KYNDARAR KAUPMENNSKUNNAR
Ein röksemd þeirra sem vilja afnema ÁTVR og koma áfengissölunni til kaupmannsins á horninu, þannig að kúnninn þyrfti helst aldrei að ganga nema eitt hundrað metra til að komast í bjór eða brennivín, er sú að með því móti drekki menn minna. Meiri líkur séu á því að takmarkanir, landfræðilegar og í opnunartímum, valdi því að fólk kaupi meira magn af hræðslu við að vera orðið uppiskroppa þegar kallið kemur.
Mér hefur aldrei þótt þessi röksemd vera sérlega sannfærandi. En því nefni ég hana að ég tel rétt að viðurkenna í upphafi máls míns að ég kann að vera kominn í dálitla mótsögn við sjálfan mig þegar magninnkaupin eru annars vegar. En svo kann að eiga við um fleiri.
Eflaust er það rétt hjá IKEA forstjóranum og fleirum - þar á meðal almennum neytendum sem tjá sig þessa dagana um ágæti lágvöruverslana á borð við Costco - að íslensk verslun eigi ekkert inni hjá neytendum svo yfirgenglega hafi verið okrað á þeim í gegnum tíðina. Þess vegna sé um að gera að yfirgefa sína kaupmenn og róa á þau mið sem gefa best og mest.
Já, alla vega mest. Það er lóðið. Lágvöruverslun gengur út að selja sem mest.
Talsmenn Costco segja Íslendinga hafa slegið öll magnmet. Hvergi annars staðar á jarðarkringlunni hafi innkaupin verið stórfenglegri á opnunarhátíð verslunarkeðjunnar.
þetta er ekkert nýtt hjá landanum. Hann a mörg fyrri met þegar innkaup eru annars vegar. Elsta kynslóðin man innkaupaferðirnar til Glasgow þar sem lagt var upp í för með tómar ferðatöskur og síðan komið heim með þær úttroðnar. Hillur Marks og Spencer stóðu eftir auðar. Síðan komu nýjar kynslóðir og nýjar borgir og búðir og sagan endurtók sig.
Mestur var hamagangurinn á erlendri grundu. En útsölurnar á heimavelli skiluðu líka sínum ávinningi.
Það var málið, allir voru að græða. Og því fleiri skyrtubolir og úlpur sem keyptar voru á kostakjörum því meiri var gróðinn. Hann var stimplaður inn við búðarborðið, beggja vegna borðsins.
Síðan kom næsti kafli: Að nota og njóta. Það gat reyndar brugðið til beggja vona. Starfsmenn hjálparstofnana hafa sagt að augljóst samhengi hafi verið á milli mestu innkaupahrinanna og innstreymis til þeirra á fatnaði - ónotuðum.
Hvort þrjátíu pakkar af snúruklemmum úr Costco verði notaðir eða tíu kíló af Tobleróne sporðrennt á náttúrlega eftir að koma í ljós.
Eitt getur kaupandinn þó vitað. Hann er að græða miðað við verðið á næsta bæ. Honum var að vísu gert að fá skírteini og þar með óbeina skuldbindingu fyrir því að hann muni leggjast í magninnkaup; enda yrði hann að gera sér grein fyrir að hann væri stiginn inn í vélarsal kaupmennskunnar. Og í þeim sal gefa kyndararnir ekkert eftir. En allir taka þátt, allir að græða. Því meira keypt þeim mun meiri gróði kaupmannsins og kaupandans.
Ekki að undra að Costco vilji komast í dreifingu á brennivíni á Íslandi samkvæmt sömu formúlu. Því meira drukkið þeim mun meiri gróði.
Er ég þá sammala´þeim sem vara við magnsölu? Ætli þetta sé ekki þegar upp er staðið komið undir því hver seljandinn er, hvað fyrir honum vakir og hvaða aðferðum hann beitir til að hámakra neysluna og þar með söluna? Svo berum við kannski einhverja ábyrgð líka sem neytendur. Ágætt fyrsta skref er að koma auga á kyndarana í vélarsal kaupmennskunnar og skilja hvað fyrir þeim vakir.