Fara í efni

KRISTINN SNÆLAND KVEÐUR

Kristinn Snæland
Kristinn Snæland
Í orðsins fyllstu merkingu kvaddi Kristinn Snæland okkur í Seljakirkju í dag. Hann var vissulega kvaddur en einnig kvaddi hann sjálfur í bráðgóðu ávarpi til okkar, sem fylgdum honum til grafar, og gat það að líta á stórum sjónvarpsskjá í erfidrykkjunni að útfararathöfninni lokinni.

Þar fór Kristinn yfir nokkra þætti í lífshlaupi sínu, sagði falleg orð um fjölskyldu og vini og kvaddi síðan.
Ávarpið var á hlýjum en jafnframt léttum nótum og mjög í anda Kristins sem var búinn að hugsa allt í þaula eins og honum einum var lagið.

Vandfundinn var áhugasamari maður um samfélag sitt en Kristinn Snæland. Hann átti viðburðaríka ævi, var rafvirkjameistari,  hafði verið leigubílstjóri, sveitarstjóri, unnið í skipasmíðastöð, verið forstjóri í eigin fyrirtæki, verktaki og verkamaður og síðan að sjálfsögðu mikill félagsmálamaður. Hvar sem hann hafði borið niður hafði orðið til félag og útgáfa upplýsinga- og vakningarrita.

Lengst af var Kristinn framsóknarmaður en kannski fyrst og fremst eldheitur samvinnumaður. Ef honum þótti forysta Framóknarflokksins  verða viðskila við þá hugsjón var ekki að sökum að spyrja enda hef ég grun um að samskiptin við forystumenn ýmsa á þeim pólitíska bæ hafi kulnað þegar leið undir lok síðustu aldar.

Við Kristinn hittumst endrum og eins og fór jafnan vel á með okkur. Mér þótti alltaf gott að finna fyrir hinum brennandi anda hans.

Í útfararræðu séra Ólafs Jóhanns Borgþórssonar í Seljakirkju sem var prýðileg og bar vitni persónulegra kynna þeirra, kom fram að Kristinn hafði sjálfur valið tónlist og söngefni fyrir athöfnina og speglaði það val huga velviljaðs og viðkvæms manns, ´"Ó faðir, gjör mig styrkan staf/að styðja hvern sem þarf,/uns allt það pund, sem Guð mér gaf,/ég gef sem bróðurarf", úr sálmi Matthíasar, og hið hugljúfa ljóð Davíðs Stefánssonar, Mamma ætlar að sofna var þar á meðal.

Ég hafði ráðgert að hitta Kristin Snæland yfir kaffibolla þegar ég sá andlátsfregn hans um helgina. Í dag drakk ég hins vegar kaffi í hans boði og hlustaði á hann tala. Nákvæmlega það hafði ég ætlað mér að gera. En að sjálfsögðu hefði ég viljað hitta Kristin lífs og með langa ævidaga framundan. Af því gat hins vegar ekki orðið.
En ég þakka fyrir mig.

p.s.
En hvílík bjartsýni!
Alltaf næsta skref. Alltaf framhald.
Kristinn sagðist myndi taka vel á móti okkur þegar þar að kæmi! Frábært. Þetta er ekki eins og að fylgja manni í dauðann heldur kannski svolítið eins og að vera skilinn eftir. Aðalmaðurinn væri kominn á miklu eftirsóknarverðari stað. En svo muni þetta lagast síðar. Þegar við sameinumst að nýju á hinum grænu völlum!