Kom Halldór af fjöllum?
Birtist í Mbl
Allar götur frá því Ariel Sharon núverandi forsætisráðherra Ísraels fór fylktu liði upp á Musterishæðina að Al Aqsa-moskunni, helgasta stað íslams í Jerúsalem, í september árið 2000, augljóslega til þess að ögra og æsa til andófs, mátti heimsbyggðinni ljóst vera hvað vekti fyrir ísraelskum stjórnvöldum. Stefna þeirra var greinilega í samræmi við langtímastefnu Sharons og harðlínumanna að skapa aðstæður og tilefni til að láta sverfa til stáls gegn Palestínumönnum. Enda fór það svo að þegar til mótmæla kom af hálfu Palestínumanna var svarað með stórskotahríð úr herþyrlum og bryndrekum. Um langt skeið hefur Ísraelsstjórn látið viðgangast sívaxandi landnám á svæðum Palestínumanna og haukarnir vilja síðan færa enn betur út kvíarnar beinlínis með því að reka Palestínumenn á brott frá heimkynnum sínum. Það skal gert með því að gera þeim lífið gersamlega óbærilegt og þarna gafst tilefnið. Með ögrunaraðgerðum Sharons í september árið 2000 hófst atburðarás sem enn er ekki séð fyrir endann á.
Ariel Sharon er enginn nýgræðingur. Hann er sá maður sem bar ábyrgð á fjöldamorðunum í Sabra- og Shattila-flóttamannabúðunum í Beirút árið 1982. Þá var hann varnarmálaráðherra Ísraels og stýrði herliðinu sem vikum saman sat um Beirút, en í útjaðri þeirrar borgar voru þessar flóttamannabúðir Palestínumanna. Á meðan vopnaðar sveitir fóru myrðandi um búðirnar héldu ísraelskar hersveitir þeim í herkví og beindu auk þess ljóskösturum niður í búðirnar úr herþyrlum sem sveimuðu uppi yfir þeim svo morðingjarnir ættu hægara um vik að athafna sig. Ég mun ætíð minnast þessara hryllilegu mannvíga, en ég var á þessum tíma fréttamaður Ríkisútvarpsins og sérhæfði mig í erlendum fréttum og fjallaði því daglega um þessa atburði.
Nú hefur fréttamennskunni fleygt fram að því leyti að auk hinna hefðbundnu fréttamiðla eru komnir til sögunnar netmiðlar. Þar höfum við fengið viðstöðulaust fréttir frá sjónarvottum á hernumdu svæðunum. Við höfum fengið myndir af ungum mönnum og öldnum sem teknir hafa verið af lífi á kaldrifjaðan hátt, stundum afklæddir og síðan myrtir af yfirvegaðri og frumstæðri grimmd. Við höfum haft fréttir og frásagnir frá íslenskum sjónarvottum, frá starfsmönnum mannréttindasamtakanna Amnesty International og öðrum hjálparstofnunum af þvílíkum ofbeldisverkum að orð fá vart lýst. Sagt hefur verið frá aftökum, pyntingum, að fólki hafi verið meinað að fara með sjúka á sjúkrahús, ráðist hafi verið inn á heimili, hús jöfnuð við jörðu og skolpleiðslur teknar í sundur. Stundum hefur maður veigrað sér við því að opna tölvupóstinn með þessum frásögnum og myndum af voðaverkunum. Síðan kemur utanríkisráðherra okkar eins og af fjöllum. Hann segir að á fundum sínum með þeim Sharon forsætisráðherra og Peres utanríkisráðherra Ísraels hafi farið fram gagnlegar umræður þar sem hann hafi spurt þessa vini Íslendinga, sem hann nefndi svo, ýmissa „erfiðra“ spurninga. Hann sagði þó að heimsókn sín til svæða Palestínumanna, í kjölfar heimsóknarinnar í Stjórnarráð Ísraels, hafi valdið því að hann hefði að einhverju leyti spurt þessa ráðamenn á annan veg en hann gerði og talað öðru vísi við þá. Þetta var gott að heyra og vissulega virðingarvert af hálfu utanríkisráherra að viðurkenna þetta.
Augljóslega hafði ýmislegt komið Halldóri Ásgrímssyni á óvart í heimsókn hans á svæði Palestínumanna. Utanríkisráðherra tiltók sérstaklega skóla sem kostaðir hafa verið af fé Sameinuðu þjóðanna; hvers vegna var ráðist á þá? Utanríkisráðherra velti vöngum yfir þessu í fjölmiðlum við heimkomuna til Íslands.
En í framhaldinu mætti spyrja hver sé munurinn á skólum sem reistir hafa verið fyrir fé Sameinuðu þjóðanna og öðrum skólum; og hvar í ósköpunum hefur utanríkisráðherrann haldið sig, hefur hann virkilega ekki fylgst betur með þessum atburðum en svo að eyðilegging á skólabyggingum - einnig þeim sem byggðir voru af Sameinuðu þjóðunum - hafi komið honum á óvart? Gerir utanríkisráðherra sér ekki grein fyrir því að þeir menn sem hann kallaði sérstaka vini íslensku þjóðarinnar hafa gerst sekir um einhverja hrikalegustu stríðsglæpi síðari tíma?
Þá Ariel Sharon og Simon Peres þarf ekki að spyrja um hvað fyrir þeim vaki og hvernig þeir réttlæti glæpi sína. Þeim á að segja hver hugur Íslendinga er til voðaverkanna sem þeir eru ábyrgir fyrir. Og það á að segja það afdráttarlaust. Það á að skýra frá samþykktum Alþingis Íslendinga, sem kveða á um skýlaus réttindi Palestínumanna til að búa í sjálfstæðu ríki, réttindi sem Ísrael hefur alla tíð neitað að viðurkenna þvert ofan í samþykktir Sameinuðu þjóðanna og kröfur mannréttindasamtaka um heim allan.