Fara í efni

KRAFTMIKILL BARÁTTUMAÐUR

Guðmundur Magnússon - ÖBÍ
Guðmundur Magnússon - ÖBÍ

Stundum hefur viðsemjendum og skömmtunarstjórum á kjör og réttindi öryrkja mislíkað þegar Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur tekið upp þykkjuna fyrir hönd félaga sinna í bandalaginu. Það hefur hann gert þegar honum hefur þótt að vaða ætti yfir sig og Öryrkjabandalagið þar sem hann hefur valist til forystu.

Ég hef verið samherji Guðmundar Magnúsonar í félagsmálabaráttunni um áratugi, fyrst sem formaður BSRB og síðan hafa leiðir okkar legið saman á vettvangi stjórnmálanna. Ég þekki því manninn vel. Á þessari löngu sameiginlegu vegferð hef ég margoft orðið þess vitni að hann reisir strangari kröfur á hendur samherja sinna en þeirra sem hann er á öndverðum meiði við, einfaldlega vegna þess að hann hefur ætlast til meira af þeim sem bjóða sig fram í nafni jafnaðar og félagshyggju en hinna sem hafa auðgildið sem vegvísi í sálinni. Gagnvart öllum hefur hannn hins vegar verið harður í horn að taka.

Þetta skrifa ég eftir að forsíðufrétt birtist  í Fréttablaðinu nýlega þar sem Guðmundur var gagnrýndur fyrir að hafa ekki náð meiri árangri í kjarabráttu fyrir öryrkja en raun bæri vitni. Síðan var vísað til gagnrýni fyrrverandi ráðherra, sem ég veit ekki hver á að vera, stjórnenda ríkisstofnana og forsvarmanna félagasamtaka sem áttu að hafa tekið undir gagnrýni á Guðmund.

Guðmundur Magnússon hafði sig talsvert í frammi í þeim málaflokkum sem heyrðu undir mitt verksvið í síðustu ríkisstjórn, bæði á sviði heilbrigðimála og mannréttindamála. Hann var fastur fyrir en jafnframt lipur og sanngjarn. Og hann náði árangri!

Á sínum tíma vorum við samherjar í gagnrýni á nýtt kerfi starfsendurhæfingar og vorum sammála um ranglætið sem í því fólst að búa til eitt kerfi fyrir fólk á vinnumarkaði án aðgengis öryrkja. Þar deildi Guðmundur við ýmsa „forsvarsmenn félagasamtaka", ef til vill þá sem nú eru sagðir gagnrýna hann. Við Guðmundur vorum alltaf sammála í þessari rimmu. Barátta Guðmundar skilaði ótvíræðum árangri með viðhorfsbreytingu sem smám saman hefur átt sér stað öryrkjum í hag. Aftur árangur!

Guðmundi Magnússyni fannst að ríkisstjórn VG og Samfylking hefði átt að standa betur vörð um kjör öryyrkja en hún gerði.  Hann gerði nefnilega, og réttilega, ríkar kröfur til okkar sem sátum í Stjórnarráðinu í nafni félagshyggju. ÖBÍ náði hins vegar  því fram sem mögulegt var tel ég vera í mesta efnahagshruni Íslandssögunnar! Ríkisstjórnin var ekki auðveld viðgfangs á þessum niðurskurðartímum þótt hún vildi standa vörð um hina tekjulægstu og verður að njóta sannmælis fyrir það að hafa breytt áherslum í skattkerfinu þeim í hag.
En Guðmundi þótti ekki nóg að gert og lét ríkisstjórnina heyra það! En að saka Guðmund Magnússon fyrir að beita sér ekki skynsamlega og af einurð og fyrir að ná ekki árangri er í hæsta máta ósanngjarnt þykir mér. Þess vegna þessi litli pistill.