Læknar á hálum ís
Fram kemur í fréttum að Læknafélag Íslands sé ósátt við að Tryggingastofnun ríkisins, TR, bendi sjúklingum, sem þurfi á aðstoð að halda, á að leita til heilsugæslunnar og göngudeilda sjúkrahúsanna. Það er skiljanlegt að sérfæðilæknum, sem eiga í kjaradeilu svíði þetta. Þegar þeir hins vegar bæta því við að "þetta hljóti að vera sem blaut tuska framan í þá 200-300 starfsmenn Landspítala – Háskólasjúkrahúss, LSH, sem segja á upp störfum nú um áramótin", þá hætti ég að skilja hvað snýr upp og hvað niður. Ein ástæðan fyrir því að þrengt er að sjúkrahúsunum er sú, að hægt og bítandi hefur starfsemi verið færð út af sjúkrahúsunum og til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Við megum ekki gleyma því að niðurskurður á einum stað þýðir yfirleitt að þjónustan er flutt til annarra aðila. Hana þarf nefnilega að veita áfram. Ef skorið er niður um hálfan annan milljarð á sjúkrahúsi þá þýðir það, þegar til lengri tíma er litið, að þessum peningum verður varið annars staðar. Tekist hefur verið á um það hvar eigi að veita læknisþjónustuna, innan heilsugæslunnar og á sjúkrahúsum annars vegar, eða á einkareknum stofum hins vegar. Þegar á heildina er litið má segja að almenn sátt hafi ríkt í þjóðfélaginu um þann kokteil sem hér hefur verið á opinberum rekstri og einkarekstri þótt ég telji að þróunin á undanförnum árum og misserum hafi um of verið á kostnað almannaþjónustunnar.
Nú hefur komið á daginn að stærsta læknastofa landsins hefur kært LSH til samkeppnisyfirvalda fyrir brot á samkeppnislögum! Það sé verið að niðurgreiða þjónustu sem eigi að vera á samkeppnismarkaði!! Læknafélg Íslands kórónar nú allt með því að segja að beini TR sjúklingum inn í almennu heilsugæsluna eða á sjúkrahús þá sé það að öllum líkindum lögbrot. Og lögin sem Læknafélagið segir brotin eru samkeppnislög. Talsmenn sérfræðilækna skyldu fara varlega í að tala um blautar tuskur. Almennt eru læknar samfélagslega sinnuð og ábyrg stétt. Hún má ekki láta bisnissmenn úr sínum röðum taka völdin og stýra för í kjarabaráttunni.