viðtölin við fólk sem hafði þolað harðræði og þjáningar og var hingað komið í okkar faðm. Nú er að sjá til þess að sá faðmur verði opinn og hlýr.