Fara í efni

LANDSPÍTALI SVELTUR Á MEÐAN EINKAVÆÐINGIN ER UNDIRBÚIN


Landspítali Háskólasjúkrahús slapp fyrir horn með fjáraukalögunum. Hann fékk pening til að komast fyrir horn. Það er að segja þetta árið. Næsta ár verður allt í hers höndum, það er ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt. Landspítali Háskólasjúkrahús þyrfti að fá að minnsta kosti milljarð til viðbótar því sem honum er ætlað í fjárlagafrumvarpinu til að halda í horfinu. Takið eftir: Til að halda í horfinu. Og þetta eftir sveltistefnu undangenginna ára.
Í uppgjöri fyrir árið 2006 fyrir LSH kemur fram að rekstrarkostnaður á föstu verðlagi hafi staðið í stað undangengin sjö ár. Raunkostnaður hafi með öðrum orðum, verið óbreyttur. Og það þrátt fyrir stóraukið álag.

Enn reynt að herða að starfsfólkinu?

Hvernig hefur þessu verið mætt? Þessu hefur verið mætt með því sem Ríkisendurskoðun skilgreindi í skýrslu sinni um starfsemina sem aukna “framleiðni” vinnuaflsins. Í skýrslu RSK var talað um framleiðniaukningu uppá 12,6% á árunum 1999-2004. Sú þróun hefur haldið áfram. Á mannamáli þýðir “framleiðniaukning” í einhverjum tilvikum kerfisbreytingar sem eru eðlileg hagræðing með nýju fyrirkomulagi og tækni, í öðrum tilvikum þýðir hún hins vegar aukið álag á þá sem eru starfandi. Ekki gleyma því að 70% af rekstrarkostnaði spítalans eru laun. Á að halda áfram á þeirri braut? Á að herða enn að starfsfólkinu? Vita menn hvað þeir eru að gera? Er ef til vill vísvitandi verið að svelta heilbrigðiskerfið til undanhalds, það er að segja hið samfélagslega rekna kerfi? Búa í haginn fyrir einkareksturinn?
Þegar allt er komið í óefni er einkarekstrarmönnum ætlað að stökkva inn á sviðið – sem frelsandi englar. Mér skilst að allt sé að verða klárt varðandi undirbúning í Garðabænum fyrir nýjan einkarekinn spítala og fyrrum húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík opnar bráðum sínar dyr.
Hvað skyldi byggingin verða kölluð þegar hún er orðin einkaspítali? Kannski Heilsuverndarstöð Reykjavíkur?

Heilbrigðisráðherra gerir klárt fyrir einkavæðinguna

Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra, otar nú að Alþingi lagabreytingum um sérstaka verslunarmiðstöð fyrir heilbrigðisþjónustu. Hún á að vera tilbúin þegar einkaspítalarnir eru klárir. Þá verður viðkvæðið að ekki megi mismuna ríkisrekstri annars vegar og einkarekstri hins vegar. Geir, forsætisráðherra, sagði jú nýlega að miklar breytingar væru í nánd – í heilbrigðiskerfinu. Nú hefði Sjálfstæðisflokkurinn nefnilega svo leiðitaman förunaut í Stjórnarráðinu. Ég man ekki hvaða orð hann notaði. En þetta var það sem hann meinti. Þannig skyldi ég það alla vega. En getur verið að Samfylkingin...?