KLÚBBURINN GEYSIR 20 ÁRA: AFMÆLISÁVARP
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir skrifar upplýsandi grein, sem birtist á vefritinu Kjarnanum í dag um Klúbbinn Geysi sem í dag fagnar tuttugu ára afmæli sínu.
Ég hef setið í stjórn Klúbbisns Geysis frá upphafi og flutti ég af þessu tilefni ávarp í afmælishófinu ásamt Styrmi Gunnarssyni sem einnig var með í upphafi og hefur auk þess alltaf verið nálægur þegar á hefur þurft að halda. Hér að neðan birti ávarp mitt en vísa jafnframt í fyrrnefnda grein Melkorku Mjallar:
Afmælishátíðin tókst afbragðsvel undir stjórn Stefáns Helga Stefánssonar sem talaði og söng svo vel að minnti á langafa hans, sem var enginn annar en sjálfur Stefán Íslandí. Ekki kot vísað á þeim bænum.
Ég mæli með lestri greinar Melkorku Mjallar um hið tvítuga afmælisbarn.
Hér er ávarp mitt:
Ég geri mér það stundum að leik þegar afmæli eru á dagskrá að fletta upp í afmælisdaga-bókum en slíkar bækur voru vinsælar á öldinni sem leið – og eru án efa til hjá mörgum.
Ein slík bók þykir mér sérstaklega skemmtileg en hún er þannig gerð að ljóðið sem fundið hefur verið fyrir sérhvern dag ársins er frá höfundi sem fæddur er á þeim degi.
Og nú lék mér forvitni á að vita hver ætti ljóð afmælisdags Klúbbsins Geysis, 6. september og þá að sjálfsögðu einnig hverjar væru ljóðlínurnar.
Sá er Jón frá Einarsstöum í Reykjadal í Þingeyjarsýslu Haraldsson fæddur hinn 6. september 1888. Það sem mér þótti merkilegt við þennan mann - því ég lét mér ekki nægja að skoða ljóðlínurnar sem valdar voru í afmælisdagbókina góðu, heldur las ég mér til um höfundinn bæði úr íslenskum æviágripum og minningargreinum sem skrifaðar voru að honum látnum árið 1958 – já, það sem mér þótti sláandi þegar ég las um þennan mæta mann var hve framfarasinnaður hann augljóslega hafði verið, stöðugt að leita leiða til að yrkja betur jörðina, nýta búsáhöldin sem best, jafnvel finna ný. Stöðugt að hugsa fram á við og upp á við, stöðugt að leita svara um hvernig við bætum lífskjörin og gerum lifið bærilegra.
Og þannig spyr hann einmitt í vísunni sem afmælisdagabókin mín hefur gert að ljóði afmælisdags Klúbbsins Geysis:
Höfundur spyr:
Hvað er það sem kyndir eldinn,
kveiknum elur á skærstan loga,
lætur hugann hæst sér voga,
hækkar dag og styttir kveldin?
Og nú spyr ég frumkvöðlana að stofnun Geysis, var það ekki þetta sem þið voruð að leita að, leiðum til að efla baráttuþrek og lífsvilja og í kjölfarið lífsgleði einstaklinga sem áttu við geðræna sjúkdóma að stríða eða erfileika svo mikla að þeir fengu ekki undir þeim risið einir og óstuddir. Að þeir þyrftu að finna sig í gjöfulu starfi sjálfum sér og öðrum til gagns og gleði og að það væri ætlunin að gera, skapa slíkan starfsvettvang. Og félaga í klúbbnum Geysi spyr ég hvort þetta hafi ekki tekist; hvort í starfi ykkar í Geysi þið hafið ekki einmitt fundið svarið sem Jón á Einrsstöðum leitaði að, hvað það væri sem kynti eldinn og héldi skærum loga í lífskveiknum,
“lætur hugann hæst sér voga,
hækkar dag og styttir kveldin.”
Það voru iðjuþjálfarnir Anna Valdimarsdóttir og Anna Guðrún Arnardóttir sem fóru þess á leit við mig að setjast í stjórn Klúbbsins Geysis í árdaga starfseminnar. Ég smitaðist af hugsjónaeldi þeirra og þeirri hugmyndafræði að finna bæri leiðir til að virkja fólk til sjálfshjálpar, ekki eitt á báti einagrað, heldur þvert móti með samhjálp en þó utan stofnana svo framarlega sem unnt væri.
Við Styrmir Gunnarssonm, ritstjóri Morgunblaðsins sem hann þá var, og ég, þáverandi formaður BSRB og alþingismaður í stjórnarandstöðu við Sjálfstæðuisflokkinn, sem Styrmir studdi (alla vega svo lengi sem kvótakerfið var ekki til umræðu), vorum gerðir út af örkinni til að tala máli Klúbbsins Geysis gagnvart sveitarfélögum hér á suðvestur-horninu.
Fannst ýmsum skondið að sjá þetta undarlega bandalag á biðstofum við skrifstofur bæjarstjóranna og veltu því án efa fyrir ser hvað þessir menn gætu átt svo mikið sameiginlegt að þeir legðu í leiðangur saman.
Það sem við áttum sameiginlegt við Styrmir Gunnarsson var áhugi á framgangi Klúbbsins Geysis. Þann áhuga hef ég enn enda veit ég að félagarnir í Klúbbnum hafa unnið mikið og merkilegt starf gagnvart sér sjálfum og samfélaginu öllu.
Það var ekki síst þess vegna sem ég tók því vel að segja hér nokkur orð vegna afmælisins. Þá fengi ég tækifæri til að þakka fyrir mig, því þegar allt kemur til alls þá er ég einn af félögunum í Klúbbnum Geysi sem hef lært margt gott af starfinu þar og þá ekki síst hvað það er sem gerir lífið þess virði að lifa því.
Og skilaboðin eru skýr, horfum ekki til þess sem hugsanlega gæti farið úrskeiðis eða hverjar líkur eu á því að við gætum misst spón úr aski okkar ef við gerðum þetta en ekki hitt.
Þvert á móti leggjum við rækt við að finna kjölfestu í lífinu, horfa til þess sem raunverulega veitir okkur lífsfyllingu, en það er hvorki græðgi né gróði, heldur vel unnið verk, unnið af heilindum og í þágu okkar allra eins og Klúbbfélagar í Geysi geta svo ríkulega státað af.
Er ég þá kominn í aðra afmælisdaga-bók þar sem eitt af mínum uppáhaldsskáldum á ljóðlínur fyrir daginn í dag, Klettafjallaskáldið Stefán G. Stephansson:
Ég ber ei um haustsins hag
hugarvíl og gróðalíkur.
Nóg að gera og glaðan dag
gefðu mér, þá er ég ríkur.
Til hamingju með okkar sameiginlega ríkidæmi og okkar glaða dag. Okkar afmælisdag.
Til hamingju með hann.
Til hamingju með afmælið.