KRAFA UM 100% AÐLÖGUN!
15.11.2010
Eitthvað hefur verið deilt um það hvort Íslendingar eigi í samningaviðræðum við Evrópusambandið eða standi í aðlögun að ESB.
Angela Filota, talskona „stækkunarmála" hjá ESB var í dag spurð út í hugmyndir mínar um að flýta viðræðum við ESB, fá niðurstöðu í veigamestu álitamálin og bera hana undir þjóðaratkvæði.
Angela Fiola taldi öll tormerki á þessu, samningamenn myndu nú leggjast yfir „rýnivinnu" fram á mitt næsta ár. Þetta væri nauðsynlegt til að finna hvað við þyrftum að semja um! Þegar þessu væri lokið væri hægt að byrja eiginlegar samningaviðræður sem lyki varla fyrr en á árinu 2012.
Angela Fiola bætti síðan við í viðtali við EU Observer: „Almennar reglur okkar eru mjög skýrar og þær eru hinar sömu fyrir öll umsóknarríki... Hvert og eitt ríki gengur inn þegar það er 100 prósent tilbúið til þess." Engin þarf að velkjast í vafa um hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að ekkert ríki fær aðild nema það sé fullstaðlað. Var einhver að þræta fyrir að krafist væri aðlögunar?
Hér á landi hefur því verið mótmælt að aðlögun ætti sér stað.
Þegar ég nú viðra þá skoðun að flýta beri viðræðum við ESB og fá niðurstöður í stóru álitamálin þá er þessu mætt með fullkomnum þvergirðingshætti í Brussel eins og framangreind ummæli sýna. Ég ætla ekki að kalla þetta hroka vegna þess að þetta er eflaust ekki illa meint. Þetta eru einfaldlega viðbrögð steinrunnins kerfis. Steingervingum kerfismennskunnar finnst allt erfitt, óyfirstíganlegt, ógerlegt.
Steingervingarnir eru líka til hér á landi. Frá þeim heyrist lítið þegar skera á niður framlög til heilbrigðiskerfisins til að brúa fjárlagahallann. Það er væntanlega samkvæmt lögmálinu. En að leyfa sér að ræða breytt vinnuferli gagnvart ESB - það er út í hött!
Ríkisstjórnin hefur alla tíð sagt að hún ætli að forgangsraða í þágu velferðarkerfisins. Nú er að koma á daginn að niðurskurðurinn í velferðarkerfinu er farinn að valda alvarlegri þjónustuskerðingu og atvinnumissi. Hvað gerum við þá? Drögum við úr ferðum rýnihópa til Brussel eða rekum við sjúkraliða? Auðvitað drögum við úr rýnivinnu, nema menn vilji byggja hér upp síð-prússneskar skrifræðishefðir.
Það er hægt að flýta viðræðunum við Brussel án þess að hverfa frá því markmiði að fá niðurstöðu í þau grundvallaratriði sem margir vilja fá svör við áður en þeir gera upp hug sinn gagnvart ESB: a) yfirráð yfir sjávarauðlindinni, b) hvort við getum rekið landbúnað á eigin forsendum, c) hvort við getum rekið velferðarkerfið einsog við viljum, d) hvort við getum rekið sjálfstæða utanríkisstefnu eða hvort á öllum þessum sviðum við þurfum að beygja okkur undir lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Hvers vegna þarf að gera þá kröfu til okkar að áður en við fáum botn í þessi mál þurfum við að staðla okkur 100%, ganga í mið-evrópskum takti og taka mánuði í dagsverkin?
Flestir sem ég hef hitt í dag eru mér sammála um að reyna að flýta viðræðum. En þeir eru líka til sem finnst þetta fráleitur málflutningur og reyna að gera lítið úr honum, segja að á þetta geti Brussel aldrei fallist og jafnvel að ég hljóti að tala gegn betri vitund!
Það er umhugsunarvert að þetta hafa verið nánst eintóna viðhorf frá þeim sem falið hefur verið að standa hagsmunavaktina fyrir Ísland. Ekki þykir mér það traustvekjandi.
http://eyjan.is/2010/11/15/esb-hafnar-tveggja-manada-hugmynd-ogmundar-somu-reglur-fyrir-island-og-adra/
http://eyjan.is/2010/11/13/ogmundur-klara-esb-vidraedur-a-tveimur-manudum-ottast-glerperlur-og-eldvatn/
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/11/15/esb_hafnar_hugmyndum_ogmundar/