Fara í efni

KOM NORÐMÖNNUM Í KOLL

Gro harlem - ESB rammi
Gro harlem - ESB rammi


Í nóvember árið 1992 sóttu Norðmenn um aðild að Evrópusambandinu. Sest var að samningaborði um forsendur samninga og kosið um þær tveimur árum síðar, haustið 1994. Samningurinn hafði verið samþykktur af hálfu ESB en norska þjóðin felldi hann þótt norska ríkisstjórnin hafi samþykkt hann.

Eftir á að hyggja þótti mörgum þetta hafa verið hið mesta óráð. Nær hefði verið að kynna norsku þjóðinni forsendur samninga og spyrja hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið á þeim grundvelli. Ekki svo að skilja að samningaviðræðurnar hefðu fært Norðmönnum annað en tímabundna fresti frá regluverki ESB.

En með annars konar nálgun - kosningu á fyrra stigi - hefði mátt forðast þann kulda sem Norðmenn fundu fyrir af hálfu ESB í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar. ESB þótti undarlegt að horfa upp á norsk stjórnvöld ganga í gegnum allt ferlið, alveg til enda, í gegnum öll formlegheitin frá sinni hlið einnig, aðeins til að sjá samninginn felldan.  Í Noregi er það viðtekin söguskoðun að Norðmenn hafi þurft að gjalda þess í samningum við ESB um nokkurt árabil hvernig að þessu var staðið. Ekki hef ég þekkingu til að fullyrða um að svo hafi verið þótt ekki þyki mér þetta ótrúlegt.
Í rauninni finnst mér ófært að ríkisstjórn skrifi undir endanlegan samning og gangi frá honum en segi um leið að ekki komi til greina að samþykkja hann! Ég ítreka hins vegar að viðræðum verði haldið til streitu  eins og við samþykktum á sínum tíma en innan tímasettra marka.

Hvað segir ESB við þessu? Ef gagnkvæm virðing ríkir verður þessu vel tekið og af skilningi. Hinu skulum við ekki gleyma að það eru ekki bara íslenskir ESB-sinnar sem vilja komast í Evrópusambandið. Þar innandyra er ríkjandi viðhorf að gott sé að fá Ísland inn fyrir þröskuldinn því það þjóni hagsmunum Evrópusambandsins. Þetta kom berlega í ljós þegar við fengum í hendur álit utanríkismálanefnmdar ESB þar sem sérstaklega var á það bent, svo dæmi sé tekið, að það gagnaðist vel norðurslóðapólitík sambandsins að hafa Ísland innanborðs! Þannig að þau sem jafnan fá í hnén þegar andað er áESB geta huggað sig við að þar innandyra eru aðilar sem vilja öllu til kosta að fá Ísland með í púkkið.

Einhverja heyri ég segja að of seint sé í rassinn gripið nú að tímasetja lok viðræðna. Þetta er fráleitur málflutningur. Vissulega má færa rök fyrir því að heppilegra hefði verið að tímasetja lok viðræðana á fyrra stigi, ekki síst í ljósi framvindunnar, en fyrrir þessu hef ég hins vegar talað síðan haustið 2010. En hitt skulu menn hafa í huga að aldrei er of seint að endurmeta stöðuna ef við teljum það þjóna hagsmunum Íslands.

Fyrir þessum sjónarmiðum gerði ég m.a. grein í þætti Sigurjóns Egilssonar, Sprengisandi. Slóðin er hér: http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=9597