Langar ríkisstjórnina til að rifja upp gamla tíma?
Mér fannst árið vera 1984 þegar Jónatan Þórmundsson prófessor við Háskóla Íslands birtist á sjónvarpsskjánum í kvöld. Í fréttaviðtali fjallaði Jónatan um lagafrumvarp Geirs H Haarde fjármálaráðherra, sem heimilar forstöðumönnum í ríkisfyrirtækjum að reka starfsmenn án skýringa. Allir hljóta að leggja við hlustir þegar Jónatan Þórmundsson leggur orð í belg og þegar hann víkur að grundvallarréttindum á vinnumarkaði er vert að hafa í huga að þar talar maður sem veit sínu viti. Ekki hef ég gleymt hinum harðvítugu deilum sem urðu á vinnuborði lögfræðistéttarinnar í kjölfar verkfalls BSRB árið 1984. Þar kemur tengingin við það ártal. Launafólkið var hundelt, jafnvel upp tvö dómsstig, alla leið í Hæstarétt, til að reyna að höggva í réttindi þess. Sú aðför bar mjög takmarkaðan árangur enda risu mannréttindasinnar upp til varnar en þar fór einmitt framarlega í flokki Jónatan Þórmundsson. Hann talaði af meira viti og víðsýni um ágreiningsefni sem risu í kjölfar verkfallsins en flestir aðrir menn úr hans stétt.
Svo er að skilja að ríkisstjórninni þyki frumvarp Geirs H. Haarde vera mikið framfaramál. Það þykir Jónatan Þórmundssyni greinilega ekki. Í sjónvarpsviðtalinu tengdi hann þetta stjórnarfrumvarp mannréttindum – eða öllu heldur mannréttindabrotum. Sérstaklega horfði Jónatan Þórmundsson til Háskóla Íslands. Starfsmönnum hans væri ætlað að halda uppi gagnrýnni umræðu í þjóðfélaginu. Þessi lög samrýmast ekki því hlutverki sagði lagaprófessorinn. Eitt væri að segja upp manni, sem ekki rækir starfsskyldur sínar. Annað að láta einstakling gjalda skoðana sinna. Hætta væri fyrir hendi að einmitt sú yrði raunin ef hægt yrði að reka mann án nokkurra skýringa; einfaldlega vegna þess að yfirvaldið hefði tekið um það ákvörðun!
Þessari yfirgangs- og valdboðshugsun hafa samtök launafólks vísað til föðurhúsanna. Það er margt ágætt að hafa úr liðinni tíð og þess virði að varðveita. Þegar ein ríkisstjórn er hins vegar farin að tína það versta úr fortíðinni til að festa í landslög gegnir öðru máli. Ef ríkisstjórnin hefur hug á að rifja upp gamla tíma þá skulum við hafa heildarmyndina undir – líka viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar þegar reynt hefur verið að brjóta á launafólki. Þar er verkfall BSRB árið 1984 prýðilegt dæmi.