KLÁMIÐNAÐURINN: ÓGN VIÐ ALMANNAHEILL
Dr. Gail Dines, prófessor frá Boston, er komin til Íslands að hræra upp í okkur út af klámi og þeim áhrifum sem það hefur á líf okkar og menningu - sérstaklega yngstu kynslóðarinnar. Þetta snýr að samfélaginu sem viðtakanda eða neytanda. Hin hliðin snýr svo að því fólki sem notað er af hálfu klámiðnaðarains í framleiðsluna, brýtur það niður og eyðileggur.
Öllu þessu hefur Gail Dines haldið að okkur þá daga sem hún hefur dvalið á Íslandi í boði þriggja ráðuneyta, Velferðarráðuneytisins og Menntamálaráðuneytisins auk Innanríkisráðuneytisins.
Heimsókn Gail Dines er liður í umræðuferli og vitundarvakningu sem hafin var fyrir tveimur árum í Dóms- og mannréttindaráðuneytinu, forvera Innanríkisráðuneytisins, um kynferðisofbeldi. Sú umræða hefur þroskast vel og hefur Innanríkisráðuneytið haft samstarf við ýmsa aðila til að efla þessa umræðu og faglega þekkingu um kynferðisbrot að sama skapi, þar á meðal við lagadeild Háskóla íslands.
Gail Dines er ekki aðeins fræðikona og rannsakandi heldur einnig einörð baráttukona fyrir mannréttindum og hefur gert meira en flestir til að svipta hulunni af ofbeldisfullum klámheiminum.
Orðalagið hér að framan um að Gail Dines sé hingað boðið til að „hræra upp í okkur" er ekki út í loftið. Hún hefur sýnt fram á djúpstæð áhrif kláms og ofbeldis á samfélagið allt en ekki síst þær kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi. Þess vegna komi klámiðnaðurinn til með að hafa meiri áhrif á (ó)menningu okkar en værukært samfélag gerir sé grein fyrir.
Markmiðið með heimsókn Gail Dines er að örva til gagnrýninnar umræðu þar sem sjónum verði beint að vandanum og í kjölfarið þeim úrræðum sem grípa má til.
Útúrfullt var í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem Gail Dines flutti erindi ásamt öðrum. Í Kastljósi gærkvöldsins kom hún einnig fram og sagði meðal annars að vandinn væri af slíkri stærðargráðu að líta bæri á hann sem verulega ógn við almannaheill.
Hér má sjá Kastljósviðtalið þar sem ávarp mitt er að finna: http://www.ruv.is/kastljos/throun-klams
http://www.ruv.is/sarpurinn/kastljos/15102012-0
Sjá frétt innanríkisráðuneytisns: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28269