Fara í efni

LANGTÍMASÁTT UM LANDSPÍTALA

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20/21.02.16.
Stundum er svo komið í ákvarðanatöku að erfitt er að snúa til baka. Það á til dæmis við um endurnýjun Landspítalans við Hringbraut. Ótal skipulagsnefndir og óslitin röð heilbrigðisráðherra blessuðu, eða létu óátalin, áform um að byggja, eða eigum við að segja endurreisa, sjúkrahúsið á sínum gamla stað.

Sjálfur var ég einn af þessum heilbrigðisráðherrum. Ég var líka einn af þegnum þessa lands sem fagnaði nýjum barnaspítala á Landspítalareitnum og vonandi verður nýtt sjúkrahótel, sem skóflustunga var nýlega tekin fyrir á sama stað, landsmönnum til góðs.

Samt finnum við mörg fyrir óþægindatilfinningu sem fylgir því að halda við ákvörðun sem eldist illa. Það er nefnilega margt sem hefur breyst frá því umrædd ákvörðun var upphaflega tekin, þar á meðal í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins og þróun byggðar. Þungamiðja byggðar hefur færst til og möguleikar til greiðra samgangna fyrir einn stærsta vinnustað landsins, sem jafnframt er viðkomustaður fyrir enn fleira fólk, hefur þrengst.

Koma þá upp í hugann orð Guðjóns heitins Magnússonar, fyrrum aðstoðarlandlæknis, en hann útlistaði einhverju sinni fyrir mér sinn draumastað fyrir nýjan spítala. „Við eigum að byggja í landi Keldna", sagði hann. Og bætti síðan við á þá leið að við ættum að byggja upp í loftið. Í stað þess að þurfa að ganga kílómeter frá einni deild á aðra, ættum við að geta þotið upp og niður í lyftum á milli starfssviða.

Guðjón benti ennfremur á að Keldur væru staðsettar þar sem þjóðvegurinn vestur og norður mætir veginum að sunnan og austan og hvað þéttbýlissvæðið áhrærir þá kæmi þessi nýja staðsetning til með að vera í miðju borgarsvæðinu eins og það er að þróast. Utan í Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ, Breiðholti og Mosfellsbæ og einhvern tímann kæmi Sundabraut sem gerði allar samgöngur enn greiðfærari inn á þetta svæði.

Oft hef ég hugsað til þessara hugmynda Guðjóns Magnússonar og eflaust hafa fleiri komið auga á það sem mér virðist nú vera hið augljósa um staðsetningu til framtíðar fyrir okkar stærsta sjúkrahús.

Þá er komið að minni spurningu. Útilokar önnur staðsetningin hina? Ef við nú leyfum okkur þann munað að hugsa langt fram í tímann, svona fimmtíu til hundrað ár, sem reyndar er ekkert óskaplega langt, ef út í það er farið, má þá ekki vel framkvæma hvoru tveggja: Byggja upp aðstöðu við Hringbraut sem þjóni okkur næstu áratugi en halda jafnframt Keldnalandinu óspjölluðu fyrir framtíðaráform um heilbrigðismiðstöð allra landsmanna?

Til umhugsunar er að hin glæsilega gamla höfuðbygging Landspítalans, sem fyrir löngu er hætt að svara kalli tímans sem sjúkrahús, var vígð í árslok árið 1930, fyrir nánast réttum 85 árum. Það er ekki lengra síðan!