KOSNINGABARÁTTA AÐ KOMAST Á FULLAN DAMP !
Augljóst er að málflutningur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fellur í góðan jarðveg hjá þjóðinni. Skoðanakannanir gefa til kynna að VG hafi byr í seglin. Þar sem fulltrúar VG fara er þeim almennt mjög vel tekið. Ástæðurnar eru augljósar.
* Fólk er búið að fá nóg af misréttisstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem biritst í hyldjúpri gjá sem myndast hefur á milli efnafólks annars vegar og lágtekju- og millitekjuhópa hins vegar. Fólk veit að VG er það stjórnmálaafl sem er líklegast að takast á við misréttismeinið.
* Fólk er búið að fá nóg af undirgefni við herveldi heimsins, sérstaklega Bandaríkin. Fáir geta fyrirgefið að forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skyldu fallast á að Ísland var sett á lista hinna staðföstu stríðsþjóða – hörðustu stuðningsþjóða Bush og Blairs í Íraksinnrásinni. Fólk veit að VG er það stjórnmálalafl sem er líklegast að halda uppi fána sjálfstæðis og réttlætis og beita góðri dómgreind á alþjóðavettvangi.
* Fólk er búið að fá nóg af glórulausri stóriðjustefnu sem ryður annarri atvinnustarfsemi burt – veldur þenslu í atvinnulífinu, keyrir upp vextina og eyðileggur landið. Fólk veit að VG mun standa í fæturna gegn stóriðju og náttúruspjöllum og hefur sett fram markvissa atvinnustefnu sem byggir á fjölbreytni.
Átakanlegt er að fylgjast með tilburðum ráðherra ríkisstjórnarinnar sem nú boða hvern fréttamannafundinn á fætur öðrum til að kynna þjóðinni stefnu sína inn í framtíðina. Með þessu móti vilja ráðherrar drepa á dreif gagnrýni á það sem liðið er auk þess sem þeir nýta ráðuneytin sem kosningaskrifstofur á síðustu metrunum. Þannig heyrðum við frá okkar ágæta félagsmálaráðherra Magnúsi Stefánssyni að hann vilji herða mjög á jafnréttislöggjöfinni. Nú er staðreyndin sú að á borðum þingmanna fyrir þinglokin lá fullskapað frumvarp sem unnið hafði verið af þverpólitískri nefnd. Stjórnarandstaðan bauðst til að samþykkja frumvarpið en ríkisstjórnin heyktist á því. Frumvarpið var í góðu samræmi við áherslur VG um kvenfrelsi. Mér hefði fundist smekklegra af Magnúsi ráðherra að segja frá þessum áherslum annars staðar en úr dyragætt Stjórnarráðsins þaðan sem hann er á förum. Svo bregður nú við að Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sem árvisst hefur skorið niður vegaframkvæmdir frá áður kynntum loforðum, útdeilir nú án afláts loforðum, einnig úr dyrum Stjórnarráðsins. Ráðherra virðist brátt um að koma verkefnum í hendur verktakavina sinna áður en hann hverfur úr húsi!
Allt þetta og meira til mun koma til umfjöllunar og umræðu í kosningabaráttunni sem nú er að komast á fullan damp. Þar stendur í stafni okkar vinstri grænna á þéttbýlissvæðinu á suð-vesturhorninu, Suðvestur-kjördæmi (Kraganum) og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur,
Ekki kvíðum við þeim tíma sem nú fer í hönd undir verkstjórn Svandísar og félaga. Ég man aldrei til þess að hafa tekið þátt í kosningabaráttu þar sem eins margir leggja hönd á plóg og þar sem eins margir frambjóðendur láta til sín taka í greinarskrifum og á fundum og einmitt nú. Þetta er til marks um hve öflugri og breiðri sveit Vinstrihreyfingin grænt framboð teflir fram í þessum kosningum. Ég trúi því að fái VG stóraukinn styrk í þessum þingkosningum muni okkur takast að gera Ísland betra á næstu fjórum árum. Við sem erum í framboði fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð erum alla vega tilbúin að gera okkar besta til að svo geti orðið.