LANDSVIRKJUN VILL VIRKJA SKÓLABÖRN
Landsvirkjun hefur sent skólastjórnendum í landinu bréf þar sem skýrt er frá því að ætlunin sé að skólabörn taki þátt í að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun, umdeildustu virkjun í sögu þjóðarinnar. Óskað er eftir samstarfi við skólana um að virkja börnin í samkeppni um að komast í hóp þeirra sem fá að vera með hópi þeirra sem leggja hornsteininn að virkjuninni, væntanlega Valgerði iðnaðarráðherra, Friðriki forstjóra og fulltrúa Impregilo. Í bréfi Landsvirkjunar segir m.a.: "Nú stendur Landsvirkjun eins og alkunna er fyrir byggingu stærstu virkjunar Íslandssögunnar við Kárahnjúka. Þar verður lagður hornsteinn að virkjuninni næsta vor og hyggst Landsvirkjun bjóða fulltrúum ungu kynslóðarinnar að taka þátt í að leggja hann. Til að velja þessa fulltrúa mun Landsvirkjun efna til samkeppni þar sem nemendum verður boðið að vinna verkefni tengd orkumálum og verða þau sniðin að mismunandi aldursstigum grunnskólans. Samkeppnin fer fram eftir áramót og er reiknað með að nemendur skili verkefnunum í mars."
Nú er það svo að um dagana hefur Landsvirkjun gert marga ágæta hluti, sem stundum vilja gleymast af hálfu okkar gagnrýnenda stóriðjustefnunnar, í hita baráttunnar. Hinu verður ekki horft framhjá að Kárahnjúkavirkjun og reyndar önnur verkefni sem Landsvirkjun hefur á prjónunum, hafa skipt þjóðinni í fylkingar. Þar hefur þessi stofnun sem við eigum öll ekki látið við það sitja að framkvæma vilja ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis, heldur einnig beitt sér af alefli í áróðri fyrir stjórnarstefnunni. Þegar nú ruðst er inn í skólastofur barnanna með þennan áróður er mál að linni. Til eru takmörk sem stofnuninni ber að virða. Landsvirkjun ber að draga bréf sitt til skólanna til baka og láta iðnaðarráðherrann og forstjórana tvo, hinn íslenska og hinn ítalska múra inn grunnsteininn á vori komanda. Það á ekki að gera börnin samsek með þeirri gjörð.
Eftrifarandi er bréf Landsvirkjunar:
Efni:
Verkefni um orkumál – samkeppni í grunnskólumÁgætu skólastjórnendur
Landsvirkjun hefur á undanförnum árum stutt vinnu við eflingu á fræðslu um orku og orkumál í grunnskólum. Má þar nefna tvö námskeið fyrir kennara í samstarfi við hóp grunnskólakennara og annað skólafólk (svonefnt Nordlab-verkefni), orkuvef, orkuþing skóla og fræðsluvef Landsvirkjunar.
Nú stendur Landsvirkjun eins og alkunna er fyrir byggingu stærstu virkjunar Íslandssögunnar við Kárahnjúka. Þar verður lagður hornsteinn að virkjuninni næsta vor og hyggst Landsvirkjun bjóða fulltrúum ungu kynslóðarinnar að taka þátt í að leggja hann. Til að velja þessa fulltrúa mun Landsvirkjun efna til samkeppni þar sem nemendum verður boðið að vinna verkefni tengd orkumálum og verða þau sniðin að mismunandi aldursstigum grunnskólans. Samkeppnin fer fram eftir áramót og er reiknað með að nemendur skili verkefnunum í mars.
Það er von okkar að sem flestir skólar og kennarar telji gagn að því að nýta hugmyndir okkar að verkefnum og fræðsluefnið sem þeim fylgir, til þess að vinna t.d. þemaverkefni um orku og orkumál eftir áramótin og stuðli að því að nemendur taki þátt á samkeppninni.
Nánari upplýsingar verða sendar öllum grunnskólum landsins þegar nær dregur keppninni ásamt upplýsingaveggspjaldi sem hengja mætti upp í skólastofum. Einnig verður upplýsingar um verkefnin að finna á Orkuvefnum,
www.orkuvefurinn.is (www.nordlingaskoli.is/orka), og á fræðsluvef Landsvirkjunar sem finna má á www.lv.is ( www.lv.is/category.asp?catID=421 ).Það er von okkar að bæði kennarar og nemendur komi til með að hafa gagn og gaman af þessu framtaki. Vinsamlegast látið upplýsingar þessar berast kennurum skólans.
Með bestu kveðju
Friðrik Sophusson
forstjóri
Afrit: Menntamálaráðherra
Skrifstofa menntamála, Menntamálaráðuneytinu
Skólafulltrúi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Fræðslu- og skólaskrifstofur