KVEÐJUR Á BARÁTTUDEGI VERKALÝÐSINS
1. maí, baráttudagur verkalýðsins, er jafnan hátíðisdagur í mínum huga. Það liggur við að ég geti rakið hvernig ásýnd Esjunnar hefur verið þennan dag langt aftur í tímann.
Ég fer jafnan snemma á fætur hinn 1. maí, spenntur að sjá hvernig kemur til með að viðra á útifundarfólk. Veðrið brást ekki í dag, svalt en glampandi sól, alla vega hér sunnanlands.
Esjan ber vott köldu vorinu. Í hlíðum hennar og hamrabeltum er nú meiri snór á þessmum degi en ég man nokkru sinni eftir 1. maí.
Hitastigið er þó annað og hærra innra með fólkinu sem sótti baráttufundina í dag.
þessi orð eru skrifuð að kvöldi dags. Engum blöðum er um það að fletta að hugur er mikill með íslensku launafólki. Krafan sem stóð uppúr hverjum manni sem fjölmiðlar ræddu við í dag var JÖFNUÐUR. Fólk vill jöfnuð og fólk vill standa vörð um auðlindir þjóðarinnar og koma í veg fyrir að dólgar steli þeim frá okkur eins það var orðað svo ágætlega á Lækjartorgi í dag.
Ég óska öllum til hamingju með daginn og megi almennu launafólki vegna vel í þeirri baráttu sem framundan er.