LANGTÍMAVÖRUR OG SKAMMTÍMAVÖRUR LANDSVIRKJUNAR
Það er ekki að spyrja að dugnaði ríkisstjórnarinnar. Búið að opna raforkukauphöll og “raforkumarkaður” að verða að veruleika með milliliðum og öllu tilheyrandi.
Landsvirkjun að verða uppáklædd, fyrst til þess að selja sjálfa sig - það sem hún hefur að bjóða - og síðan að verða seld. Formúlan er sú sama og alltaf áður. Nei, nei, ekki stendur til að selja, bara eðlilegar kerfisbreytingar. Við erum bara að gera allt sem allir aðrir eru að gera.
En svo er náttúrlega selt.
En fyrst er að koma á markaði. Þegar byrjað var á því að aðgreina framleiðslu, flutning og smásölu raforkunnar upp úr aldamótum var því andmælt af orkugeiranum - öllum orkugeiranum eins og hann lagði sig! - allir þar sáu fram á að með aðgreiningunni yrði dregið úr samvinnu og samhæfingu og fjölgað flækjustigum. Á þingi skildi einn stjórnmálaflokkur hvað um var að vera og sýndi fram á brotalamirnar í málflutningi markaðssinna. Það var Vinstrihreyfingin grænt framboð.
Það var þá.
Fyrst kom Orkupakki1, síðan Orkupakki2 og fyrir ekki svo ýkja löngu var enn eitt skrefið stigið - mjög afdrifaríkt skref - í átt að markaðsvæðingu kerfisins. Þetta var Orkupakki3.
Nú voru komnar aðrar gagnrýnar raddir á þingi, að vísu alltof fáar, og úti þjóðfélaginu sprottin upp hreyfing úr röðum kunnáttumanna úr orkugeiranum, úr heimi rannsókna og vísinda og síðan vorum það við sem ekki erum sérfræðingar í neinu en teljum okkur þó skilja að tveir plús tveir eru fjórir. Á VG var hins vegar slokkknað. Og þegar Orkupakki3 kom til sögunnar höfðu gleymst þar á bæ loforðin frá í gær. Eða ef til vill þótti bara meira um vert að halda góðri stemningu við ríkisstjórnarboðið.
Og þessi afstaða hefur orðið smitandi út í kerfið. Enda vilja flestir þar í lengstu lög forðast það að vera til vandræða og spilla góðri stemningu.
Og viti menn, engu líkara er en starfsmenn Landsvirkjunar séu nýútskrifaðir úr málaskóla, farnir að temja sér tungutak sem engum manni í landinu hefur frram til þessa verið tamt. Þannig heitir grunnorka nú langtímavara og sala til neytenda kallast skammtímavara.
Allt er nú vara. Líka vatnið. Heitt vatn og kalt hefur hingað til verið nákvæmlega þetta, heitt vatn og kalt vatn. Eins er það með rafmagnið. Hingað til hefur það einfaldlega kallast rafmagn og komið frá orkulindum sem við eigum öll saman, eins og alla starfsemina sem því tengist að fá kveikt ljósin á heimilum okkar og knúið vélarnar í fyrirtækjunum.
Allt þetta heitir nú vara, og sem áður segir hefur verið opnuð kauphöll svo fram geti farið viðskipti með þessa vöru og kannski verður þar líka hægt að skiptast á eignarhlutum í öllum nýju milliliðunum á raforkumarkaði. Spyr sá sem ekki veit. En það sem ég hins vegar tel mig vita er að þetta kerfi er ekki í þágu landsmanna heldur fjárfesta sem okkur er nú ætlað að hafa á framfæri okkar. Fæstir þeirra vita mikið um raforkumál og kunna lítið meira en að stinga rafmagnssnúru í samband en þeir eru hins vegar á heimavelli í kauphölllinni.
Forstjóri Landsvirkjunar segir að sér finnist allt þetta mjög spennandi þróun! (Hrollvekjandi segir Orkan okkar.) https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2024/05/13/landsvirkjun_tekur_fyrstu_skref_inn_a_skipulegan_ra/
Samt er það nú svo að þrátt fyrir þennan undirbúning einkavæðingarinnar eigum við að uppistöðu til enn orkuna og orkufyrirtækin – að undanskilinni HS Orku.
En þess verður skammt að bíða að krafan verður reist um sölu Landsvirkjunar sem þegar allt kemur til alls er bara verslunarfyrirtæki með vörur á markaði þar sem lögmál hans gilda ein eins og forstjóri annarrar stofnunar benti á. Inntakið var þetta: Raunsæið og reynslan kenndu að markaðurinn einn og sér gæti aldrei tryggt orkuöryggi almennings, þar yrði annað og meira að koma til.
Það var orkumálastjórinn, Halla Hrunda Logadóttir, sem mælti á þessa leið fyrr a árinu og fljótlega fékk hún að heyra að stofnun hennar yrði senn lögð niður. Og ekki nóg með það, af nýjustu fréttum að dæma leggja menn nú dag við nótt í ráðuneytum þeirra Þórdísar Kolbrúnar utanríkisráðherra, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaugs Þórs, umhverfisráðherra úr sama Sjálfstæðisflokki, að finna það út að orkumálastjórinn, sem nú er einnig í forsetaframboði (sem skýrir kannski sumt) hafi farið út fyrir verksvið sitt þegar hún undirritaði viljayfirlýsingu við systurstofnanir erlendar um samstarf varðandi loftslagsmál og endurnýjanlega orku.
Vandséð þykir mér vera hvað í ósköpunum geti verið ámælisvert við slíkt samstarf? Í yfirlýsingum þeirra ráðuneytisstjóra, sem greinlega hefur verið gert að koma fram fyrir hönd fyrrnefndra ráðherra, kemur aldrei fram hvað orkumálastjóri hafi efnislega gert rangt. Ekki snýst þetta um virkjanir eða brask, engar skuldbindingar gefnar, aðeins staðfestur vilji til að miðla þekkingu og starfa saman í samræmi við sameiginlega stefnu viðkomandi ríkja. Svona eins og menn gerðu í gamla daga áður en kauphallirnar fóru að láta að sér kveða.
Svona er Ísland smám saman rifið í sundur, ekki fyrir neina tilviljun heldur samkvæmt markvissum ásetningi og úfærðri stefnu, kannski líka sinnuleysi eða þá bara hinu gamla góða að vilja ekki fyrir nokkurn mun spilla friðnum við kjötkatlana og stemningunni í góðra vina hópi.
Spurningin er þá hver sá góðra vina hópur er og hvað fyrir honum vakir.
Lítillega aðlagað gamalt spakmæli segir: Segðu mér hverjum þú kýst að starfa með og ég skal segja þér hver þú ert.
--------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.