Fara í efni

KOSNINGASPRENGJA?

Óhætt er að fullyrða að efnaðri hluti þjóðarinnar hefur ekki áður kynnst annarri eins gósentíð og nú. Á sama tíma berjast aðrir í bökkum og ráða ekki við að koma þaki yfir höfuðið.

Í þessum óhjöfnuði birtist ranglæti sem almenningi svíður og skýrir eflaust að einhverju leyti slakt gengi þeirra flokka sem setið hafa í stjórn á undanförnum árum.

Morgunblaðið er aldrei hlutlaust fyrir kosningar og stendur jafnan með Sjálfstæðisflokknum. Þar er eflaust komin skýrinigin á stríðsfyrirsögn blaðsins á forsíðu í gær um að jöfnður fari nú vaxandi á Íslandi.

Hætt er við því að þeir sem láta sér fyrirsögnina ekki nægja og rýna í smærra letrið og síðan það allra minnsta verði fyrir vonbrigðum því í prósentum talið mælast meintar framfarir, flestar undir einu prósentustigi. Síðan kemur í ljós að fjármagnstekjur er þarna ekki að finna en það er einmitt þar sem ríkasta fólkið makar krókinn.

Úr smáa letrinu í frétt Morgunblaðsins: Þegar kemur að tekjum þeirra 5% framteljenda sem mestar tekjur höfðu á tímabilinu, og ekki er tekið tillit til fjármagnstekna, sést að árið 2023 aflaði sá hópur 17,0% heildartekna í landinu en árið áður var hlutfallið 17,6%. Minna munaði hjá efsta prósenti tekjuhæsta fólksins, það aflaði 5,2% allra tekna árið 2023 en árið 2022 var hlutfallið 5,3%. Staðan var óbreytt hjá efsta 0,1%, sem aflaði 1,0% heildartekna.

Fyrir mig nægir þetta um meinta sigra jafnaðarstefnunnar undir handarjaðri Sjálfstæðisflokksins.

-----

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögð