LÁTUM FRAMTÍÐINA BYRJA 12. MAÍ!
Birtist í Víkurfréttum
Hvernig hefði ástandið verið á Alþingi á undanförnum tveimur kjörtímabilum ef Vinstrihreyfinigin grænt framboð hefði ekki átt þar fulltrúa? Við vorum ekki nema 5 talsins, á móti 22 þingmönnum Sjálfstæðisflokks, 20 þingmönnum Samfylkingarinnar, 12 þingmönnum Framsóknarflokksins og 4 þingmönnum Frjálslyndra. Á kjörtímabilinu þar á undan voru þingmenn VG einum fleiri og munaði miklu um þá fækkun.
Núna stöndum við frammi fyrir hótunum um að einkavæða heilbrgiðskerfið, selja orkufyrirtækin og halda áfram án þess að staldra við – ekkert stopp – á hraðferð til aukins misréttis í þjóðfélaginu. Hvaða flokkur er líklegastur til að afstýra stórslysum á komandi árum, slysum á borð við það að fjölþjóðlegir auðhringir eignist Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki? Þá gæti sú stund runnið upp að Alcan semdi við Alcan um raforkuverð! Erlendis frá berast nú fréttir af afleiðingum einkavæðingarinnar, ekki síst í raforkugeiranum. Hún hefur alls staðar getið af sér fákeppni og hækkað raforkuverð. En samt, samt á að einkavæða! Ég spyr: hverra erinda ganga þeir stjórnmálaflokkar sem að slíku vilja stefna? Ég fæ ekki séð hvernig fákeppni eða einokun einkaaðila og hærra orkuverð getur þjónað hagsmunum þjóðarinnar.
Hvað velferðarþjónustuna varðar er fráleitt að halda með hana inn á markaðstorgið. Einkarekin samfélagsþjónusta er vís leið til ranglætis og aukins ójöfnuðar, hún mismunar fólki og hún er dýrari fyrir þá sem greiða fyrir hana, hvort sem það er notandinn beint eða skattgreiðandinn. Ríkisendurskoðun sagði í úttektarskýrslu um þetta efni að það væri eðlilegt því eigendurnir þyrftu að fá arð af fjárfestingum sínum.
Hvaða flokkur skyldi vera líklegastur til að afstýra slysum af þessu tagi? Það er mikilvægt að kjósendur reyni í alvöru að svara þessari spurningu. Og reyndar annarri spurningu til viðbótar. Er líklegt að í landinu verði mynduð raunveruleg velferðarstjórn án þátttöku VG? Ég er sannfærður um að svo verður ekki. Í þessu kjördæmi, Kraganum sem svo er oft nefndur, skipum við Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tvö efstu sætin. Samkvæmt skoðanakönnunum er mjótt á mununum um hvort Guðfríður Lilja nær kjöri. Það væri mikið ólán ef svo yrði ekki.
Ég hef trú á því að hún sé stjórnmálamaður framtíðarinnar. Látum framtíðina byrja 12. maí með því að tryggja henni sæti á Alþingi.