Fara í efni

Kostnaður við samkeppnina er milljarður

Nú eru menn farnir að óskapast yfir því að raforkuverð komi til með að hækka í Reykjavík vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga í raforkugeiranum. Þessu er nú slegið upp á baksíðu Morgunblaðsins. Þetta gæti gerst vegna jöfnunar raforkuverðs á landinu öllu. Minna hefur farið fyrir hinu, hvað hugsanleg markaðsvæðing raforkugeirans komi til með að kosta og minnist ég ekki baksíðufréttar í Morgunblaðinu um það efni. Hér á heimasíðunni hefur áður verið vakin athygli á þessu í lesendabréfi. Þar var fjallað um ráðstefnu um raforkumál þar sem þeir Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar og Guðmundur Þóroddsson forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, létu orð falla, sem var ekki hægt að skilja öðruvísi en sem varnaðarorð gegn markaðsvæðingu. Svo vitnað sé til þessarar frásagnar þá sagði þar m.a..: "Sagði Guðmundur að "bara kostnaður við samkeppnina sjálfa" næmi um einum milljarði króna og það væri ekki lítil hækkun þegar heildarrekstrarkostnaður raforkukerfisins næmi um 10 milljörðum. Líklegast væri að nýju lögin "leiði til hækkunar til almennings en lækkunar til fyrirtækja". Friðrik Sophusson sagði ljóst að það yrðu "stóru aðilarnir" sem myndu græða á þessum breytingum, stóriðjan og aðrir stórkaupendur, ekki heimilin. Fyrir þau myndu lögin leiða til hækkunar á raforkuverði að öðru óbreyttu. Eina von þeirra til að raforkuverð lækki liggi í því að "samkeppnin" muni einhvern tíma í fjarlægri framtíð bæta þar úr.
Samt á að halda áfram og nota sama slagorðaflauminn! " Sjá nánar:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ny-raforkulog-leida-til-verdhaekkunar-fyrir-almenning
Nú sem fyrri daginn stendur BSRB í fæturna og hvet ég alla til að fara inn á heimasíðu bandalagsins og kynna sér fyrirvara BSRB varðandi nýtt raforkufrumvarp  Sjá nánar á heimasíðu BSRB: http://www.bsrb.is/Default.asp?ID=0&type=one&news_id=593&menuid=